Samfélagsleg ábyrgð

Stjórn Haga hefur sett félaginu stefnu um samfélagslega ábyrgð. Stefnan var formlega samþykkt á stjórnarfundi 2. maí 2017 og endurskoðuð í apríl 2020. Hagar hafa þó alla tíð vandað til verka og haft samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í rekstri sínum.

Stefna Haga hf. um samfélagslega ábyrgð

Hagar sem öflugt félag á smásölumarkaði er í daglegum tengslum við almenning í landinu. Hagar hafa lagt metnað sinn frá upphafi í að þjóna íslenskum neytendum með ábyrgum hætti. Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð er langtímaáætlun félagsins um hvernig það getur lagt sinn skerf til betra og heilbrigðara samfélags og umhverfis, samhliða heilbrigðum rekstri. Stefnan segir auk þess til um hvernig samskiptum við hagsmunaaðila verði háttað. Helstu hagsmunaaðilar Haga eru starfsfólk, hluthafar, viðskiptavinir, birgjar og fjármögnunaraðilar, fjölmiðlar auk samfélagsins í heild sinni.

Hagar eru aðilar að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð, og hafa verið frá upphafi árs 2016. Í lok árs 2019 skrifuðu Hagar, fyrir hönd samstæðunnar, undir samning við Klappir Grænar lausnir hf. en markmið með samningnum er að ná mælanlegum árangri í umhverfismálum og málum tengdum sjálfbærni. Samhliða því gefa Hagar út samfélagsuppgjör samstæðunnar skv. UFS leiðbeiningum Nasdaq.

Stefnuyfirlýsing

Hagar vilja láta gott af sér leiða og starfa í sátt við samfélag og umhverfi. Hagar vilja eiga gott samstarf við hagsmunaaðila sína og skapa þeim virði með ákvörðunum sínum. Samfélagsleg ábyrgð er hluti af grunnrekstri félagsins og er höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku í stórum málefnum. Við mat á árangri skal horft til þeirra áhrifa sem félagið hefur á samfélag sitt og umhverfi, auk arðsemi.

Meginstoðir stefnu

Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð byggir á fimm meginstoðum. Stoðirnar móta þær áherslur sem félagið fer eftir og mótar þau lykilverkefni sem unnið er að hverju sinni. Meginstoðirnar fimm eru ekki innbyrðis háðar og ein stoð er ekki annarri mikilvægari.

 • Umhverfi
  Hagar leggja áherslu á að þekkja þau neikvæðu áhrif sem starfsemi félagsins hefur á umhverfið og leitast við að draga úr þeim eftir fremsta megni. Sérstök áhersla er lögð á að draga úr matarsóun, minnkun sorps og umhverfisvæna orkugjafa.
 • Samfélag
  Hagar leggja samfélaginu lið fyrst og fremst með því að bjóða neytendum hagstæðustu kjör hverju sinni og vera í forystu í baráttumálum fyrir hönd neytenda. Þá styður félagið ýmis samfélagsleg málefni hvort sem er í formi fjárhagslegra styrkja eða samstarfsverkefna.
 • Mannauður
  Hagar kappkosta að tryggja vellíðan og öryggi starfsfólks. Jafnrétti er haft að leiðarljósi í öllum ákvörðunum og skapar félagið virði fyrir atvinnulífið með menntun og þjálfun starfsfólks.
 • Stjórnarhættir
  Hagar starfa eftir þeim lögum og reglum sem félaginu ber að fylgja, sem og leiðbeiningum um góða stjórnarhætti. Auk þess hefur félagið sett sér siða- og samskiptareglur sem fylgt er í hvívetna í starfseminni.
 • Forvarnir
  Hagar leggja áherslu á forvarnir í starfsemi sinni, með það að markmiði að bæta hag samfélagsins alls, neytenda og starfsmanna, og um leið hag félagsins sjálfs. Hagar kappkosta að bjóða upp á marga og hagstæða valkosti sem bæta heilbrigði neytenda.

Framkvæmd og gildissvið

Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð nær til móðurfélagsins auk allra dótturfélaga samstæðunnar og skal vera leiðbeinandi fyrir þau. Stjórn félagsins og stjórnendur láta sig málaflokkinn varða og bera á honum ábyrgð. Markvisst er unnið að framfylgd stefnunnar innan félagsins. Stefna um samfélagslega ábyrgð og árangursmat hennar er hluti af stefnumótun innan félagsins og er málaflokknum helgað sérstökum kafla í ársskýrslu félagsins. Stefnu þessa skal endurskoða að lágmarki á 12 mánaða fresti.

Lykilverkefni 2019-2020

Unnið var að mörgum samfélagslegum verkefnum á árinu sem var að líða, líkt og undanfarin ár. Um nánari upplýsingar vísast til samfélagsuppgjörs samstæðu Haga, sem nú er birt í fyrsta sinn, og má nálgast í ársskýrslu þessari og á vef félagsins