Undirnefndir

Hluthafar Haga hf. kusu sér tilnefningarnefnd á aðalfundi félagsins 2019. Í nefndinni skulu sitja að lágmarki þrír einstaklingar en stjórnarmenn Haga hf. skulu ekki mynda meirihluta hennar. Meirihluti nefndarmanna skal vera óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess.

Stjórn Haga hf. hefur skipað tvær undirnefndir stjórnar, endurskoðunarnefnd og starfskjaranefnd. Nefndarmenn eru þrír í hvorri nefnd fyrir sig. Að minnsta kosti tveir nefndarmenn í undirnefnd stjórnar þurfa að vera óháðir félaginu og stjórnendum þess.

tilnefningarnefnd

Hlutverk tilnefningarnefndar er að tilnefna frambjóðendur til setu í stjórn Haga hf. fyrir árlegan aðalfund, eða almennan hluthafafund, ef til stjórnarkjörs kemur, í samræmi við samþykktir félagsins og starfsreglur nefndarinnar.

Tilnefningarnefnd skal meta hugsanlega frambjóðendur og tilvonandi stjórnarmenn félagsins út frá hæfni, reynslu og þekkingu og þeim kröfum sem gerðar eru til stjórnarmanna í Högum hf. á hverjum tíma. 

Tilnefningarnefndina skipa nú Símon Á Gunnarsson, formaður nefndarinnar, Björg Sigurðardóttir og Ásta Bjarnadóttir.

Stjórn Haga hf. hefur sett tilnefningarnefnd starfsreglur sem samþykktar voru þann 27. mars 2019 og taka þær m.a. mið af fyrirmælum sáttar Samkeppniseftirlitsins frá 11. september 2018. Starfsreglurnar voru lagðar fyrir aðalfund 2019 til samþykktar. 

Endurskoðunarnefnd

Hlutverk endurskoðunarnefndar er m.a. að hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila. Nefndinni ber að fara yfir fjárhagslegar upplýsingar og fyrirkomulag upplýsingagjafar stjórnenda til stjórnar félagsins. Endurskoðunarnefnd skal yfirfara mikilvæg atriði varðandi reikningsskil félagsins, þ.m.t. flókin og óvenjuleg viðskipti og matskennda liði. Endurskoðunarnefnd skal enn fremur yfirfara stjórnarháttayfirlýsingu félagsins. Endurskoðunarnefnd skal skila skýrslu um störf sín til stjórnar árlega.

Í endurskoðunarnefnd eru nú Anna Þórðardóttir, formaður nefndarinnar, Katrín Olga Jóhannesdóttir og Stefán Árni Auðólfsson. Nefndarmenn eru óháðir endurskoðendum Haga hf., daglegum stjórnendum félagsins og stórum hluthöfum þess.

Endurskoðunarnefnd hefur sett sér starfsreglur sem skulu yfirfarnar árlega og samþykktar af stjórn. Núgildandi starfsreglur endurskoðunarnefndar voru samþykktar á stjórnarfundi félagsins þann 20. apríl 2020.

Á starfsárinu 2019-20 hélt endurskoðunarnefnd fimm fundi og mættu allir nefndarmenn á alla fundina.

Starfskjaranefnd

Starfskjaranefnd annast það hlutverk stjórnar að undirbúa tillögu að starfskjarastefnu félagsins, tillögu til hluthafafundar um starfskjör stjórnarmanna og framkvæmd starfssamninga við forstjóra og aðra þá starfsmenn er heyra undir stjórn félagsins. Starfskjaranefnd skal skila skýrslu um störf sín til stjórnar árlega.

Starfskjaranefnd skipa nú Erna Gísladóttir, formaður nefndarinnar, Davíð Harðarson og Eiríkur S. Jóhannsson. Meirihluti nefndarmanna er óháður endurskoðendum Haga hf., daglegum stjórnendum félagsins og stórum hluthöfum þess.

Starfskjaranefnd hefur sett sér starfsreglur sem skulu yfirfarnar árlega og samþykktar af stjórn. Núgildandi starfsreglur starfskjaranefndar voru samþykktar á stjórnarfundi félagsins þann 16. maí 2019.

Á starfsárinu 2019-20 hélt starfskjaranefnd fimm fundi og mættu allir nefndarmenn á alla fundina.

Framkvæmd starfskjarastefnu

Starfskjaranefnd hefur gætt að framkvæmd gildandi starfskjarastefnu Haga sem samþykkt var á aðalfundi félagsins árið 2019. Starfskjaranefnd skal útbúa skýrslu um framkvæmd starfskjarastefnu fyrir liðið starfsár sem lögð er fyrir stjórn félagsins til samþykktar. Skýrslan er birt fyrir aðalfund og skal gera grein fyrir efni hennar á aðalfundinum og leggja fram til staðfestingar. Skýrsluna má finna hér .