Ávarp stjórnarformanns og forstjóra

Erna

Erna Gísladóttirstjórnarformaður Haga hf.

Finnur Árnason forstjóri Haga hf.

Ágætu hluthafar.

Nýliðið rekstrarár var í senn annasamt og árangursríkt. Rekstur félagsins var traustur þrátt fyrir krefjandi áskoranir í ytra umhverfi. Hækkun á innlendum kostnaði og gengisfall íslensku krónunnar síðsumars, ásamt almennri langvarandi óvissu og samdrætti í íslensku efnahagslífi, höfðu áhrif á rekstur félagsins. Á slíkum tímum byggir félagið enn frekar en fyrr á góðu sambandi við viðskiptavini. Lykillinn að því er að bjóða lægsta vöruverðið um land allt, ásamt markvissu og góðu vöruúrvali. Traustar undirstöður og gott bakland verslana í hagkvæmum vöruhúsum tryggir svo stöðugleika og góðan rekstur.

Kaup félagsins á Olíuverzlun Íslands og fasteignafélaginu DGV voru stærsta verkefni ársins. Verkefnið tók mikinn tíma og orku stjórnenda, en tæplega tvö ár liðu frá fyrstu viðræðum þar til kaupin voru samþykkt af Samkeppniseftirlitinu í lok nóvember 2018. Olís og DGV eru því hluti af samstæðureikningi félagsins frá 1. desember 2018 að telja. Samruninn var samþykktur með víðtækum skilyrðum Samkeppniseftirlitsins, þar sem félagið þurfti m.a. að selja frá sér þrjár Bónusverslanir og fimm bensínstöðvar.

Unnið er að fjölmörgum verkefnum, m.a. víðtækri samþættingu, til hagræðingar og sóknar. Ákvarðanir hafa verið teknar um samþættingu í vöruhúsastarfsemi, samræmingu innkaupa, endurfjármögnun, færsluhirðingu greiðslukorta og flutning höfuðstöðva Olís. Þróunarverkefnum hefur verið forgangsraðað. Auk þess eru fjölmörg verkefni í vinnslu, þar sem unnið er að aukinni hagræðingu í rekstri með það að markmiði að bæta samkeppnishæfni félagsins. Fjölmörg tækifæri eru til samlegðar og ekki síður til sóknar. Forgangsröðun verkefna tekur mið af mikilvægi m.t.t. samlegðar og stefnumörkunar. Einnig er til skoðunar að selja eignir sem ekki nýtast í rekstri félagsins.

Með kaupum á Olís og DGV fylgdu mikilvægar staðsetningar fyrir verslun og þjónustu. Þegar er byrjað að forgangsraða þeim verkefnum sem framundan eru, þar sem lögð er áhersla á að nýta þau tækifæri sem þessar staðsetningar bjóða upp á. Breytt stefna Reykjavíkurborgar og fyrirsjáanleg orkuskipti ýta á að félagið nýti þau tækifæri sem framundan eru með skjótum hætti í lausnamiðuðu samtali við borgaryfirvöld og sveitarstjórnir sem málið varða.

Skrifað hefur verið undir samninga um kaup á Mjöll-Frigg hf. og einnig á 90% hlutafjár í Reykjavíkur Apóteki. Þessi kaup eru bæði til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu og háð samþykki þess.

Markaðsaðstæður á árinu hafa verið krefjandi. Samkeppni frá innlendum og alþjóðlegum aðilum hefur aukist. Gengisfall íslensku krónunnar hafði áhrif á framlegð félagsins og ljóst að verðhækkanir hafa ekki komið fram í vöruverði til viðskiptavina að fullu. Viðskiptavinir hafa því notið hagstæðs verðs og staðfest hefur verið í fjölmörgum verðkönnunum að Bónus býður undantekningarlaust lægsta vöruverð hér á landi. Frammistaða Bónus hefur því verið framúrskarandi. Bónus opnaði nýja verslun í Skeifunni þann 1. desember sl. sem hefur gengið mjög vel. Innleiðing á svokölluðum sjálfsafgreiðslukössum í Bónus og Hagkaup hefur sömuleiðis gengið vel. Kassarnir auka afköst og hagkvæmni og ánægja viðskiptavina er mikil. Í þeim verslunum þar sem sjálfsafgreiðslukassar hafa verið settir upp er notkunin á bilinu 34-52% af afgreiðslum hvers dags. Þá eru nýir kjarasamningar mikil áskorun vegna kostnaðarauka og mikilvægt að ná fram sparnaði á sem flestum sviðum til þess að verslanirnar geti áfram boðið viðskiptavinum lægsta mögulega vöruverð.

Á árinu náðist mikilvægur áfangi þegar öll félög samstæðunnar hlutu jafnlaunavottun. Verkefnið gekk vel og niðurstaða vinnunnar sýndi þá ánægjulegu niðurstöðu að jafnréttisstefna félagsins er virk.

Félagið er brautryðjandi í umhverfismálum. Bónus er fyrsta matvörukeðja landsins til að kolefnisjafna rekstur sinn. Bónus og Hagkaup voru fyrstu matvörukeðjur landsins til þess að hætta sölu burðarplastpoka og taka í staðinn upp lífniðurbrjótanlega burðarpoka. Með tilkomu lífniðurbrjótanlegu pokanna sparast á þriðja hundrað tonn af plasti ár hvert, sem annars hefði lent í urðun eða í vistkerfinu. Ferskar kjötvörur fjárfestu í tækjum, búnaði og umbúðum sem minnka plastnotkun um 26 tonn og tvöfölduðu líftíma vörunnar á sama tíma. Verslanirnar eru í fararbroddi þegar kemur að flokkun og verkefnum tengdum matarsóun. Þær verslanir sem eru endurnýjaðar nota nú kolsýru, íslenskan umhverfisvænan kælimiðil, í stað freons. Tæki og búnaður í nýjum verslunum notar umtalsvert minni orku og lýsing er sett upp með led-perum sem endast mun lengur og nota minni orku.

Félagið hefur látið til sín taka þegar kemur að baráttumálum fyrir auknu viðskiptafrelsi og bættum hag viðskiptavina. Málaferli og ágreiningur við íslenska ríkið um innflutning á fersku kjöti hefur staðið í rúman áratug. Félagið hefur unnið dómsmál fyrir EFTA-dómstólnum og nú síðast fyrir Hæstarétti Íslands á liðnu ári. Þrátt fyrir það hefur ríkistjórn Íslands ekki brugðist við niðurstöðum þessara dóma og heimilað innflutning. Eftirspurn er eftir fersku kjöti sem ekki er fáanlegt eða jafnvel ekki framleitt hér á landi, eins og lífrænt ræktað kálfakjöt, lífrænn kjúklingur og lífrænt ræktað nautakjöt. Því eru miklir hagsmunir fyrir viðskiptavini félagsins að Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn virði niðurstöðu Hæstaréttar Íslands og heimili innflutning skv. fyrirliggjandi dómum og alþjóðlegum skuldbindingum þjóðarinnar.

Á því rekstrarári sem nú er hafið verður tekinn upp nýr alþjóðlegur staðall í reikningsskilum, svokallaður IFRS 16-leigustaðall. Áætluð áhrif staðalsins á reikningsskil komandi árs eru þau að EBITDA félagsins mun hækka um 2.500 millj. króna, afskriftir hækka um 1.900 millj. króna og vaxtakostnaður mun aukast um 600 millj. króna. Áhrifin eru því umtalsverð á reikningsskilin. Áætluð EBITDA félagsins að teknu tilliti til breytinga vegna IFRS 16-leigustaðalsins er 9.150 millj. króna til 9.600 millj. króna.

Fyrir aðalfundi liggur tillaga um greiðslu arðs að upphæð 1.158,5 milljónir króna, eins og fram kemur í ársreikningi félagsins. Arðgreiðslan nemur því 0,955 kr. á hlut. Einnig liggur fyrir tillaga um heimild stjórnar til kaupa á eigin bréfum félagsins skv. endurkaupaáætlun.

Þá leggur stjórn til fyrir aðalfund nýja starfskjarastefnu sem er töluvert breytt frá því sem áður var. Samþykkt hennar mun hafa áhrif á starfssamninga æðstu stjórnenda félagsins og mun í framhaldi verða unnið að því að gera við þá nýja samninga í anda þessarar stefnu.

Boðað var til hluthafafundar í janúar síðastliðnum. Ný stjórn var kjörin og tók þá til starfa. Núverandi stjórn hefur því ekki setið í langan tíma, en fjölmörg verkefni eru komin í vinnslu og á borði stjórnar, enda spennandi tímar framundan.

Við viljum þakka samstarfsfólki okkar og meðstjórnendum fyrir árangursríkt ár. Við viljum bjóða starfsfólk Olís velkomið í öflugan og skemmtilegan hóp sem hefur það að markmiði að vera í forystu og sinna þörfum og óskum viðskiptavina á framúrskarandi hátt. Við þurfum að takast á við breytingar og aðlaga rekstur okkar. Framundan eru fjölmörg tækifæri fyrir félagið.

Erna Gísladóttir, formaður stjórnar Haga

Finnur Árnason, forstjóri Haga