UFS samfélagsuppgjör

fyrsta samfélagsuppgjör Haga

Í lok árs 2019 skrifuðu Hagar, fyrir hönd allrar samstæðunnar, undir samning við Klappir Grænar lausnir hf. en markmið með samningnum er að ná mælanlegum árangri í umhverfismálum og málum tengdum sjálfbærni. Samhliða því gefa Hagar nú í fyrsta sinn út samfélagsuppgjör samstæðunnar skv. UFS leiðbeiningum Nasdaq (e. ESG Reporting Guide 2.0). Viðmiðunarár er 2019 og eru því ekki önnur ár til samanburðar.

Þrjú af stærstu fyrirtækjum samstæðunnar, Bónus, Hagkaup og Olís, hófu sína vegferð með Klöppum á síðasta ári þegar fyrirtækin kolefnisjöfnuðu rekstur verslana sinna. Nú er innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfis Klappa lokið hjá öðrum rekstrareiningum og mun því samstæðan öll kolefnisjafna rekstur síðasta árs, sem mótvægisaðgerð við þau umhverfisáhrif sem verða af rekstri samstæðunnar.

Hér á næstu síðum má sjá niðurstöðu uppgjörsins en því er skipt í þrjá hluta: umhverfi, félagslegir þættir og stjórnarhættir. Samfélagsskýrsluna má einnig sjá hér í heild sinni á heimasíðu Haga. Þá má hér á eftir einnig finna stefnu Haga um samfélagslega ábyrgð ásamt þeim helstu styrkjum sem veittir hafa verið til góðra málefna á árinu sem var að líða.