Um Haga

Samfélagsleg ábyrgð

Stjórn Haga hefur sett félaginu stefnu um samfélagslega ábyrgð. Stefnan var formlega samþykkt á stjórnarfundi 2. maí 2017. Hagar hafa þó alla tíð vandað til verka og haft samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í rekstri sínum.

Stefna Haga hf. um samfélagslega ábyrgð

Hagar sem öflugt félag á smásölumarkaði er í daglegum tengslum við almenning í landinu. Hagar hafa frá upphafi lagt metnað sinn í að þjóna íslenskum neytendum með ábyrgum hætti. Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð er langtímaáætlun félagsins um hvernig það getur lagt sinn skerf til betra og heilbrigðara samfélags og umhverfis, samhliða heilbrigðum rekstri. Stefnan segir auk þess til um hvernig samskiptum við hagsmunaaðila eigi að vera háttað. Helstu hagsmunaaðilar Haga eru starfsmenn, hluthafar, viðskiptavinir, birgjar og fjármögnunaraðilar, auk samfélagsins í heild sinni. Hagar eru aðilar að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð, og hafa verið frá upphafi árs 2016.

Stefnuyfirlýsing

Hagar vilja láta gott af sér leiða og starfa í sátt við samfélag og umhverfi. Félagið vill eiga gott samstarf við hagsmunaaðila sína og skapa þeim virði með ákvörðunum sínum. Samfélagsleg ábyrgð er hluti af grunnrekstri Haga og er höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku í stórum málefnum. Við mat á árangri skal horft til þeirra áhrifa sem félagið hefur á samfélag sitt og umhverfi, auk arðsemi.

Meginstoðir stefnu

Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð byggir á fimm meginstoðum. Stoðirnar móta þær áherslur sem félagið fer eftir og mótar þau lykilverkefni sem unnið er að hverju sinni. Meginstoðirnar fimm eru ekki innbyrðis háðar og ein stoð er ekki annarri mikilvægari.

 • Umhverfi
  Hagar leggja áherslu á að þekkja þau neikvæðu áhrif sem starfsemi félagsins hefur á umhverfið og leitast við að draga úr þeim eftir fremsta megni. Sérstök áhersla er lögð á að draga úr matarsóun, minnkun sorps og umhverfisvæna orkugjafa.
 • Samfélag
  Hagar leggja samfélaginu lið fyrst og fremst með því að bjóða neytendum hagstæðustu kjör hverju sinni og vera í forystu í baráttumálum fyrir hönd neytenda. Þá styður félagið ýmis samfélagsleg málefni hvort sem er í formi fjárhagslegra styrkja eða samstarfsverkefna.
 • Mannauður
  Hagar kappkosta að tryggja vellíðan og öryggi starfsfólks. Jafnrétti er haft að leiðarljósi í öllum ákvörðunum og skapar félagið virði fyrir atvinnulífið með menntun og þjálfun starfsfólks.
 • Stjórnarhættir
  Hagar starfa eftir þeim lögum og reglum sem félaginu ber að fylgja, sem og leiðbeiningum um góða stjórnarhætti. Auk þess hefur félagið sett sér siða- og samskiptareglur sem fylgt er í hvívetna í starfseminni.
 • Forvarnir
  Hagar leggja áherslu á forvarnir í starfsemi sinni, með það að markmiði að bæta hag samfélagsins alls, neytenda og starfsmanna, og um leið hag félagsins sjálfs. Hagar kappkosta að bjóða upp á marga og hagstæða valkosti sem bæta heilbrigði neytenda.

Framkvæmd og gildissvið

Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð nær til móðurfélagsins auk allra dótturfélaga samstæðunnar og skal vera leiðbeinandi fyrir þau. Stjórn félagsins og stjórnendur láta sig málaflokkinn varða og bera á honum ábyrgð. Á næstu misserum er stefnt að markvissri umræðu um meginstoðir stefnunnar innan félagsins. Stefna um samfélagslega ábyrgð og árangursmat hennar skal vera hluti af stefnumótun innan félagsins og skal helga málaflokknum sérstakan kafla í ársskýrslu félagsins. Stefnu þessa skal endurskoða að lágmarki á 12 mánaða fresti.

Lykilverkefni 2018-2019

Unnið var að mörgum samfélagslegum verkefnum á árinu sem var að líða. Unnið er að flestum verkefnanna ár eftir ár og er þá eftir fremsta megni reynt að gera enn betur en áður. Hér á eftir verður fjallað um þau verkefni sem voru hvað mikilvægust á árinu.

Bónus kolefnisjafnar rekstur verslana sinna árið 2018

Það er sönn ánægja að segja frá því að Bónus hefur kolefnisjafnað rekstur verslana sinna fyrir árið 2018. Bónus og Kolviður hafa undirritað samning þess efnis.

Í samstarfi við Klappir Grænar Lausnir hf. var gögnum safnað saman til að reikna kolefnisspor verslana Bónus um land allt. Til að jafna út áhrif rekstursins á umhverfið hefur Bónus því fjárfest í kolefnisbindingu hjá Kolviði en kolefnisfótspor Bónus árið 2018 var ígildi 667 tonna af CO2. Kolviður mun því planta 6.670 trjám á u.þ.b. tveggja hektara landsvæði til að jafna út kolefnisfótsporið.

Bónus er fyrsta matvöruverslunin á Íslandi til að kolefnisjafna rekstur sinn og vill Bónus með þessu leggja sitt af mörkum og sýna um leið samfélagslega ábyrgð í verki.

Hagar leiðandi í minnkun plasts

Á rekstrarárinu hættu matvöruverslanir Haga alfarið sölu á burðarpokum úr plasti, fyrstar allra matvöruverslana hér á landi. Í staðinn eru nú seldir umhverfisvænni og lífniðurbrjótanlegir burðarpokar. Með tilkomu nýju burðarpokanna sparast rúmlega 200 tonn af plasti ár hvert, sem hefði annars endað í urðun eða, það sem verra er, í vistkerfinu með tilheyrandi skaðlegum áhrifum þess. Að auki er stefnt að því að taka í notkun lífniðurbrjótanlega poka fyrir ávexti og grænmeti í janúar á næsta ári.

28_A120014

Verslanir Haga hafa verið í fararbroddi með áherslu sinni á fjölnota burðarpoka en ætla má að rúmlega 400.000 slíkir pokar séu nú í umferð, sem hafa verið seldir og gefnir undanfarin ár. Þá nota sérvöruverslanir Haga eingöngu bréfburðarpoka í sínum verslunum.

Bylting hefur orðið í plastnotkun í vinnslu fyrirtækja félagsins á kjöti, ávöxtum og grænmeti. Þar má nefna að nýr vélakostur og nýjar umbúðir hafa gert það að verkum að plastumbúðir fyrir hverja einingu af nautahakki hafa farið úr 21 g niður í 3 g.

Bónus er fyrst matvöruverslana hér á landi sem býður einnota vörur úr lífniðurbrjótanlegum og umhverfisvænni efnum en áður, líkt og diska og drykkjarmál, eyrnapinna úr pappa og sogrör úr járni ásamt fleiri áhöldum.

Sorpflokkun hjá öllum rekstrareiningum Haga

Nú í ár, líkt og fyrri ár, var eitt stærsta verkefnið sorpflokkun en fyrirtæki Haga hafa flokkað allt sitt sorp í fjölmörg ár. Tilgangur flokkunar er fyrst og fremst að minnka það magn sem fer til endanlegrar urðunar en nákvæmni í flokkun er forsenda endurnýtingar og endurvinnslu. Markviss vinna undanfarin ár hefur skilað nákvæmari flokkun sem skilar sér svo í minni kostnaði, þar sem verslanirnar fá greitt fyrir bylgjupappann auk þess sem lægri sorpgjöld eru greidd af flokkuðu rusli.

Sem dæmi má nefna að árið 2018 flokkaðist sorp Bónus þannig að 64,7% fór sem bylgjupappi í endurvinnslu, úrgangur til urðunar var 30,5% og lífrænn úrgangur til moltugerðar 2,6%. Þá er ánægjulegt að endurvinnsla árið 2018 var 9,4% meiri en árið á undan og úrgangur sem fór til urðunar var 4,1% minni en árið 2017. 1.955 tonn af bylgjupappa fóru í endurvinnslu hjá Bónus árið 2018. Með staðfastri flokkun kom Bónus í veg fyrir losun á ígildi 13.352 tonna af CO2 en til að setja það í samhengi þá samsvarar það um 4.300 bílum sem ekið er 15.000 km á ári með eldsneytisbrennslu sem nemur að meðaltali 9 l á hverja 100 km.

Matvöruverslanir á grænum grunni

Undanfarin misseri hefur verið lögð mikil áhersla á umhverfisvænni kælimiðla og orkusparandi perur í rekstri verslana Haga. Til dæmis byggja allar nýjar og endurnýjaðar matvöruverslanir á grænum grunni og nota nú íslenskan umhverfisvænan kælimiðil í stað freons áður. Kerfið, Green & Cool, er talið fremst á sviði umhverfisvænna kælikerfa og er auk þess sjálfbært og öruggt. Vélbúnaður kerfisins nýtir orkuna betur og allir kælar og frystar eru lokaðir, sem tryggir jafnara hitastig og þar af leiðandi betri gæði frystivara. 

Matarsóun

Líkt og undanfarin ár hafa matvöruverslanir félagsins reynt eftir fremsta megni að minnka matarsóun. Mikið er selt af afsláttamerktum ferskvörum sem nálgast síðasta söludag. Þá hefur markvisst verið unnið að bestun ferla við pantanir og rýrnunareftirlit til að sporna við matarsóun.

Styrkir til góðra málefna

Hagar og tengd félög styrkja árlega ýmis góðgerðarmál og hafa gert alla tíð. Um er að ræða styrki, stóra sem smáa, þar sem áherslan hefur aðallega verið á hjálparstofnanir, forvarnarstarf, æskulýðsstarf íþróttafélaga og styrki til tækjakaupa á Landspítalanum.

Sem dæmi má nefna að frá árinu 2012 hefur Olís verið einn aðalstyrktaraðili Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og gildir sá samningur fram á þetta ár. Í stuðningnum felst, fyrir utan beinan fjárhagsstyrk, að eldsneytisverð til Landsbjargar er mun lægra en til annarra auk þess sem haldnir eru sérstakir fjáröflunardagar þar sem hluti af sölu eldsneytis þá daga rennur til Landsbjargar. Með þessu vill Olís tryggja að björgunarsveitir landsins séu vel búnar þegar vá steðjar að og til að aðstoða Íslendinga og erlenda ferðamenn á ferð um landið.  

Ur-safni.020

Þá hefur Útilíf haft það sem meginstef að styrkja björgunar- og slysavarnarkerfið í landinu, þá sérstaklega með tilliti til snjóflóðavarna. Á undanförnum árum hefur Útilíf tekið þátt í að koma upp stöðvum um land allt þar sem skíðafólk getur prófað hvort snjóflóðaýlar þeirra séu virkir. Fyrir tveimur árum gaf Útilíf fyrstu stöðina af því tagi og hefur í ár og á liðnu ári útvegað fleiri slíkar á kostnaðarverði. Það varð til þess að af verkefninu gat orðið.

Forvarnir

Víða í starfsemi Haga er markvisst unnið að forvörnum, bæði inná við í rekstri og útávið gagnvart viðskiptavinum.

Þá er vert að nefna að Olís leggur mikla áherslu á öryggis- og gæðamál og hefur innleitt gæðastaðalinn ISO 9001:2015 fyrir starfsemi sína, með það fyrir augum að tryggja stöðugleika og gæði verkferla, vöru og þjónustu.