Um Haga

Vöruhús

Vöruhúsin Aðföng, Bananar, Ferskar kjötvörur og Hýsing eru í eigu Haga. Þau sinna stoðhlutverki við matvörukeðjurnar, m.a. með innkaupum, birgðahaldi og dreifingu.

Aðföng

_a126890

Þegar Hagkaup og Bónus ákváðu að koma á fót sameiginlegu innkaupafyrirtæki árið 1993 var fyrirtækið Aðföng stofnað en fékk það nafn fimm árum síðar. Aðföng er vöruhús sem sinnir innkaupum, birgðahaldi og dreifingu á almennum þurrvörum sem og kæli- og frystivörum fyrir verslanir Bónus og Hagkaups. Innkaup Aðfanga felast annars vegar í viðskiptum við innlenda birgja og hins vegar innflutningi eigin vörumerkja. Aðföng vinnur að vöruþróun eigin merkja í samstarfi við matvörukeðjurnar en þar ber hæst vörumerkin Himneskt og Heima. Aðföng flytur einnig inn áfengi fyrir verslanir ÁTVR. Markvisst hefur verið unnið að uppbyggingu í vöruflokknum síðastliðin ár og hefur vörunúmerum fjölgað jafnt og þétt.

Aðföng er eitt stærsta og tæknivæddasta vöruhús landsins. Þar er lögð mikil áhersla á stærðarhagkvæmni og er nýjasta tækni nýtt við rekstur vöruhússins hvar sem því verður við komið. Vöruhús Aðfanga er því sem næst pappírslaust og öflug tölvukerfi halda utan um feril vara frá upphafi til enda.

Vöruhús Aðfanga er við Skútuvog í Reykjavík en þar starfa um 90 manns í tæplega 80 stöðugildum.

Adfong

Framkvæmdastjórn Aðfanga skipa (frá vinstri): Hafdís Rósa Sæmundsdóttir, fjármálastjóri, Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri, og Einar Þórisson, innkaupastjóri.

Bananar

Bananar er rúmlega 60 ára gamalt fyrirtæki en það var stofnað 18. júní 1955 og er elsta fyrirtækið í samstæðu Haga. Bananar er stærsti dreifingaraðili á fersku grænmeti og ávöxtum á Íslandi og jafnframt eitt stærsta innflutningsfyrirtæki landsins. Fyrirtækið býður upp á mikið úrval af bæði íslensku og erlendu grænmeti og ávöxtum allan ársins hring og dreifir þeim til viðskiptavina sinna sex daga vikunnar, þar af til beggja matvörukeðja Haga.

_a127521

Viðskiptavinir Banana eru hátt í 900 talsins og samanstanda þeir af verslunum, veitingahúsum, sjúkrahúsum, skólum, leikskólum, mötuneytum o.fl. Vöruhúsið afgreiðir um 350 pantanir daglega sem eru um 80-100 tonn.

Bananar hafa viðskiptasambönd út um allan heim og beina því viðskiptum sínum beint til þeirra landa þar sem gæði ávaxta og grænmetis er best hverju sinni. Má þar nefna Kína, Brasilíu, Suður-Afríku, Kanada, Chile, Argentínu, Holland, Bandaríkin og Spán.

Vöruhús Banana er við Korngarða 1 í Reykjavík en starfsmenn fyrirtækisins eru um 80 talsins í rúmlega 80 stöðugildum.

Bananar

Framkvæmdastjórn Banana skipa (frá vinstri): Örvar Karlsson, sölustjóri, Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri, og Guðbjörg Helgadóttir, fjármálastjóri.

Ferskar kjötvörur

Ferskar-kjotvorurIngibjörn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Ferskra kjötvara.

Fyrirtækið Ferskar kjötvörur var stofnað árið 1993. Þar er unnið kjöt úr nauti, lambi og grís og er lögð áhersla á ferskleika og gæði. Ferskar kjötvörur bjóða viðskiptavinum sínum upp á það besta frá íslenskum bændum. Fagmenn sjá um að öll meðhöndlun sé rétt og örugg og fer öll vinnsla í gegnum nákvæmt rekjanleikakerfi.

Ferskar kjötvörur sjá verslunum Hagkaups og Bónus fyrir kjöti, en selja einnig til margra veitingahúsa og annarra aðila. Fyrirtækið á rúmlega 20 vörumerki og eru þau helstu Íslandsnaut, Íslandslamb, Íslandsgrís, Nautaveisla og Nautaat.

Ferskar kjötvörur eru til húsa við Síðumúla í Reykjavík og starfa þar um 60 manns í tæplega 50 stöðugildum.

Hýsing

Hýsing er vöruhús fyrir sérvöru og sérhæfir sig í lagerhaldi, afgreiðslu, vörumerkingum, tollafgreiðslu og öðru sem nauðsynlegt er til að gera vöru tilbúna til sölu í verslun. Hýsing er frábrugðið öðrum félögum innan samstæðu Haga að því leyti að fyrirtækið selur ekki vörur. Tekjur Hýsingar byggjast á tvennu, geymslutekjum og seldum handtökum, en ótal handtök eru við allar vörur áður en þær komast í sölu. Það þarf að umpakka, verð- og strikamerkja, setja á herðatré, öryggismerkja, innihaldsmerkja og ýmislegt fleira. Vöruhús Hýsingar er eitt hið fullkomnasta sinnar tegundar hér á landi.

Hagkaup er stærsti viðskiptavinur Hýsingar, auk þess sem sérvöruverslanir Haga og fleiri fyrirtæki nýta sér þjónustuna. Þá hefur viðbót við tölvukerfi Hýsingar gert fyrirtækinu kleift að þjónusta einnig smærri fyrirtæki en áður.

Vöruhús Hýsingar er við Skútuvog í Reykjavík. Starfsmenn fyrirtækisins voru tæplega 30 talsins í árslok í 30 stöðugildum.

Hysing

Framkvæmdastjórn Hýsingar skipa (frá vinstri): Guðmundur Oddgeirsson, framkvæmdastjóri, Ólína Guðlaugsdóttir, deildarstjóri, og Þórdís Arnardóttir, rekstrarstjóri.