Um Haga

Matvöruverslanir

Hagar eiga tvær af stærstu smásölukeðjum landsins, sem reknar eru undir vörumerkjum Bónus og Hagkaups. Bæði eru þetta rótgróin fyrirtæki sem náð hafa sterkri markaðsstöðu á löngum tíma.

Bónus

Bónus var stofnað árið 1989 og hefur markmið fyrirtækisins sem lágvöruverðsverslunar verið að tryggja neytendum um land allt lægsta mögulega vöruverð. Lykillinn að því hefur verið lágur rekstrarkostnaður, íburður í lágmarki, styttri opnunartími en gengur og gerist, takmarkað vöruúrval sem spannar þó allar þarfir heimilisins, stöðugt kostnaðaraðhald og mikill veltuhraði.

Bonus-hlid

Það er mikilvægt fyrir Bónus að halda því trausti sem almenningur hefur sýnt verslunarkeðjunni í gegnum árin. Eitt af leiðarljósum fyrirtækisins hefur ávallt verið að láta viðskiptavini sína njóta ávinnings af hagstæðum samningum og innkaupum. Það er einnig mikilvæg staðreynd að Bónus býður sama vöruverð í verslunum sínum um land allt, sem reynst hefur afar dýrmætt gagnvart neytendum.

Það sannaðist, enn og aftur, í fjölmörgum verðkönnunum undanfarið ár að Bónus býður enn lægsta vöruverð á Íslandi, þrátt fyrir harðnandi samkeppni. Við erum ákaflega stolt af því.

Bónus rekur 32 verslanir, 20 á höfuðborgarsvæðinu og 12 á stærstu þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni. Stöðugildin í árslok voru tæplega 400 en fjöldi starfsmanna er um 950.

Bonus

Framkvæmdastjórn Bónus skipa (frá vinstri): Erla Magnúsdóttir, fjármálastjóri, Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri, og Guðlaugur Gauti Þorgilsson, rekstrarstjóri.

Hagkaup

Hagkaup var stofnað árið 1959 og var í upphafi rekið sem póstverslun. Fyrsti stórmarkaðurinn var svo opnaður í Skeifunni árið 1970, þar sem Hagkaup rekur enn verslun sína. Hagkaup er smásöluverslun sem leggur megináherslu á að bjóða íslenskum neytendum góða þjónustu og breitt vöruúrval. Vöruúrvalið spannar allar daglegar þarfir heimilisins í matvöru, fatnaði, snyrtivöru, heimilisvöru og tómstundavöru þannig að viðskiptavinir geti gert öll sín innkaup í einni ferð. 

Hagkaup-pokar

Þá starfrækir Hagkaup þrjú Krispy Kreme-kaffihús með sérleyfissamningi frá Krispy Kreme Inc. Fyrsta kaffihúsið var opnað í Smáralind í nóvember 2016 en síðan þá hafa verið opnuð kaffihús í Skeifu og Kringlu. Krispy Kreme-kleinuhringir eru bakaðir og skreyttir daglega á staðnum.

Hagkaup rekur tíu verslanir, þar af sex á höfuðborgarsvæðinu, og er sama verð í þeim öllum. Hagkaup rekur einnig Stórkaup, sem er birgðaverslun fyrir fyrirtæki, mötuneyti, skip, veitingastaði og söluturna. Verslun Hagkaups í Holtagörðum var lokað á rekstrarárinu. Tvær verslanir Hagkaups eru opnar allan sólarhringinn, í Skeifunni og Garðabæ. Í árslok voru starfsmenn fyrirtækisins tæplega 900 í um 450 stöðugildum.

Hagkaup

Framkvæmdastjórn Hagkaups skipa (frá vinstri): Anna Jóna Aðalsteinsdóttir, fjármálastjóri, Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri, Brynjar Helgi Ingólfsson, rekstrarstjóri innkaupa- og markaðssviðs, og Sigurður Hansen, rekstrarstjóri verslana.