Um Haga

Stærstu verkefni ársins

Breyting verslana

Miklar breytingar voru gerðar á verslun Hagkaups í Kringlunni á rekstrarárinu. Verslunin var minnkuð um tæplega 3.500 fm í febrúarlok 2017 þegar hún var flutt á 1. hæð verslunarmiðstöðvarinnar. Framkvæmdum við breytingarnar lauk í októberlok 2017 þegar endurbætt og stórglæsileg verslun var opnuð.

Hagkaup-kringla

Þrjár verslanir Bónus fóru einnig í gegnum endurnýjun á rekstrarárinu. Verslunin í Kauptúni var endurnýjuð og stækkuð og lauk þeirri framkvæmd í maí 2017. Stærsta verkefnið var þó breyting verslunarinnar í Smáratorgi en hún var stækkuð um 700 fm., en ný og endurbætt verslun var opnuð um miðjan október 2017. Seinni hluta árs hófust svo framkvæmdir við endurnýjun og stækkun á verslun Bónus við Langholt á Akureyri. Þeirri framkvæmd lauk á rekstrarárinu sem nú er hafið.

Bonus-smaratorg

Verslun Zara í Smáralind og Kringlu var sameinuð í nýja verslun á tveimur hæðum í Smáralind. Verslunin í Smáralind fór í gegnum algjöra endurnýjun og var stórglæsileg og endurbætt verslun opnuð í lok október 2017.

Zara-smaralind

Lokun verslana

Á rekstrarárinu var verslun Hagkaups í Holtagörðum endanlega lokað, en matvöruhluta verslunarinnar var lokað um mitt ár 2016. Þá var tískuverslunum Topshop, Dorothy Perkins og Karen Millen einnig lokað á árinu.

Fasteignir

Á síðasta rekstrarári skrifuðu Hagar undir samning um kaup á 4.706 m²
eignarhluta í Skeifunni 11 í Reykjavík, auk hlutfallslegrar hlutdeildar í sameign. Lítill hluti fasteignarinnar er leigð út í dag þar sem stór hluti hennar skemmdist í bruna árið 2014 og hefur ekki verið í útleigu síðan. Tekin hefur verið ákvörðun um að flytja verslun Bónus í Faxafeni í Skeifuna 11 seinni hluta árs 2018, en framkvæmdir hófust í lok rekstrarárs við að endurbyggja þann hluta eignarinnar sem skemmdist í brunanum.

Á rekstrarárinu var skrifað undir kaupsamning um fasteign við Bjarkarholt 7-9 (áður Háholt 17-19) en verslun Bónus í Mosfellsbæ mun flytja í húsnæðið seinni hluta árs 2018. Fasteignin er í byggingu og verður eignfærð í bókum félagsins við afhendingu.

Endurkaupaáætlun

Tvær endurkaupaáætlanir voru settar í framkvæmd á rekstrarárinu. Fyrri endurkaupaáætlunin hófst í ágúst 2017 og lauk í byrjun nóvember sama ár. Endurkaupin námu samtals 25 milljónum hluta og var kaupverð hinna keyptu hluta samtals 892 millj. króna. Í lok nóvember var tilkynnt um nýja endurkaupaáætlun og lauk henni um miðjan febrúar sl. Endurkaupin námu samtals 25 milljónum hluta og var kaupverðið 957 millj. króna. Heildarendurkaup rekstrarárins námu því 50 milljónum hluta og var kaupverðið 1.849 millj. króna. Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar var í höndum Arctica Finance hf.