Ávarp forstjóra
Finnur Árnason forstjóri Haga hf.
Nýliðið rekstrarár Haga var ár umbreytinga. Árið einkenndist af breyttum aðstæðum á markaði, þar sem samkeppni jókst til muna með innkomu næststærsta smásala veraldar inn á íslenskan örmarkað. Auk þessara miklu breytinga varð verðhjöðnun vegna mikillar styrkingar íslensku krónunnar á sama tíma og kostnaður innanlands hækkaði. Þessar aðstæður voru krefjandi og jafnframt mikil áskorun fyrir stjórnendur.
Félagið er að takast á við miklar breytingar í verslunarumhverfi. Mjög stór alþjóðleg fyrirtæki hafa fest rætur á íslenskum markaði, auk þess sem breyttar neysluvenjur, netverslun og aukin ferðalög Íslendinga hafa áhrif á þróun verslunar. Lögð hefur verið áhersla á að auka hagkvæmni í rekstri og að styrkja grunnstoðir félagsins. Verslunarfermetrum hefur fækkað um rúmlega 26.000 fermetra undanfarin misseri á sama tíma og fjárfest hefur verið í lykilverslunum og vöruhúsum. Stórum hluta af tískuverslunum hefur verið lokað, en þar standa eftir sterkustu einingarnar, tvær Útilífsverslanir og ein Zara-verslun.
Samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja er grundvöllur samfélagslegra framfara. Til þess að auka hagkvæmni í rekstri og styrkja grunnstoðir Haga var gerð tilraun til þess að kaupa Lyfju hf. Samkeppniseftirlitið hafnaði samrunanum, sem voru mikil vonbrigði, og ákvörðun eftirlitsins kom á óvart. Sterk staða á snyrtivörumarkaði var meginástæða þess að samruninn náði ekki fram að ganga, þrátt fyrir að ríkið sjálft sé stærsti snyrtivörusali landsins í gegnum Fríhöfnina, sem eftirlitið taldi meðal annars ekki á sama markaði og Hagar. Þessi niðurstaða er með öllu óskiljanleg í ljósi þess að í gögnum málsins kom fram að Fríhöfnin hefur beitt sér fyrir því að erlendur framleiðandi grípi til aðgerða og komi í veg fyrir tilboð á sínum vörum í verslunum Haga. Það þýðir í raun að ríkisverslunin, sem nýtur sérréttinda og þarf til að mynda ekki að innheimta virðisaukaskatt af viðskiptavinum sínum, beitti sér með beinum hætti með það að markmiði að hækka verð til viðskiptavina Haga. Með aðgerðum sínum er ljóst að Fríhöfnin lítur á Haga sem keppinaut sinn.
Félagið leggur áherslu á að vera í forystu á sem flestum sviðum. Bónus og Hagkaup munu hætta sölu á innkaupapokum úr plasti á haustmánuðum og taka upp umhverfisvænni innkaupapoka.
Hagar skrifuðu einnig undir kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í Olíuverslun Íslands og fasteignafélaginu DGV ehf. þann 26. apríl 2017. Sáttaviðræður eru í gangi við Samkeppniseftirlitið um úrlausn samrunans. Í samrunanum felast mikil tækifæri samlegðar og til sóknar.
Eins og áður sagði höfðu breytingar á smásölumarkaði mikil áhrif á rekstur Haga. Hagnaður rekstrarársins fyrir tekjuskatt nam 2.969 millj. kr., samanborið við 5.041 millj. kr. árið áður. Hagnaður rekstrarársins nam 2.394 millj. kr., sem jafngildir um 3,2% af veltu, en hagnaður á fyrra ári var 4.036 millj. kr. Grunnhagnaður á hlut var 2,11 kr., samanborið við 3,46 kr. á fyrra ári.
Verðhjöðnun vegna styrkingar íslensku krónunnar á síðasta rekstrarári var umtalsverð. Þannig var vegið meðaltal innkaupa í erlendum myntum 9,4% lægra en árið á undan, en sambærileg tala var 9,5% á fyrra rekstarári. Undanfarin tvö ár hafa því verið einstök í íslenskri hagsögu, hvað þennan þátt varðar. Mikil áskorun hefur verið að takast á við þessa miklu verðhjöðnun á sama tíma og innlendur kostnaður hefur hækkað og samkeppni stóraukist.
Árangur Bónus á árinu var einstakur. Fjöldi verðkannana var framkvæmdur af ýmsum aðilum og niðurstaðan var alltaf sú sama. Bónus býður oftast lægsta verð á Íslandi. Bónus hefur því haldið stöðu sinni sem ódýrasti valkosturinn fyrir íslenska neytendur. Í ljósi breyttra markaðsaðstæðna og nýrra öflugra keppinauta er ljóst að árangur Bónus er þeim mun eftirtektarverðari.
Félagið leggur áherslu á að vera í forystu á sem flestum sviðum. Bónus og Hagkaup munu hætta sölu á innkaupapokum úr plasti á haustmánuðum og taka upp umhverfisvænni innkaupapoka. Fram til þessa hafa Bónus og Hagkaup verið í fararbroddi við upptöku fjölnota poka.
Síðasta rekstarár var mesta umbreytingaár verslunar á Íslandi. Samhliða vinnu við að takast á við breyttar markaðsaðstæður hefur megináhersla stjórnar og starfsfólks verið á að hagræða í grunnrekstri, á sama tíma og horft er til sóknar og styrkingar grunnstoða með fjárfestingum í Lyfju og Olís.
Sem fyrr þurfum við að leggja metnað okkar í að standast óskir og kröfur viðskiptavina, aðlaga fyrirtækið þörfum þeirra og leggja áherslu á að sinna þeim vel í hvert sinn sem þeir koma í verslanir okkar. Samstarfsfólk mitt og meðstjórnendur hafa lagt sig fram um að takast á við breytt samkeppnisumhverfi og að vera í forystu við að uppfylla þarfir íslenskra neytenda. Fyrir það vil ég þakka.
Finnur Árnason,
forstjóri Haga