Um Haga

Stærstu verkefni ársins

Breyting verslana

Unnið var að nokkrum stórum verkefnum á rekstrarárinu. Ber þar hæst breytingu á verslun Hagkaups í Smáralind sem var minnkuð um 4.840 m2. Endurbætt og glæsileg verslun var opnuð í byrjun nóvember sl. Samhliða breytingunni var opnað fyrsta Krispy Kreme-kaffihúsið á Íslandi, en kleinuhringjaframleiðslan fer fram fyrir augum viðskiptavina Hagkaups inni í versluninni.

Á árinu var einnig gerð breyting á verslun Útilífs í Smáralind, og var hún var flutt í austurenda Smáralindar, við hlið Hagkaups. Ný verslun var opnuð í nóvember þar sem starfsemi verslananna í Smáralind og Glæsibæ var sameinuð.

Keyptar fasteignir

Í janúar var skrifað undir kaupsamning um kaup Haga á 4.706,3 m2 eignarhluta í Skeifunni 11, auk hlutfallslegrar hlutdeildar í sameign. Þá keypti félagið hluta fasteignarinnar við Faxafen 14 þar sem verslun Bónus er til húsa.

Lokun verslana

Á rekstrarárinu var rúmlega 18.400 m2 af verslunarrými lokað hjá félaginu. Verslun Útilífs í Glæsibæ var lokað undir lok árs 2016 og í janúar var verslun Debenhams lokað í Smáralind eftir rúmlega 15 ára starf. Þá var efri hæð Hagkaups í Kringlunni lokað í febrúar. Verslunum Evans í Smáralind og Warehouse í Kringlu var einnig lokað á árinu. Að síðustu var outlet-markaði sem félagið rak á Korputorgi lokað um mitt ár.

Endurgreiðsla ólögmætra gjalda

Á rekstrarárinu skiluðu Bónus og Hagkaup um 175 millj. kr. af ólögmætum gjöldum ríkissjóðs til viðskiptavina sinna í formi niðurgreiðslu á innfluttum kjúklingi og nautalundum. Forsaga málsins er sú að í janúar 2016 var kveðinn upp dómur í Hæstarétti í máli Haga gegn íslenska ríkinu þar sem Högum voru dæmdar 245 milljónir króna auk vaxta vegna ólögmætrar gjaldtöku ríkissjóðs af innfluttum landbúnaðarvörum. Eftir dóminn gerði félagið frekari kröfu á íslenska ríkið og fengust 217 millj. kr. greiddar þó að enn sé ágreiningur um eftirstöðvarnar. Strax í kjölfar dómsins var tekin ákvörðun um að skila fjármununum til viðskiptavina félagsins. Því verður áfram boðið lægra verð en ella þar til öllum framangreindum fjármunum hefur verið skilað til viðskiptavina.

Endurkaupaáætlun

Á aðalfundi Haga sem haldinn var í júní 2016 var samþykkt að heimila félaginu að kaupa á næstu 18 mánuðum allt að 10% af heildarhlutafé í þeim tilgangi að koma á viðskiptavakt með hluti í félaginu og/eða til að setja upp formlega endurkaupaáætlun. Í september 2016 fór framkvæmd endurkaupaáætlunar í gang og lauk henni í nóvember 2016. Endurkaup félagsins námu 19 millj. hluta að nafnvirði, fyrir samtals 1.000 millj. kr. og eiga Hagar nú samtals 1,6% af heildarhlutafé félagsins.