Um Haga

Sérvöruverslanir

Hagar reka tvær sérvörukeðjur, undir vörumerkjum Útilífs og Zara.

_a123973_1527511251161

Stjórnendur á sérvörusviði eru (frá vinstri): Þrúður Maren Einarsdóttir, fjármálastjóri sérvörusviðs, Hörður Magnússon, rekstrarstjóri Útilífs, og Ingibjörg Sverrisdóttir, rekstrarstjóri Zara.

Útilíf

Útilíf er öflugt og rótgróið smásölufyrirtæki með íþrótta- og útivistarvörur en fyrirtækið var stofnað árið 1974 þegar verslun fyrirtækisins var opnuð í Glæsibæ. Í dag eru Útilífsverslanirnar tvær, önnur í Kringlu og hin í Smáralind.

Utilif-Smaralind-0536

Verslanir Útilífs skiptast í íþróttavörudeild, barnadeild, skódeild, útivistardeild, sunddeild, skíða- og snjóbrettadeild, veiðideild og hjóladeild. Mikil áhersla er lögð á vandað vöruúrval og bestu mögulegu gæði, en einnig vörur í ýmsum verðflokkum þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Útilíf vill veita viðskiptavinum sínum afburðagóða þjónustu og kappkostar því að í öllum deildum starfi sérfræðingar á viðkomandi sviði.

Hjá Útilíf störfuðu í árslok 46 starfsmenn í 25 stöðugildum. 

Zara

Zara er ein stærsta tískuverslunarkeðja heims og selur fatnað og fylgihluti fyrir dömur, herra og börn en fyrsta Zara-verslunin var opnuð á Íslandi árið 2001. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á hönnun eftir nýjustu tískustraumum, hraða vöruveltu, hagkvæma aðfangakeðju og sanngjarnt verð. Ein Zara-verslun er á Íslandi, staðsett í Smáralind, og er hún rekin með sérleyfissamningi frá Inditex á Spáni.

_A120884


Grunnurinn að velgengni vörumerkisins Zara felst í því að greina óskir viðskiptavina og bregðast hratt við þeim. Varan er hönnuð í takt við stefnur og strauma í tískuheiminum hverju sinni og ráða viðtökur viðskiptavina frekari framleiðslu og vöruþróun. Starfsmenn Zara í árslok voru 24 í 22 stöðugildum.