Um Haga

Starfsemin

Hagar hf. er leiðandi verslunarfyrirtæki á íslenskum matvöru-, sérvöru- og eldsneytismarkaði en félagið var stofnað í núverandi mynd árið 2003. Í lok rekstrarársins starfrækti félagið 40 matvöruverslanir, 28 Olís þjónustustöðvar, 42 ÓB-stöðvar, tvær birgðaverslanir, þrjár sérvöruverslanir, tvö apótek, tvö vöruhús og tvær framleiðslustöðvar. Kjarnastarfsemi Haga er á sviði matvöru og tengdra vöruhúsa, auk eldsneytissölu. Starfsmenn samstæðunnar í árslok voru 2.627 talsins og meðalfjöldi stöðugilda ársins var 1.522. Hagar eru skráðir á aðallista NASDAQ OMX Iceland og er eignarhald dreift en í lok árs voru hluthafar 684 talsins. Höfuðstöðvar félagsins eru í Kópavogi. 

Fyrirtæki Haga voru starfrækt í sjö dótturfélögum á rekstrarárinu. Fyrirtækin eru rekin sem sjálfstæðar rekstrareiningar og hafa þess vegna ólík rekstrarform og ólíka menningu. Hlutverk Haga er að veita fyrirtækjum sínum aðhald í rekstri og finna sameiginlega fleti sem leitt geta til hagræðingar í kostnaði og aukið tekjumöguleika fyrirtækjanna og um leið samkeppnisstyrk þeirra. Hlutverk Haga er enn fremur að skapa virði fyrir hluthafa sína með arðsömum rekstri.

Hagar hafa sömuleiðis það að markmiði að starfrækja og þróa leiðandi vörumerki á smásölumarkaði sem standast væntingar viðskiptavina sinna og hafa burði til að vaxa. Markmiðið er einnig að halda einfaldleika í starfsemi allra rekstrareininga, sem og að reka hverja einingu sem sjálfstætt og arðbært fyrirtæki með öllum eiginleikum hefðbundins fyrirtækis. Markmið Haga er enn fremur að hámarka virði hverrar rekstrareiningar með aukinni þekkingu á viðskiptum og smásölu.

Innan allra rekstrareininga Haga eru sömu megingildin höfð að leiðarljósi í rekstri og þjónustu. Í þeim er falið grundvallarviðhorf fyrirtækisins til þjónustu við viðskiptavini, framgöngu starfsfólks og ábyrgðar þess í starfi. 

Gildi Haga eru:

  • Ábyrgð
  • Við erum dugleg
  • Heiðarleiki
  • Hreinskilni
  • Ekkert bruðl
  • Enginn leikmaður er mikilvægari en liðið
  • Gerum betur í dag en í gær

Dótturfélög í samstæðu Haga eru Hagar verslanir ehf., Olíuverzlun Íslands ehf., Bananar ehf., Ferskar kjötvörur ehf., Noron ehf., Reykjavíkur Apótek ehf. og Mjöll Frigg ehf., sem er dótturfélag Olís.

Undir hatti Haga verslana ehf. eru fyrirtækin Bónus, Hagkaup, Aðföng og Útilíf. Bónus og Hagkaup eru tvær af stærstu matvöruverslunarkeðjum landsins og sinnir vöruhúsið Aðföng stoðþjónustu við matvörukeðjurnar. Útilíf er smásölufyrirtæki sem sérhæfir sig í sölu á íþrótta- og útivistarvörum og rekur tvær verslanir á höfuðborgarsvæðinu, í Kringlunni og Smáralind.

Olíuverzlun Íslands ehf. sérhæfir sig, auk annars, í sölu og þjónustu með eldsneyti. Olís rekur 28 þjónustustöðvar og 42 ÓB sjálfsafgreiðslustöðvar. Olís rekur einnig verslunina Rekstrarland og verslun Stórkaups. Mjöll Frigg er dótturfélag Olís.

Bananar ehf. er stærsti dreifingaraðili á fersku grænmeti og ávöxtum á Íslandi og Ferskar kjötvörur ehf. er einn af stærstu kjötverkendum landsins. Rekstur Ferskra kjötvara var sameinaður rekstri Aðfanga í lok rekstrarárs.

Noron ehf. rekur tískuvöruverslunina Zara í Smáralind. Reykjavíkur Apótek er í 90% eigu Haga og rekur fyrirtækið tvö apótek í Reykjavík.