Um Haga

Vöruhús

Vöruhúsin Aðföng og Bananar eru í eigu Haga. Þau sinna stoðhlutverki við verslanir Bónus, Hagkaups og Olís, meðal annars með innkaupum, birgðahaldi og dreifingu.

Aðföng

Árið 1993 stofnuðu Bónus og Hagkaup sameiginlegt innkaupafyrirtæki undir nafninu Baugur ehf., en fyrirtækið fékk nafnið Aðföng fimm árum síðar. Aðföng er innkaupa- og dreifingarmiðstöð á smásölu- og stórnotendamarkaði en starfsemi fyrirtækisins felst í innkaupum, birgðahaldi og dreifingu fyrir verslanir Bónus, Hagkaups og Olís.

Innkaup Aðfanga felast annars vegar í viðskiptum við innlenda birgja og hins vegar innflutningi, þ.á.m. eigin vörumerkja. Aðföng vinnur að vöruþróun eigin merkja í samstarfi við matvörukeðjurnar en þar ber hæst vörumerkin Himneskt og Heima. Aðföng flytur einnig inn áfengi fyrir verslanir ÁTVR og er verkefninu stýrt í gegnum Vínföng. Markvisst hefur verið unnið að uppbyggingu í vöruflokknum síðastliðin ár og hefur vörunúmerum fjölgað jafnt og þétt og eru þau nú rúmlega 110 talsins.

Aðföng er eitt stærsta og tæknivæddasta vöruhús landsins. Þar er lögð mikil áhersla á stærðarhagkvæmni og er nýjasta tækni nýtt við rekstur vöruhússins hvar sem því verður við komið. Vöruhús Aðfanga er því sem næst pappírslaust og öflug tölvukerfi halda utan um feril vara frá upphafi til enda.

Á rekstrarárinu var vöruhúsastarfsemi samstæðu Haga endurskipulögð þar sem Aðföng tóku yfir nær allt birgðahald og dreifingu fyrir Olís, að undanskildu fljótandi eldsneyti. Verkefninu mun ljúka í nóvember 2020 þegar nýtt kæli- og frystivöruhús verður tekið í notkun við Korngarða 1 í Reykjavík en þá munu Aðföng taka yfir starfsemi síðasta vöruhúss Olís í Súðavogi. 

Á rekstrarárinu var starfsemi Hýsingar lögð niður og tók Aðföng yfir það lagerhald, afgreiðslu, vörumerkingu og tollafgreiðslu sem Hagkaup, Útilíf og Zara þurfa á að halda í sinni sérvörustarfsemi. 

Í lok rekstrarárs var rekstur Ferskra kjötvara ehf. seldur til Aðfanga og hafa Aðföng því tekið yfir alla starfsemi fyrirtækisins. Þar er unnið kjöt úr nauti, lambi og grís og er lögð áhersla á ferskleika og gæði. Fagmenn sjá um að öll meðhöndlun sé rétt og örugg og fer öll vinnsla í gegnum nákvæmt rekjanleikakerfi. Ferskar kjötvörur sjá verslunum Hagkaups og Bónus fyrir kjöti, en selja einnig til veitingahúsa og annarra aðila. Fyrirtækið á rúmlega 20 vörumerki og eru þau helstu Íslandsnaut, Íslandslamb, Íslandsgrís, Nautaveisla og Nautaat.

Vöruhús Aðfanga eru við Skútuvog 5, 7 og 9 í Reykjavík og starfsemi Ferskra kjötvara er í Síðumúla. Hjá fyrirtækinu störfuðu í árslok 161 starfsmaður í 144 stöðugildum.

Adfong

Framkvæmdastjórn Aðfanga skipa (frá vinstri): Hafdís Rósa Sæmundsdóttir, fjármálastjóri, Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri, og Einar Þórisson, innkaupastjóri.

Bananar

Bananar ehf. var stofnað þann 18. júní 1955 og er næst elsta fyrirtækið í samstæðu Haga. Bananar er stærsti dreifingaraðili á fersku grænmeti og ávöxtum á Íslandi og jafnframt eitt stærsta innflutningsfyrirtæki landsins. Eins og nafnið gefur til kynna voru fyrstu starfsár fyrirtækisins helguð innflutningi og þroskun banana. Síðan þá hafa áherslur breyst og í dag býður fyrirtækið upp á mikið og gott úrval af bæði íslensku og erlendu grænmeti og ávöxtum allan ársins hring. Vörum er dreift til viðskiptavina sex daga vikunnar, þar af til beggja matvörukeðja Haga.

Viðskiptavinir Banana eru hátt í 900 talsins og samanstanda þeir af verslunum, veitingahúsum, sjúkrahúsum, skólum, leikskólum, mötuneytum o.fl. Vöruhúsið afgreiðir um 380-400 pantanir daglega sem nema um 80-100 tonnum.

Bananar hafa viðskiptasambönd út um allan heim og beina því viðskiptum sínum beint til þeirra landa þar sem gæði ávaxta og grænmetis er best hverju sinni. Má þar nefna Kína, Brasilíu, Suður-Afríku, Kanada, Síle, Argentínu, Holland, Bandaríkin og Spán.

Vöruhús Banana er við Korngarða 1 í Reykjavík og voru starfsmenn fyrirtækisins í árslok 90 talsins í 86 stöðugildum.

Bananar

Framkvæmdastjórn Banana skipa (frá vinstri): Örvar Karlsson, sölustjóri, Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri, og Guðbjörg Helgadóttir, fjármálastjóri.