Ávörp

Ávarp forstjóra

Finnur Árnason forstjóri Haga hf.

Rekstur Haga á nýliðnu rekstrarári gekk vel. Hagnaður rekstrarársins fyrir skatta nam 5.041 milljón króna, samanborið við 4.498 milljónir króna árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 4.036 milljónum króna á rekstrarárinu, sem jafngildir um 5,0% af veltu, en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 3.596 milljónir. 

Segja má að árið hafi verið ár umbreytinga. Samkeppnisumhverfi félagsins er að breytast hratt og ákvarðanir voru teknar með það að markmiði að bæta samkeppnishæfni til framtíðar. Þannig var ráðist í að loka verslun Debenhams í Smáralind og verslun Hagkaups þar minnkuð um rúmlega 4.800 fermetra. Einnig var ákveðið að minnka verslun Hagkaups í Kringlunni um tæplega 3.500 fermetra og loka tískuvöruverslunum og verslun Útilífs í Glæsibæ. Á haustmánuðum 2017 munu Hagar því eingöngu reka verslanir Útilífs og Zara á sérvörusviði. 

Frá upphafi nýliðins rekstrarárs hefur verslunarfermetrum sem félagið hefur á leigu því fækkað um tæplega 20.000. Á móti var tekin ákvörðun um að sækja fram og stækka verslanir Bónus í Kauptúni og á Smáratorgi um rúmlega 1.200 fermetra samtals.

Undanfarin misseri hefur félagið eignast nokkrar fasteignir. Samtals á félagið nú rúmlega 28.000 fermetra af fasteignum, sem bókfærðar eru á rúmlega 6,5 milljarða króna. Þar á meðal er rúmlega 4.700 fermetra eign á svokölluðum Skeifureit, sem var umfangsmesta fjárfesting liðins árs. Þar er fyrirhugað að byggja húsnæði fyrir tryggingabætur, sem voru hluti af kaupverði eignarinnar, og flytja verslun Bónus sem nú er í Faxafeni í nýja byggingu. Auk þess var fjárfest í endurnýjun verslunar Hagkaups í Smáralind, samhliða minnkun verslunarinnar.

Segja má að árið hafi verið ár umbreytinga. Samkeppnisumhverfi félagsins er að breytast hratt og ákvarðanir voru teknar með það að markmiði að bæta samkeppnishæfni til framtíðar.

Styrking íslensku krónunnar undanfarin misseri hefur gert það að verkum að umtalsverð verðhjöðnun er í mörgum vöruflokkum sem félagið selur. Þannig eru mörg dæmi um magnaukningu í ákveðnum vöruflokkum en veltuminnkun sömu vöruflokka vegna þessara áhrifa. Styrking íslensku krónunnar nam 9,5%, m.v. vegið meðaltal innkaupa félagsins í erlendri mynt. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 1,66% en vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,4%. Það er því krefjandi að fást við verðhjöðnun á tekjuhlið á sama tíma og kostnaðarhliðin hækkar, en stærstu kostnaðarliðir félagsins eru laun og húsnæðiskostnaður. Húsnæðiskostnaðurinn tekur að mestu mið af hækkun vísitölu neysluverðs og nokkur þensla hefur verið á vinnumarkaði.

Í nóvember var skrifað undir kaupsamning við Lindarhvol, sem er í eigu ríkissjóðs, um kaup á öllu hlutafé Lyfju hf. Fyrirvörum um áreiðanleikakannanir hefur verið aflétt, en kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og er niðurstöðu að vænta fyrir lok júlímánaðar. Þegar fyrirvörum var aflétt, var tilkynnt að stjórn Haga vilji taka til skoðunar að selja Heilsu, dótturfélag Lyfju, gangi kaupin eftir.

Í lok apríl var síðan skrifað undir kaupsamning um allt hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. og fasteignafélaginu DGV ehf. Kaupin eru með fyrirvara um áreiðanleikakönnun, samþykki Samkeppniseftirlitsins og samþykki hluthafafundar, en gert er ráð fyrir að helmingur kaupverðsins verði greiddur með hlutabréfum í Högum.

Grundvöllur þessara fjárfestinga er sterk fjárhagsstaða félagsins. Með þessum fjárfestingum skapast fjölmörg tækifæri. Tekjustoðir félagsins verða sterkari og í kaupunum felast bæði möguleikar til sóknar og aukinnar samlegðar.

Í tilefni af góðu uppgjöri félagsins mun Bónus styrkja Uncief og Fatímusjóðinn, Neistann – styrktarfélag hjartveikra barna, Alzheimersamtökin, Stígamót og Vin – bata og fræðslusetur Rauða krossins um eina milljón króna hvert félag. Þá mun Hagkaup einnig styrkja Breið bros, Einhverfusamtökin, Hugarafl – Pieta-samtökin, Gleym mér ei – styrktarfélag og Göngum saman – rannsóknir á brjóstakrabbameini um eina milljón króna hvert félag. Auk framangreindra málefna styrkja fyrirtæki Haga árlega fjölmörg æskulýðs-, góðgerðar- og mannúðarmál.

Samkeppnisumhverfi verslunar á Íslandi er að breytast. Stjórn og starfsfólk félagsins hefur undanfarin misseri lagt megináherslu á að mæta þörfum viðskiptavina og að straumlínulaga rekstur félagsins í síbreytilegu samkeppnisumhverfi. Starfsfólk fagnar þeim áskorunum sem breyttar neysluvenjur og aukin samkeppni hefur í för með sér og leggur metnað sinn í að standast væntingar viðskiptavina á hverjum degi. 

Það er ekki að ástæðulausu sem ég minni á að velgengni félagsins er ekki sjálfgefin. Ég vil þakka samstarfsfólki mínu og meðstjórnendum fyrir þeirra framlag og viðskiptavinum fyrir þá tryggð og það traust sem þeir sýna okkur á hverjum degi.

Finnur Árnason,
forstjóri Haga hf.