ávarp forstjóra

Finnur

Finnur Árnasonforstjóri Haga hf.


Rekstur Haga á síðasta rekstrarári gekk vel. Hagnaður eftir skatta nam 3.054 milljónum króna til samanburðar við 2.317 milljónir króna árið áður. Sölutekjur jukust úr 84 milljörðum króna í 116 milljarða, þar sem innkoma Olís í samstæðuna skýrir þessa miklu tekjuaukningu að stórum hluta. Þróun á sölutekjum félagsins er ánægjuleg þegar horft er til þess að samkvæmt sátt við Samkeppniseftirlitið þurfti félagið að selja frá sér þrjár Bónusverslanir og fimm bensínstöðvar í upphafi síðasta rekstrarárs. Á móti náði félagið að opna tvær nýjar Bónusverslanir auk þriggja bensínstöðva Olís.

Vel heppnuðum samruna Haga og Olís er nú lokið og fyrsta heila rekstrarár sameinaðs félags er að baki. Þeim fjárhagslegu markmiðum sem sett voru í aðdraganda samrunans hefur verið náð með samlegð og auknu hagræði í rekstri. Efnahagur félagsins er sterkur en eigið fé félagsins er 24,5 milljarðar króna og skuldsetning lítil á alla mælikvarða. Rekstur félagsins er og hefur verið stöðugur og mjög traustur.

Félagið var endurfjármagnað síðastliðið haust. Eldri skuldir voru á gjalddaga og voru þær endurfjármagnaðar með verðtryggðum skuldabréfum, sem gefin voru út í tveimur flokkum, samtals 8 milljarðar króna. Annars vegar með 5,5 milljarða króna verðtryggðum flokki til tíu ára með föstum 2,8% vöxtum. Sá flokkur er stækkanlegur í 15 milljarða króna. Hins vegar með 2,5 milljarða króna óverðtryggðum flokki til tveggja ára með föstum 4,65% vöxtum. Mikil umframeftirspurn var hjá fjárfestum eftir skuldabréfum í þessu skuldabréfaútboði. Einnig var fjármögnun í formi lánalína tryggð.

Helstu fjárfestingar félagsins snéru að fasteignaverkefnum og nýjum tekjuberandi verkefnum Bónus og Olís. Ný 4.400 fermetra kæli- og frystivörugeymsla er að rísa við Korngarða og verður væntanlega tekin í notkun á haustmánuðum. Auk þess bættist í eignasafn félagsins 1.660 fermetra verslunarhúsnæði Bónus við Bjarkarholt í Mosfellsbæ, 4.211 fermetra verslunarhúsnæði Hagkaups við Eiðistorg og eftir lok rekstrarársins eignaðist félagið 2.172 fermetra verslunarhúsnæði Hagkaups á Akureyri. Þessar nýju eignir eru óveðsettar og henta vel til stækkunar á verðtryggða skuldabréfaflokki félagsins.

Á þessum tímapunkti tel ég rétt fyrir mig persónulega að staldra við og huga að öðru og á sama tíma tel ég gott fyrir Haga að nýr aðili taki við keflinu með ferskar hugmyndir í farteskinu. 

Framundan eru fjölmörg tækifæri en einnig spennandi áskoranir sem félagið er vel í stakk búið til að takast á við.

Það er ánægjulegt og mikil gæfa að geta litið sáttur yfir farinn veg. Félaginu hefur vegnað einstaklega vel þar sem efnahagur og rekstur hefur styrkst jafnt og þétt. Styrkur Haga kom glögglega í ljós í efnahagskreppunni 2008 þar sem félagið sigldi klakklaust í gegnum þann ólgusjó, gat staðið við allar sínar skuldbindingar og stóð sterkara á eftir.

Í kjölfarið komu nýir fjárfestar að félaginu. Það er gleðilegt að hluthafar sem komu að félaginu í aðdraganda skráningar Haga í Kauphöllina, hafa sumir hverjir haldið tryggð við félagið til þessa dags. Ákvörðun þeirra um að fjárfesta í Högum hefur sem betur fer reynst farsæl. En mér reiknast til að þeir aðilar hafi fengið rúmlega 70% af upphaflegu fjárfestingu sinni til baka í formi arðs, auk þess sem upphaflega fjárfestingin hefur nálægt því fimmfaldast að verðmæti miðað við gengi bréfa félagsins í Kauphöllinni þegar þetta er skrifað.

Þar sem ég mun nú ljúka störfum fyrir Haga innan tíðar er mér efst í huga þakklæti til þess samstarfsfólks og samferðafólks, sem ég hef unnið með og kynnst á þeim rúmlega 22 árum sem ég hef starfað fyrir félagið. Styrkur félagsins liggur í öflugu og samhentu starfsfólki sem kann sitt fag og það hafa verið forréttindi að vera hluti af þessari liðsheild. 

Ég er stoltur af þeim árangri sem við höfum í sameiningu náð, sem leiðandi smásölufyrirtæki á Íslandi. 

Hér er viðskiptavinurinn ávallt í öndvegi og frá fyrsta degi hefur félagið boðið landsmönnum lægsta vöruverð á landinu og sama verð um land allt. Þeim árangri má ekki síst þakka Guðmundi Marteinssyni framkvæmdastjóra Bónus, sem hefur ásamt samstarfsfólki unnið þrekvirki fyrir íslenska neytendur á undanförnum áratugum. Þar sem Guðmundur lætur af störfum í sumar, vil ég þakka honum sérstaklega fyrir einstaklega skemmtilegt og árangursríkt samstarf.

Erna Gísladóttir lætur nú af stjórnarformennsku í félaginu. Hún hefur setið í stjórn félagsins í tíu ár og reynsla hennar verið dýrmæt. Vil ég þakka henni fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf. Einnig þakka ég fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt og óska ég félaginu, stjórn, hluthöfum og samstarfsfólki mínu velfarnaðar í framtíðinni.

Finnur Árnason, forstjóri Haga hf.