Um Haga

Framtíðarhorfur

Stærstu verkefnin á nýju rekstrarári

Eitt af stærstu verkefnunum á nýju rekstrarári verða framkvæmdir við endurbyggingu Skeifunnar 11. Verslun Bónus í Faxafeni mun flytjast í 1.200 m2 verslunarrými í Skeifunni seinni hluta árs. Fleiri verslunarrými verða í húsinu og er stefnt að því að leigja þau út. Þá mun verslun Bónus í Mosfellsbæ flytjast í Bjarkarholt 7-9 (áður Háholt 17-19) á svipuðum tíma en þar er um að ræða rúmlega 1.600 m2 verslunarrými.

Kaup Haga á öllu hlutafé Lyfju og Olíuverzlunar Íslands

Þann 26. apríl 2017 tilkynntu Hagar um undirritun samnings um kaup á öllu hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. og fasteignafélaginu DGV ehf. Kaupsamningarnir voru undirritaðir með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, samþykki hluthafafundar fyrir aukningu hlutafjár og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Hluthafafundur samþykkti aukningu hlutafjár á aðalfundi félagsins þann 7. júní 2017 og var fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar aflétt þann 13. júlí 2017.

Niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins var að vænta 8. mars sl. en sáttaviðræður félagsins við eftirlitið höfðu ekki skilað endanlegri niðurstöðu fyrir þann tíma. Sökum þess ákvað stjórn Haga að afturkalla samrunatilkynninguna vegna málsins. Ný samrunatilkynning var send eftirlitinu 27. mars sl. Þann 29. apríl sl. barst Högum frummat um hina nýju samrunatilkynningu en þar kemur fram að Hagar hafi ekki sýnt fram á að framboðin skilyrði nægi til að leysa úr öllum þeim samkeppnislegu vandamálum sem annars leiði af samrunanum. Þykir Samkeppniseftirlitinu því ekki unnt að fallast á framkomna tillögu félagsins að sátt vegna málsins.

Hagar vinna nú að því að koma athugasemdum við frummatið á framfæri og eftir atvikum veita Samkeppniseftirlitinu frekari upplýsingar með það að markmiði að ná sátt um samrunann. Málinu getur því enn lokið með setningu skilyrða fyrir samrunanum eða ógildingu hans.

Kaupsamningurinn er sem fyrr segir háður fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, gagnvart öllum framboðnum skilyrðum, og því verður ekki gengið frá viðskiptunum fyrr en afstaða Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir.

Heildarvirði Olís er tæpar 16.100 millj. kr. og vænt kaupverð um 10.200 millj. kr., auk vaxta. Gangi viðskiptin eftir verður kaupverð greitt með afhendingu 111 millj. hluta í Högum (á genginu 47,5), handbæru fé og lánsfé, en Hagar hafa tryggt sér skammtímafjármögnun vegna kaupanna. Samhliða kaupunum festu Hagar kaup á fasteignafélaginu DGV ehf. og er vænt kaupverð 400 millj. kr. Skuldahlutföll samstæðu (nettó vaxtaberandi skuldir / EBITDA) eftir viðskiptin verða um 2,0 og vaxtaberandi skuldir í heild um 13.500 millj. kr.

Áætlun rekstrarársins 2018/19

Áætlun stjórnenda fyrir rekstrarárið 2018/19, sem nú er hafið, gerir ráð fyrir að EBITDA samstæðunnar verði um 5.000 milljónir króna. Fjárfestingar eru áætlaðar um 1.800-2.000 milljónir króna. Stærstu verkefnin tengjast flutningi verslana Bónus í Mosfellsbæ og í Skeifunni.