Um Haga

staðan og Framtíðarhorfur

afkomuspá liðins árs

Áætlun stjórnenda fyrir rekstrarárið 2019/20, sem nú var að líða, gerði ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) yrði 8.750-9.200 millj. kr. að teknu tilliti til áhrifa af leigustaðli IFRS 16. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 8.890 millj. kr. á rekstrarárinu og því innan þeirrar áætlunar sem gefin var út.

Útgefin fjárfestingaráætlun gerði ráð fyrir 3.800 milljón króna fjárfestingum á árinu. Niðurstaðan var hins vegar 5.006 milljónir króna en mismuninn má að mestu rekja til fasteignakaupa, sem ekki voru áætlaðar, auk þess sem þungi byggingar vöruhúss og innleiðingarverkefna í upplýsingatækni var meiri á rekstrarárinu en áætlað var.

breyting á framkvæmdastjórn

Þann 30. apríl sl. var tilkynnt að forstjóri Haga hf., Finnur Árnason, hafi óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu. Þá óskaði framkvæmdastjóri Bónus, Guðmundur Marteinsson, einnig eftir því að láta af störfum. Þann 7. maí var tilkynnt um ráðningu á nýjum forstjóra og mun Finnur Oddsson, sem síðustu ár hefur verið forstjóri Origo hf., hefja störf hjá félaginu í sumar. Finnur Árnason mun starfa áfram fram að því. Þá mun Guðmundur einnig starfa áfram þar til ráðið hefur verið í hans stað. Fjárhagsleg áhrif starfslokanna munu koma fram á fyrsta ársfjórðungi rekstrarársins 2020/21 og eru þau áætluð í heild, með launatengdum gjöldum, um 314,5 millj. kr. 

áhrif covid-19 faraldursins, afkomuspá og framtíðarhorfur

Hagar og dótturfélög þess hafa ekki farið varhluta af áhrifum COVID-19 faraldursins. Áhrifin á ársreikning félagsins, fyrir tímabilið 1. mars 2019 til 29. febrúar 2020, eru engin en þeirra fór fyrst að gæta í mars 2020. Áhrifin á félög innan samstæðunnar eru ólík eftir starfsemi þeirra. Tekjuvöxtur er í dagvöruhluta félagsins en samdráttur í olíu-, bensín- og veitingasölu hjá Olís og í sérvöruverslunum. Gengisfall íslensku krónunnar og sú umtalsverða lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu sem átt hefur sér stað undanfarnar vikur, hefur áhrif á framlegð Olís og þá hafa verðhækkanir birgja verið töluverðar. Ljóst er að heildaráhrif faraldursins á rekstur fyrsta ársfjórðungs 2020/21, þ.e. tímabilið mars til maí, verða töluverð. Mat stjórnenda gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir samstæðunnar (EBITDA) á tímabilinu verði 800-1.100 millj. kr. Stærstu áhrifaþættir COVID-19 eru áhrif á Olís, verðfall á olíumörkuðum, kostnaðarverðshækkanir, gengisfall íslensku krónunnar og auk þess er tekið tillit til einskiptisáhrifa af breytingu á framkvæmdastjórn. Félagið mun, enn sem komið er, ekki gefa út afkomuspá fyrir rekstrarárið 2020/21 þar sem mikil óvissa ríkir enn um áhrif faraldursins á nýju rekstrarári. Þrátt fyrir óvissu, er það mat stjórnenda að áhrif COVID-19 faraldursins séu að mestu á fyrsta ársfjórðungi og því komin fram að stórum hluta.

Picture19

Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til að tryggja öryggi starfsfólks, viðskiptavina og annarra samstarfsaðila félagsins. Aðgerðirnar skipta miklu máli því stór hluti af starfsemi samstæðunnar, s.s. matvöruverslanir og tengd vöruhús, ásamt sölustöðum eldsneytis, gegna stóru hlutverki í innviðastarfsemi landsins, sérstaklega í krefjandi aðstæðum sem þessum. Mikið og gott samstarf hefur verið við stjórnvöld og einnig við birgja, sem hefur komið í veg fyrir vöruskort.

Efnahags- og lausafjárstaða Haga er sterk en samkvæmt þeim greiningum sem gerðar hafa verið er félagið í stakk búið til að takast á við þær aðstæður sem nú dynja á. Fjármögnun félagsins er að mestu tryggð til langs tíma og aðgangur að skammtímafjármagni er einnig tryggður. Þá var úrræði ríkisstjórnarinnar hvað varðar hlutabótaleið nýtt að mjög litlu leyti en tekin var ákvörðun þann 8. maí að endurgreiða allan þann kostnað aftur til Vinnumálastofnunar. Endurgreiðsla hefur nú verið gerð og var að fjárhæð 29,2 millj. kr. samkvæmt útreikningum Vinnumálastofnunar.

Helstu verkefni á rekstrarárinu 2020/21

Helstu verkefni og fjárfestingar á rekstrarárinu sem nú er hafið, auk hefðbundinnar endurnýjunar verslana og viðhalds, er bygging 4.440 m2 kæli- og frystivöruhúss Aðfanga í Korngörðum 1 og flutningur starfseminnar í nóvember nk. Þá er fyrirhugað að innleiða sjálfsafgreiðslukassa í sjö Bónusverslanir og eina Hagkaupsverslun á árinu. Ný ÓB stöð mun opna á Sauðárkróki á árinu, þegar eldri stöð verður flutt. Einnig er ráðgert að fjölga rafhleðslustöðvum, auk fleiri verkefna.

Picture

Þann 15. maí sl. var skrifað undir kaupsamning um fasteignina að Furuvöllum 17 á Akureyri. Húsnæðið hýsir verslun Hagkaups en gert er ráð fyrir nokkurri endurnýjun á versluninni á næstu misserum.