Um Haga

Stærstu verkefni ársins

Kaup haga hf. á öllu hlutafé olíuverzlunar íslands ehf.

Þann 29. nóvember 2018 samþykkti Samkeppniseftirlitið samruna Haga, Olís og DGV. Kaupsamningar um viðskiptin voru undirritaðir 26. apríl 2017 með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, samþykki Samkeppniseftirlitsins og samþykki hluthafafundar Haga fyrir aukningu hlutafjár. Fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar var aflétt þann 13. júlí 2017 og hlutafjáraukning var samþykkt á aðalfundi Haga í júní 2017. Þann 11. september 2018 var undirrituð sátt við Samkeppniseftirlitið um skilyrði fyrir kaupunum en öll skilyrði sáttarinnar voru uppfyllt og kom samruninn því til framkvæmda í lok nóvember eins og áður segir.

Alls voru 5.396 millj. kr. greiddar með reiðufé sem fjármagnaðar voru að mestu með skammtímaláni með gjalddaga 20. nóvember 2019 og auk þess voru afhentir 111 millj. hlutir í Högum. Skv. kaupsamningi skyldu afhentir hlutir reiknast á gengi 47,5 eða að andvirði 5.272 millj. kr. Þó ber að taka fram að skv. alþjóðlegum reikningsskilastöðlum reiknast virði hinna afhentu hluta í bókum félagsins m.v. gangvirði á afhendingardegi, sem var 46,25. Þann 30. nóvember 2018 juku Hagar hlutafé sitt um kr. 41.831.651 að nafnvirði, til þess að uppfylla ákvæði kaupsamnings. Eftir hækkunina er hlutafé Haga kr. 1.213.333.841 en var áður kr. 1.171.502.190.

22_A128620

Nú stendur yfir vinna við samrunaverkefni og ganga þau vel. Sameinað félag er með sterkan efnahag og traustan rekstur og leynist fjöldi tækifæra í breyttu félagi. Áætluð samlegðaráhrif eru 600 millj. kr. og áætlaður kostnaður við að ná fram þeim árangri nemur eins árs samlegð. Stærstu verkefnin eru endurskipulagning á starfsemi vöruhúsa, flutningur skrifstofu Olís í húsnæði innan samstæðu, auk ýmissa hagræðingar- og samlegðarverkefna í grunneiningum og stoðdeildum félaga Haga.

fjárfestingar í Fastafjármunum

Fjárfestingar í fastafjármunum á árinu námu 1.288 millj. kr. Stærsta verkefnið var uppbygging fasteignar á brunareitnum svokallaða við Skeifuna 11. Þar opnaði Bónus verslun sína þann 1. desember sl. í 1.440 m2 verslunarrými. Verslun Bónus í Faxafeni var opin til febrúarloka en sú verslun, ásamt fasteign, var ein af þremur sem seldar voru skv. sátt Haga við Samkeppniseftirlitið vegna samruna félagsins við Olís og DGV. Rekstur annarra Bónusverslana sem seldur var skv. sáttinni eru Hallveigarstígur í Reykjavík og Smiðjuvegur í Kópavogi. Afhending Hallveigarstígs var 1. febrúar og afhending Smiðjuvegs 20. mars sl. Kaupverð var uppgert við árslok.

Skv. sáttinni bar Olís einnig að selja rekstur og fasteignir við Háaleitisbraut og Vallargrund í Reykjavík, rekstur og aðstöðu ÓB-stöðva við Starengi, Kirkjustétt og Knarrarvog í Reykjavík, sem og rekstur verslunar og fasteign í Stykkishólmi. Afhending þessara eigna fór fram á fyrsta ársfjórðungi þess rekstrarárs sem nú er hafið, sem og uppgjör kaupverðs.

sjálfsafgreiðslukassar

Hluti af fjárfestingu félagsins í rekstrarfjármunum var að setja upp sjálfsafgreiðslukassa í verslunum Bónus og Hagkaups. Nú hafa verið settir upp kassar í sjö verslunum Bónus og þremur verslunum Hagkaups. Á nýju rekstrarári verður bætt við kössum í fimm verslunum Bónus og þremur verslunum Hagkaups. 

28_A129871

Sjálfsafgreiðslukassarnir hafa mælst mjög vel fyrir hjá viðskiptavinum, þeir hafa aukið afköst og eru hagkvæmir á álagstímum. Hingað til hefur notkun á sjálfsafgreiðslukössum verið um 34-52% af heildarafgreiðslufjölda verslananna.

jafnlaunavottun

Á rekstrarárinu 2018/19 hófst vinna við jafnlaunavottun hjá öllum dótturfélögum Haga, sbr. breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 sem lögfest var í júní 2017. Hafa þau nú öll innleitt jafnlaunakerfi sbr. staðal ÍST 85 um jafnlaunavottun.