Um Haga

Framtíðarhorfur

Stærstu verkefnin á nýju rekstrarári

Á rekstrarárinu sem nú er hafið opnaði Bónus nýja verslun sína á Garðatorgi í Garðabæ. Verslunin er rúmir 1.400 m2 og hefur hún fengið frábærar viðtökur. Þá mun verslun Bónus í Mosfellsbæ flytja í nýtt og stærra húsnæði á haustmánuðum. Sú fasteign verður í eigu Haga og verður verslunin um 1.600 m2.

24_A128723

Nokkuð er um fjárfestingar hjá Olís á rekstrarárinu en þar ber helst að nefna nýja ÓB stöð í Vík í Mýrdal, auk fasteignar sem félagið mun leigja til veitingareksturs. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki á vormánuðum.

Á rekstrarárinu verður hafist handa við byggingu nýs vöruhúss fyrir Aðföng, sem mun hýsa kæli- og frystivörustarfsemi félagsins. Vöruhúsið verður staðsett við Korngarða 1 þar sem vöruhús Banana er einnig til húsa. Áætluð verklok eru á haustmánuðum 2020.

Kaup Haga á reykjavíkur apóteki og kaup olís á mjöll-frigg

Í mars undirrituðu Hagar samning um kaup á 90% hlutafjár í Reykjavíkur Apóteki. Kaupsamningurinn var undirritaður með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Í apríl undirritaði Olís samning um kaup á öllu hlutafé í Mjöll-Frigg en sá samningur er einnig gerður með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Vonir standa til þess að fyrirvörum verði aflétt sem fyrst og að kaupsamningar komi til framkvæmda á því rekstrarári sem nú er hafið. 

Áætlun rekstrarársins 2019/20

Áætlun stjórnenda fyrir rekstrarárið 2019/20, sem nú er hafið, gerir ráð fyrir að EBITDA félagsins verði 6.650-7.100 millj. kr. Þann 1. mars 2019 er IFRS 16 leigustaðall innleiddur í reikningsskil samstæðunnar en áhrif hans á EBITDA félagsins eru áætluð hækkun um 2.500 millj. kr. Áætlun rekstrarársins, að teknu tilliti til leigustaðalsins, verður því 9.150-9.600 millj. kr. Þá er áætluð hækkun afskrifta um 1.900 millj. kr. og vaxtakostnaður mun aukast um 600 millj. kr.

Fjárfestingar eru áætlaðar um 3.300 millj. kr. Stærstu fjárfestingaverkefni ársins tengjast byggingu nýs vöruhúss Aðfanga, flutningi Bónusverslunar í Mosfellsbæ, opnun Olís í Vík í Mýrdal, sjálfsafgreiðslukössum o.fl.