Um Haga

Starfsemin

Hagar er leiðandi verslunarfyrirtæki á íslenskum matvöru- og sérvörumarkaði en félagið var stofnað í núverandi mynd árið 2003. Í lok rekstrarársins starfrækti félagið 52 verslanir innan fimm smásölufyrirtækja og fjögur vöruhús. Þá voru starfsmenn félagsins 2.312 talsins í 1.221 stöðugildi. Kjarnastarfsemi Haga er á sviði matvöru og tengdra vöruhúsa en auk þess reka Hagar nokkrar sérvöruverslanir.

Fyrirtæki Haga eru öll í 100% eigu félagsins en þau eru starfrækt í fjórum dótturfélögum. Fyrirtækin eru rekin sem sjálfstæðar rekstrareiningar og hafa þess vegna ólík rekstrarform og ólíka menningu. Hlutverk Haga er að veita fyrirtækjum sínum aðhald í rekstri og finna sameiginlega fleti sem leitt geta til hagræðingar í kostnaði og aukið tekjumöguleika fyrirtækjanna og um leið samkeppnisstyrk þeirra. Hlutverk Haga er enn fremur að skapa virði fyrir hluthafa sína með arðsömum rekstri.

Ferskir tómatar

Hagar hafa það að markmiði að starfrækja og þróa leiðandi vörumerki á smásölumarkaði sem standast væntingar viðskiptavina sinna og hafa burði til að vaxa. Markmiðið er einnig að halda einfaldleika í starfsemi allra rekstrareininga sem og að reka hverja einingu sem sjálfstætt og arðbært fyrirtæki með öllum eiginleikum hefðbundins fyrirtækis. Markmið Haga er enn fremur að hámarka virði hverrar rekstrareiningar með aukinni þekkingu á viðskiptum og smásölu.

Innan allra rekstrareininga Haga eru sömu megingildin höfð að leiðarljósi í rekstri og þjónustu. Í þeim er falið grundvallarviðhorf fyrirtækisins til þjónustu við viðskiptavini, framgöngu starfsmanna og ábyrgðar þeirra í starfi.

Hagar eiga tvær af stærstu smásölukeðjum landsins, sem reknar eru undir vörumerkjum Bónus og Hagkaups. Bæði eru þetta rótgróin fyrirtæki sem náð hafa sterkri markaðsstöðu á löngum tíma. Hagar reka einnig fjögur vöruhús sem sinna stoðhlutverki við matvöruverslanirnar, m.a. með innkaupum, birgðahaldi og dreifingu. Vöruhúsin eru Aðföng, Bananar, Ferskar kjötvörur og Hýsing. Hagar starfrækja auk þess sérvörusvið innan Hagkaups sem og nokkrar sérvöruverslanir með þekktum lífstíls- og tískuvörumerkjum. Sérvöruverslanirnar eru Útilíf, Zara, Topshop, Dorothy Perkins og Karen Millen.

Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Kópavogi.