Um Haga

Þjónustu- og bensínstöðvar

Olíuverzlun Íslands ehf. (Olís) var stofnað 3. október 1927 og er því elsta fyrirtækið í samstæðu Haga en samruni Haga og Olís var samþykktur í nóvember 2018.

Olís sérhæfir sig í sölu og þjónustu með eldsneyti og aðrar olíuvörur, auk skyndibita, ýmissa nauðsynjavara fyrir bílaeigendur, vörum til útivistar og ferðalaga ásamt fjölþættri þjónustu við sjávarútvegs-, verktaka- og flutningafyrirtæki um land allt. Grunnrekstur Olís hefur ávallt verið eldsneytissala, en með nýtingu á dreifineti fyrirtækisins og sérfræðiþekkingu hefur aukist sala á öðrum vörum, líkt og smurolíum, efnavörum, rekstrarvörum, gasi og nýlenduvörum. Olís á 40% hlut í Olíudreifingu ehf. en Olíudreifing sér m.a. um birgðahald og dreifingu á fljótandi eldsneyti fyrir Olís.

Hlutverk Olís er að vera verslunar- og þjónustufyrirtæki í fremstu röð á fyrirtækja- og einstaklingsmarkaði. Markmið fyrirtækisins er að bjóða viðskiptavinum góðar og samkeppnishæfar vörur á samkeppnishæfu verði, ásamt sveigjanlegu sölu- og þjónustukerfi um land allt. Þá leggur Olís áherslu á umhverfisvernd og mannúðarmál.

Olís rekur 28 þjónustustöðvar vítt og breitt um landið undir vörumerki Olís, þar af 10 á höfuðborgarsvæðinu. Markmið þjónustustöðva Olís er að vera „vinur við veginn“ og vera áfangastaður viðskiptavina á ferðinni um landið. Á stærstu þjónustustöðvum sínum rekur Olís tvö skyndibitamerki, Grill 66 og Quiznos. Grill 66 er vörumerki í eigu félagsins en Quiznos hefur verið starfrækt með sérleyfi frá árinu 2007. Á tveimur þjónustustöðvum Olís, Álfheimum í Reykjavík og Höfn í Hornafirði, hafa verið settar upp hraðhleðslustöðvar fyrir bíla sem ganga fyrir rafmagni og verður slíkum stöðvum fjölgað jafnt og þétt. Sömuleiðis er boðið upp á metan á stöðvum Olís í Álfheimum, Mjódd og á Akureyri.

Fyrsta ÓB-sjálfsafgreiðslustöðin var opnuð árið 1996 í Hafnarfirði en þær eru nú orðnar 42 talsins um land allt, þar af 8 á höfuðborgarsvæðinu og 34 á landsbyggðinni. 

Olís starfrækir tvær birgðaverslanir, annars vegar Rekstrarland og hins vegar Stórkaup. Rekstrarland var opnuð í maí 2014. Rekstrarland er sérverslun með ýmiss konar rekstrar-, heilbrigðis- og efnavörur. Sérstök áhersla er lögð á hreinlætisvörur og veita starfsmenn Rekstrarlands alhliða ráðgjöf varðandi val á efnum, tækjum o.fl. Verslun Rekstrarlands er í Vatnagörðum í Reykjavík.

Í lok nóvember 2019 tók Olís yfir rekstur Stórkaups en verslunin var áður í eigu Hagkaups. Stórkaup var stofnað árið 1996, undir nafninu Bónusbirgðir, en Stórkaup er birgðaverslun fyrir fyrirtæki, mötuneyti, skip, veitingastaði og söluturna. Verslun Stórkaups er í Faxafeni í Reykjavík.

Í janúar 2020 samþykkti Samkeppniseftirlitið kaup Olís á öllu hlutafé í Mjöll Frigg ehf. Mjöll Frigg er einn stærsti framleiðandi á hreinlætisvörum á Íslandi og er kaupunum ætlað að styðja við stefnu fyrirtækisins um að veita viðskiptavinum sínum betri og víðtækari þjónustu.

Olís hefur í gegnum tíðina hugað vel að umhverfismálum sínum og átt í gjöfulu samstarfi við Landgræðsluna, allt frá árinu 1992. Olís hefur að sama skapi kolefnisjafnað rekstur sinn í samstarfi við Landgræðsluna og tekur einnig þátt í kostnaði þeirra viðskiptavina sem kjósa að kolefnisjafna eldsneytiskaup sín hjá bæði Olís og ÓB.

Í árslok störfuðu 553 manns hjá fyrirtækinu í 404 stöðugildum.

Framkvæmdastjórn Olís skipa (frá vinstri): Ragnheiður Björk Guðmundsdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs, Þrúður Maren Einarsdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, Jón Árni Ólafsson, sviðsstjóri smásölusviðs, Jón Ólafur Halldórsson, framkvæmdastjóri, og Stefán Karl Segatta, sviðsstjóri fyrirtækjasviðs.