Um Haga

Matvöruverslanir

Hagar eiga tvær af stærstu smásölukeðjum landsins, sem reknar eru undir vörumerkjum Bónus og Hagkaups. Bæði eru þetta rótgróin fyrirtæki sem náð hafa sterkri markaðsstöðu á löngum tíma.

Bónus

Bónus var stofnað í apríl árið 1989 þegar fyrsta verslunin var opnuð við Skútuvog 13 í Reykjavík. Viðtökur landsmanna við hinni nýju verslun voru frábærar enda vöruverð mun lægra en þá þekktist. Bónus var jafnframt fyrsta verslunin til að taka upp rafrænt strikamerkjakerfi sem svo leysti gömlu verðmiðana af hólmi. Salan fór langt fram úr væntingum og var því ráðist í að opna aðra verslun sama ár. Ári síðar var þriðja verslunin opnuð og sú fjórða árið 1991. Hægt og þétt hefur verslunum fjölgað og voru þær í árslok 2019/20 alls 31 talsins, 19 staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og 12 á stórum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni.

 

 

Sérstaða Bónus hefur verið mikil allt frá fyrsta degi. Markmið Bónus sem lágvöruverðsverslun hefur alla tíð verið að tryggja neytendum um land allt lægsta mögulega vöruverð hverju sinni. Lykillinn að því hefur verið lágur rekstrarkostnaður, íburður í lágmarki, styttri opnunartími en gengur og gerist, takmarkað vöruúrval sem spannar þó allar þarfir heimilisins, stöðugt kostnaðaraðhald og mikill veltuhraði. 

Það er mikilvægt fyrir Bónus að halda því trausti sem almenningur hefur sýnt verslunarkeðjunni í gegnum árin. Eitt af leiðarljósum fyrirtækisins hefur ávallt verið að láta viðskiptavini sína njóta ávinnings af hagstæðum samningum og innkaupum. Það er einnig mikilvæg staðreynd að Bónus býður sama vöruverð í verslunum sínum um land allt, sem reynst hefur afar dýrmætt gagnvart neytendum. Það sannast ítrekað í verðkönnunum að Bónus býður lægsta vöruverð á Íslandi, þrátt fyrir harðnandi samkeppni.

Bónus hefur ávallt lagt mikla áherslu á umhverfismál og flokkað plast, pappa og annan úrgang í fjölda ára. Verslunin var til að mynda fyrst allra matvöruverslana til að kolefnisjafna rekstur sinn á árinu 2018 og gerir slíkt hið sama fyrir rekstrarárið 2019. Verslunin hefur verið leiðandi í umhverfismálum á Íslandi og hætti til að mynda sölu á hefðbundnum plastpokum í október 2018 og hóf að bjóða viðskiptavinum sínum upp á 100% lífniðurbrjótanlega poka í stað þeirra. 

Hjá Bónus störfuðu í árslok 905 starfsmenn í 397 stöðugildum.

Bonus

Framkvæmdastjórn Bónus skipa (frá vinstri): Erla Magnúsdóttir, fjármálastjóri, Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri, og Guðlaugur Gauti Þorgilsson, rekstrarstjóri.

Hagkaup

Hagkaup var stofnað árið 1959 og á starfsemi fyrirtækisins djúpar rætur í samfélaginu enda verið órofinn hluti af verslunarsögu landsins í rúm 60 ár. Í upphafi var Hagkaup rekið sem póstverslun sem sendi vörur beint frá birgðageymslu og upp að dyrum kaupandans. Fyrsta Hagkaupsverslunin var svo opnuð við Miklatorg árið 1967 og árið 1970 opnaði Hagkaup verslun sína í Skeifunni, sem er eitt helsta flaggskip starfseminnar, enn þann dag í dag.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því fyrsta verslunin leit dagsins ljós og hefur rekstur Hagkaups ávallt aðlagað sig að síbreytilegu neyslumynstri landsmanna. Í dag er megináhersla lögð á breitt úrval í matvöru, snyrtivöru og leikföngum, auk þess sem seldar eru heimilisvörur, tómstundavörur og fatnaður. Kappkostað er við að gera verslunarferðina eins ánægjulega og hagkvæma fyrir viðskiptavininn og mögulegt er. Í byrjun apríl 2020 endurvakti Hagkaup netverslun sína en Hagkaup byrjaði með verslun á netinu árið 1998, sem á þeim tíma var fyrst sinnar tegundar.

Á rekstrarárinu var kaffihúsum Krispy Kreme lokað en þau voru starfræk í verslunum Hagkaups í Skeifunni, Kringlunni og Smáralind. Í þeirra stað hefur Ísey Skyr opnað sína geysivinsælu skyrbari.

Í árslok rak Hagkaup níu verslanir, þar af sex á höfuðborgarsvæðinu og er þar hægt að nálgast sama verð um allt land. Þá rekur Hagkaup tvær MAC snyrtivöruverslanir í Kringlunni og Smáralind. Verslun Hagkaups í Njarðvík var lokað í apríl síðastliðnum. Tvær verslanir Hagkaups eru opnar allan sólarhringinn, í Skeifunni og Garðabæ. 

Hagkaup hefur unnið ötullega í umhverfismálum sínum á síðustu árum, sem og aðgerðum til að minnka rýrnun og þar með matarsóun. Verslunin hefur kolefnisjafnað rekstur ársins 2018 í samvinnu við Kolvið og mun gera slíkt hið sama fyrir árið 2019. Stöðugt er unnið að því að minnka plastnotkun innan verslana, sem og að ná auknum orkusparnaði með umhverfisvænni orkugjöfum.

Í árslok voru starfsmenn fyrirtækisins 763 talsins í 352 stöðugildum.

Framkvæmdastjórn Hagkaups skipa (frá vinstri): Svanberg Halldórsson, rekstrarstjóri verslana, Arndís Arnarsdóttir, starfsmannastjóri, Brynjar Helgi Ingólfsson, rekstrarstjóri innkaupa- og markaðssviðs, Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri, og Þrúður Maren Einarsdóttir, fjármálastjóri.