Ávarp stjórnarformanns
Kristín Friðgeirsdóttirstjórnarformaður Haga hf.
Ágætu hluthafar.
Rekstrarárið sem nú er liðið var krefjandi fyrir starfsfólk og stjórn Haga og breytt landslag á íslenskum smásölumarkaði hafði mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins. Vörusala var um 73,9 milljarðar króna og veltuminnkun milli ára 8,2%. Framlegð var 24,8% og hélst sú sama milli ára. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam rúmum 4,1 milljörðum króna og dróst saman um 31,3%. EBITDA-hlutfallið lækkaði úr 7,5% í 5,6%. Heildarhagnaður rekstrarársins var um 2,4 milljarðar króna sem er minnkun um 40,7% frá fyrra ári. Það sem einkenndi rekstrarárið var talsverð verðhjöðnun til viðbótar við stóraukna samkeppni, bæði á matvörumarkaði og í fataverslun. Miklar breytingar urðu við tilkomu stórra erlendra verslunarkeðja í samkeppni við íslenska verslun.
Aukin samkeppni var fyrirsjáanleg og hafði félagið haft nokkurn tíma til undirbúnings. Hluti aðlögunar að breyttum markaði var að fækka fermetrum og breyta verslunum. Í þeim tilfellum þar sem verslunum var lokað á meðan húsnæði var breytt dró óhjákvæmilega úr tekjum og hefur það því bein áhrif á niðurstöðu liðins rekstrarárs.
Landsmenn tóku vel á móti aukinni erlendri samkeppni og um skeið var umræðan íslenskri verslun ekki í hag. Bónus stóðst þó áhlaupið vel þrátt fyrir mikinn mun á stærð og fjárhagsstyrk nýja samkeppnisaðilans. Niðurstaðan varð sú að Bónus hélt sínu striki og í öllum verðkönnunum ASÍ hefur Bónus komið best út. Það verður að teljast frábær frammistaða í mun erfiðara samkeppnisumhverfi en áður.
Félagið tekur samfélagslega ábyrgð sína alvarlega og hefur skýra stefnu í þeim málum. Ein af stoðum þeirrar stefnu snýr að umhverfinu. Þar teljum við okkur vera leiðandi fyrirtæki.
Fjölmörg verkefni hafa verið á borði stjórnar Haga sem snúa bæði að vexti félagsins og innri styrkingu.
Í nóvember 2016 var gerður samningur um kaup á öllu hlutafé Lyfju hf. Starfsemi Lyfju var talin falla einkar vel að starfsemi Haga. Átta mánuðum seinna hafnaði Samkeppniseftirlitið samruna félaganna og kom það stjórn félagsins á óvart. Sterk staða Haga á snyrtivörumarkaði var meginástæða þeirrar niðurstöðu. Þar vó þungt að eftirlitið telur Fríhöfnina ekki vera hluta af íslenskum snyrtivörumarkaði sem erfitt er að skilja. Stjórn tók þá ákvörðun að áfrýja ekki niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. Þessi áform eru því úr sögunni.
Í apríl 2017 var gerður samningur um kaup á öllu hlutafé Olíuverzlunar Íslands hf. Hér er um mjög áhugavert tækifæri að ræða á aðskildum markaði sem fellur engu að síður vel að starfsemi Haga. Undanfarið hafa staðið yfir sáttaviðræður við Samkeppniseftirlitið vegna samrunans. Því miður hefur það ferli verið mjög langt og lengra en búast hefði mátt við. Það er slæmt fyrir bæði Haga og Olís þar sem það er áskorun að halda einbeitingu í rekstrinum við þessar aðstæður, þegar óvissa ríkir um samruna félaganna. Ýmis mál fara auk þess í biðstöðu, hvort sem þau tengjast stjórnarháttum, fjármagnsskipan eða öðru. Það skiptir miklu máli fyrir íslenskt atvinnulíf að ferli af þessu tagi sé gagnsætt og taki sem stystan tíma.
Á liðnu ári fór fram áframhaldandi vinna við að styrkja stoðir Haga með endurnýjun verslana og fækkun fermetra verslunarrýmis. Á síðustu misserum hefur þeim verið fækkað um 26 þúsund fermetra eða yfir 20% af verslunarfermetrum félagsins. Þegar hefur verið lokið við endurnýjun og minnkun Hagkaups í Kringlunni og Smáralind og hafa viðtökur viðskiptavina verið mjög góðar. Þess má geta að ný hönnun verslananna komst í úrslit í þremur alþjóðlegum samkeppnum og hlaut gull- og silfurverðlaun. Endurbótum á verslunum Bónus Smáratorgi, Kauptúni og Langholti á Akureyri hefur verið tekið vel af viðskiptavinum. Þá verður ný verslun Bónus opnuð í Skeifunni í haust í stað þeirrar í Faxafeni og einnig er á dagskrá flutningur verslunarinnar í Mosfellsbæ á nýjan stað. Zara var stækkuð og endurbætt í Smáralind en versluninni lokað í Kringlunni. Áfram var haldið á þeirri braut að loka óhagkvæmum einingum og var verslunum Karen Millen og Topshop lokað á síðasta ári.
Þegar horft er til framtíðar blasa ýmsar áskoranir við. Vinna þarf til baka verri afkomu á síðasta rekstrarári. Félagið stefnir að því að ná talsverðum hluta til baka á næsta rekstrarári þannig að EBIDTA verði um 5 milljarðar króna. Ef samruni við Olís gengur eftir, sem vonir standa til, þá er framundan stórt samþættingarverkefni. Fjölmörg tækifæri eru til staðar sem geta bætt rekstur beggja félaga sem mun skila sér til neytenda. Þarfir viðskiptavina eru að breytast hratt og það er nauðsynlegt fyrir félagið að þróast í takt við þær. Á síðasta rekstrarári hefur sérstök áhersla verið lögð á að fylgjast vel með þeirri þróun og verkefni mótuð til framtíðar.
Félagið tekur samfélagslega ábyrgð sína alvarlega og hefur skýra stefnu í þeim málum. Ein af stoðum þeirrar stefnu snýr að umhverfinu. Þar teljum við okkur vera leiðandi fyrirtæki. Í haust verður hætt að bjóða upp á innkaupapoka úr plasti í Hagkaup og Bónus og umhverfisvænni pokar leysa þá af hólmi. Auk þess munu verslanirnar gefa viðskiptavinum sínum fjölnota innkaupapoka. Þá hefur umhverfisvænn kælibúnaður verið tekinn í gagnið í endurbættum verslunum Bónus á Smáratorgi og Langholti á Akureyri. Félagið leggur sitt af mörkum við að minnka matarsóun. Sem dæmi má nefna að vörur sem eru að nálgast síðasta söludag eru lækkaðar markvisst í verði í Bónus og Hagkaup og einnig gefur Aðföng útlitsgallaðar vörur og vörur með stuttan líftíma til góðgerðasamtaka.
Stjórn Haga leggur til við hluthafa á aðalfundi að sett verði á laggirnar tilnefningarnefnd. Það er mikilvægt að fyrirkomulag á tilnefningum stjórnarmanna sé gagnsætt og að hugað sé að samsetningu stjórnar til að tryggja grunn að góðri ákvarðanatöku. Þá leggur stjórnin til arðgreiðslu sem nemur um 50% af hagnaði síðasta rekstrarárs sem er í lægri mörkum vegna samrunans sem er á borðinu. Gengi bréfa félagsins lækkaði mikið þegar mest gekk á síðastliðið ár. Félagið keypti eigin bréf fyrir rúmlega 1,8 milljarða króna á árinu og verða bréfin notuð sem greiðsla fyrir hlutafé í Olís ef af samruna verður annars verður hlutaféð fært niður.
Síðastliðið rekstrarár var krefjandi en félagið er vel undirbúið til að fást við þær áskoranir sem eru framundan. Mikil vinna hefur verið lögð í að styrkja stoðir félagsins síðustu misserin og mun þessi vinna skila sér til framtíðar. Þá mun samruni við Olís, ef hann gengur eftir, styrkja reksturinn verulega og breikka tekjugrunn félagsins.
Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnar þakka stjórnendum fyrir samstarfið og öllu starfsfólki Haga fyrir gott starf á síðasta ári.
Kristín Friðgeirsdóttir,
stjórnarformaður Haga hf.