Ávarp stjórnarformanns

Erna

Erna Gísladóttirstjórnarformaður Haga hf.

Ágætu hluthafar,

Nýliðið rekstrarár Haga gekk vel og er árið það fyrsta heila í kjölfar samruna Haga og Olís. Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 3.054 milljónum króna, sem jafngildir 2,6% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 2.317 milljónir króna eða 2,8% af veltu og skýrist sú aukning einna helst á innkomu Olís inn í félagið.

Verkefni rekstrarársins voru fjölmörg. Meðal annars var ráðist í vel heppnað skuldabréfaútboð sem tryggði endurfjármögnun félagsins og var mikil umframeftirspurn eftir skuldabréfum Haga sem er ánægjuefni. Að sama skapi var tryggð fjármögnun í formi lánalína.

Ný dótturfyrirtæki bættust einnig í hópinn á rekstrarárinu, þar á meðal Reykjavíkur Apótek en þann 7. mars 2019 undirrituðu Hagar samning um kaup á 90% hlutafjár apóteksins sem var síðan samþykktur af Samkeppniseftirlitinu þann 30. ágúst sl. Nýtt og glæsilegt apótek opnaði í Skeifunni 11 í febrúar 2020 og hefur verið vel tekið af viðskiptavinum. Sömuleiðis samþykkti Samkeppniseftirlitið kaup Olís, dótturfyrirtækis Haga, á öllu hlutafé í Mjöll Frigg ehf í byrjun janúar 2020 en Mjöll Frigg hefur framleitt hreinlætisefni fyrir heimili og iðnað í um 90 ár. Fyrirtækið hefur á síðustu mánuðum gefið í framleiðslu á sótthreinsandi efnum, til að mynda handspritti í kjölfar heimsfaraldursins og verið í góðu samstarfi við heilbrigðisyfirvöld til að tryggja stöðugt aðgengi að þeim.

Ráðist var í margskonar aðgerðir í hagræðingarskyni með það fyrir augum að einfalda skipulag og gera boðleiðir og ábyrgð skýrari. Einnig að nýta styrk heildarinnar og ná fram auknu hagræði. Ég vil meina að vel hafi tekist til og var samhæfing vöruhúsa í kjölfar kaupa á Olís þar stærst, sem og flutningur og samhæfing skrifstofa Hagkaups og Olís. Einnig var ráðist í margþættar skipulagsbreytingar og starfsemi Haga skipt í fimm meginstoðir, en þær eru Bónus, Olís, vöruhús, Bananar og Hagkaup og sérverslanir. Upplýsingatæknimál félagsins voru sömuleiðis sett undir einn hatt og með því tókst að hagræða til muna í upplýsingatæknirekstri með það að markmiði að einfalda innviði hvað varðar stafræna þjónustu og hagnýtingu tæknilausna.

Það hefur einnig verið ánægjulegt að fylgjast með vexti Bónus þrátt fyrir fækkun verslana á tímabilinu. Söluaukning var til að mynda 12% á tímabilinu janúar 2020 til mars 2020 og hafa viðskiptavinir einnig tekið fjölgun sjálfsafgreiðslukassa afar vel. Innleiðing slíkra lausna hefur gengið vonum framar og hefur sjálfsafgreiðslum verið komið upp í 14 verslunum Bónus og sjö verslunum Hagkaups.

Sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð félaga og fyrirtækja er að verða sífellt mikilvægari og yfirgripsmeiri í augum hag- og hluthafa.

Verslanir Haga og aðrar starfsstöðvar hafa einnig staðið sig vel í samfélagsmálum sínum, þá sérstaklega í umhverfismálum. Með notkun á umhverfisstjórnunarkerfi Klappa grænna lausna er nú hægt að mæla notkun starfsstöðva á orkugjöfum, flokkun og úrgangslosun. Samhliða því gefa Hagar nú í fyrsta sinn út samfélagsuppgjör samstæðunnar samkvæmt UFS leiðbeiningum Nasdaq (e. ESG Reporting Guide 2.0). Vísað er til niðurstöðu skýrslunnar hvað varðar þróun, umfang, stöðu og áhrif félagsins í tengslum við umhverfis-, samfélags- og starfsmannamál.

Þetta ár var mitt síðasta í stjórn Haga en í þann áratug sem ég hef setið í stjórn hef ég kynnst frábæru fólki og vil ég þakka því fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf. Ég óska Högum og því hæfileikaríka fólki sem þar starfar velfarnaðar, auk stjórnar, hluthafa og annarra hagaðila. Einnig óska ég Finni Oddssyni velfarnaðar sem tekur brátt við sem forstjóri félagsins og ég veit með vissu að Hagar eru í góðum höndum undir hans stjórn. Að sama skapi þakka ég Finni Árnasyni fyrir gjöfult samstarf í gegnum árin. Finnur lætur senn af störfum sem forstjóri Haga eftir rúmlega 22 ár innan félagsins og hefur þekking hans á íslenskum smásölu- og neytendamarkaði verið félaginu afar dýrmæt. Það ber einnig að þakka Guðmundi Marteinssyni fyrir hans mikilvæga starf í þágu félagsins en hann lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Bónus í sumar eftir tæplega þrjá áratugi innan fyrirtækisins. Ferill hans hefur verið sérlega farsæll og á hann afar stóran þátt í undraverðri velgengni Bónus á íslenskum neytendamarkaði.

Hagar hafa mikið upp á að bjóða og hefur félagið alla burði til að takast á við þær áskoranir sem það stendur nú frammi fyrir í kjölfar kórónuveirufaldursins, líkt og svo mörg fyrirtæki út um allan heim. 

Fjárhagurinn stendur sterkur og tækifærin eru fjölmörg þrátt fyrir áföll síðustu mánaða. Hagar og dótturfyrirtæki munu eftir sem áður halda áfram að sinna þörfum og óskum viðskiptavina á framúrskarandi hátt.

Erna Gísladóttir, stjórnarformaður Haga hf.