Um Haga

Samfélagsleg ábyrgð

Stjórn Haga hefur sett félaginu stefnu um samfélagslega ábyrgð. Stefnan var formlega samþykkt á stjórnarfundi 2. maí 2017. Hagar hafa þó alla tíð vandað til verka og haft samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í rekstri sínum.

Stefna Haga hf. um samfélagslega ábyrgð

Hagar sem öflugt félag á smásölumarkaði er í daglegum tengslum við almenning í landinu. Hagar hafa frá upphafi lagt metnað sinn í að þjóna íslenskum neytendum með ábyrgum hætti. Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð er langtímaáætlun félagsins um hvernig það getur lagt sinn skerf til betra og heilbrigðara samfélags og umhverfis, samhliða heilbrigðum rekstri. Stefnan segir auk þess til um hvernig samskiptum við hagsmunaaðila eigi að vera háttað. Helstu hagsmunaaðilar Haga eru starfsmenn, hluthafar, viðskiptavinir, birgjar og fjármögnunaraðilar, auk samfélagsins í heild sinni. Hagar eru aðilar að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð, og hafa verið frá upphafi árs 2016.

Stefnuyfirlýsing

Hagar vilja láta gott af sér leiða og starfa í sátt við samfélag og umhverfi. Hagar vilja eiga gott samstarf við hagsmunaaðila sína og skapa þeim virði með ákvörðunum sínum. Samfélagsleg ábyrgð er hluti af grunnrekstri félagsins og er höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku í stórum málefnum. Við mat á árangri skal horft til þeirra áhrifa sem félagið hefur á samfélag sitt og umhverfi, auk arðsemi.

Meginstoðir stefnu

Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð byggir á fimm meginstoðum. Stoðirnar móta þær áherslur sem félagið fer eftir og mótar þau lykilverkefni sem unnið er að hverju sinni. Meginstoðirnar fimm eru ekki innbyrðis háðar og ein stoð er ekki annarri mikilvægari.

 

  • Umhverfi
    Hagar leggja áherslu á að þekkja þau neikvæðu áhrif sem starfsemi félagsins hefur á umhverfið og leitast við að draga úr þeim eftir fremsta megni. Sérstök áhersla er lögð á að draga úr matarsóun, minnkun sorps og umhverfisvæna orkugjafa.
  • Samfélag
    Hagar leggja samfélaginu lið fyrst og fremst með því að bjóða neytendum hagstæðustu kjör hverju sinni og vera í forystu í baráttumálum fyrir hönd neytenda. Þá styður félagið ýmis samfélagsleg málefni hvort sem er í formi fjárhagslegra styrkja eða samstarfsverkefna.
  • Mannauður
    Hagar kappkosta að tryggja vellíðan og öryggi starfsfólks. Jafnrétti er haft að leiðarljósi í öllum ákvörðunum og skapar félagið virði fyrir atvinnulífið með menntun og þjálfun starfsfólks.
  • Stjórnarhættir
    Hagar starfa eftir þeim lögum og reglum sem félaginu ber að fylgja, sem og leiðbeiningum um góða stjórnarhætti. Auk þess hefur félagið sett sér siða- og samskiptareglur sem fylgt er í hvívetna í starfseminni.
  • Forvarnir
    Hagar leggja áherslu á forvarnir í starfsemi sinni, með það að markmiði að bæta hag samfélagsins alls, neytenda og starfsmanna, og um leið hag félagsins sjálfs. Hagar kappkosta að bjóða upp á marga og hagstæða valkosti sem bæta heilbrigði neytenda.

Framkvæmd og gildissvið

Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð nær til móðurfélagsins auk allra dótturfélaga samstæðunnar og skal vera leiðbeinandi fyrir þau. Stjórn félagsins og stjórnendur láta sig málaflokkinn varða og bera á honum ábyrgð. Á næstu misserum er stefnt að markvissri umræðu um meginstoðir stefnunnar innan félagsins. Stefna um samfélagslega ábyrgð og árangursmat hennar skal vera hluti af stefnumótun innan félagsins og skal helga málaflokknum sérstakan kafla í ársskýrslu félagsins. Stefnu þessa skal endurskoða að lágmarki á 12 mánaða fresti.

Lykilverkefni 2017-2018

Unnið var að mörgum samfélagslegum verkefnum á árinu sem var að líða. Unnið er að flestum verkefnanna ár eftir ár og er þá eftir fremsta megni reynt að gera enn betur en áður. Hér á eftir verður fjallað um þau verkefni sem voru hvað mikilvægust á árinu.

Sorpflokkun

Eitt stærsta verkefnið ár hvert er án efa sorpflokkun en fyrirtæki Haga hafa flokkað allt sitt sorp í fjölmörg ár. Tilgangur flokkunar er fyrst og fremst að minnka það magn sem fer til endanlegrar urðunar en nákvæmni í flokkun er forsenda endurnýtingar og endurvinnslu. Markviss vinna undanfarin ár hefur skilað nákvæmari flokkun sem skilar sér svo í minni kostnaði, þar sem verslanirnar fá greitt fyrir bylgjupappann auk þess sem lægri sorpgjöld eru greidd af flokkuðu rusli.

Sem dæmi má nefna að flokkun til endurvinnslu hjá Hýsingu telur 83% af öllum úrgangi sem til fellur. Með því að flokka til endurvinnslu kom Hýsing í veg fyrir að út í andrúmsloftið losnuðu gróðurhúsaloftegundir sem samsvara gróðursetningu á 2.764 trjám.

Árið 2017 flokkaðist sorp Bónus þannig að 62% fór sem bylgjupappi í endurvinnslu, úrgangur til urðunar var 32%, lífrænn úrgangur til moltugerðar 3% og önnur flokkun 3%. 

Gert hefur verið samkomulag við Rauða Krossinn um endurnýtingu á um 15 tonnum af pappakössum undan F&F vörum sem falla til á ári. Kassana getur Rauði Krossinn nýtt til pökkunar á fatnaði sem kemur frá fatasöfnun og fara kassarnir því aftur út, fullir af fatnaði sem dreifist víðsvegar um heiminn til þeirra sem á þurfa að halda.

Þá hefur fjölgað þeim flokkunartunnum sem settar hafa verið upp í verslunum Bónus og Hagkaups en þar býðst viðskiptavinum að skilja eftir umbúðir og láta verslunina um að flokka þær og skila.

Umhverfisvænni burðarpokar - minna plast

Bónus og Hagkaup hafa um langa hríð selt fjölnota burðarpoka en nú þegar hafa verið seldir yfir 300.000 slíkir pokar. Á árinu 2018 munu verslanirnar hætta sölu á burðarpokum úr plasti og í staðinn verða seldir umhverfisvænni og lífniðurbrjótanlegir burðarpokar. Samhliða því verður lögð enn meiri áhersla á fjölnota poka af ýmsum stærðum og gerðum.

Innkaupapokar-umhverfisvaenir

Á árinu 2017 hætti Útilíf notkun plastpoka en nú er búið að skipta þeim út fyrir pappírspoka og fjölnota poka. Hefur breytingin mælst mjög vel fyrir meðal viðskiptavina.

Á árinu var unnið að fleiri verkefnum, sem snúa að því að minnka plastnotkun, en þar má m.a. nefna undirbúning að því að hætta sölu á einnota áhöldum úr plasti. Þannig mun Bónus hætta endursölu á vörum úr plasti á árinu 2018, líkt og sogrörum og eyrnapinnum og í staðinn selja samskonar vörur úr pappa.

Matarsóun

Matvöruverslanir félagsins reyna eftir fremsta megni að minnka matarsóun og er fyrir vikið selt mikið af afsláttamerktum ferskvörum, líkt og kjöti, grænmeti og ávöxtum, sem farnar eru að nálgast síðasta söludag. Þá leggur vöruhúsið Bananar sitt af mörkum til að draga úr matarsóun með því að senda bændum vörur sem eru að falla á tíma til dýrafóðurs.

Einnig má nefna að Aðföng hefur um árabil gefið allar þær vörur sem eru ósöluhæfar, en ekki ónýtar, til Samhjálpar en gera má ráð fyrir að um 25% af heildarrýrnun Aðfanga nýtist áfram til Samhjálpar. Vörurnar hafa nýst vel í mötuneytinu og við ræstingar hjá samtökunum.

Styrkir til góðra málefna

Hagar og tengd félög styrkja árlega ýmis góðgerðarmál og hafa gert alla tíð. Um er að ræða styrki, stóra sem smáa, þar sem áherslan hefur aðallega verið á hjálparstofnanir, forvarnarstarf, æskulýðsstarf íþróttafélaga og styrki til tækjakaupa á Landspítalanum.

Á árinu 2018 munu Bónus og Hagkaup verðlauna umhverfið en samhliða þeim breytingum sem nefndar voru hér að ofan, varðandi umhverfisvænni burðarpoka, munu verslanirnar gefa viðskiptavinum sínum 100.000 fjölnota burðarpoka. Áætlað er að átakið hefjist á haustmánuðum.

Umhverfisvænni verslanir

Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að endurnýja og bæta nokkrar verslanir félagsins. Í þeim verkefnum hefur verið byggt á grænum grunni, eins og kostur er, en þar ber helst að nefna að nú nota nokkrar verslanir Bónus og Hagkaups íslenskan koltvísýring sem kælimiðil í stað freons. Auk þess að vera umhverfisvænt er það sjálfbært og öruggt. Þá hefur verið tekin upp LED-lýsing í hinum endurnýjuðu verslunum í stað hefðbundinnar lýsingar.

Ný og endurbætt verslun Zara, sem opnuð var í október sl., uppfyllir öll þau grænu skilyrði sem móðurfyrirtækið, Inditex, setur. Sem dæmi má nefna að hún notar 20% minni orku og 40% minna vatn en hefðbundin verslun. 

Starfsmenn með skerta starfsgetu

Um árabil hafa Hagar verið í samstarfi við Vinnumálastofnun um að veita fólki vinnu hjá fyrirtækinu sem er með skerta starfsgetu vegna andlegrar og/eða líkamlegrar fötlunar. Árið sem var að líða var engin undantekning þar á og eru nú rúmlega 70 starfsmenn sem vinna hjá fyrirtækjum Haga sem teljast vera með skerta starfsgetu. Samstarfið, sem oft er kallað „Atvinna með stuðningi“, leggur áherslu á góða samvinnu við Vinnumálastofnun þar sem færni starfsmannsins er höfð að leiðarljósi.

Forvarnir

Á rekstrarárinu var áfram lögð áhersla á að bjóða viðskiptavinum félagsins holla og heilsusamlega valkosti, sem stuðla að betra heilbrigði og líðan. Þá er gaman að nefna að Bónus hefur verið tóbakslaust í þau 29 ár sem fyrirtækið hefur verið í rekstri, og er Bónus eini stórmarkaðurinn á Íslandi sem aldrei hefur selt tóbak, þrátt fyrir augljósan fjárhagslegan ávinning af sölu þess.