Ávörp

Ávarp stjórnarformanns

Kristín Friðgeirsdóttirstjórnarformaður Haga hf.

Ágætu hluthafar.

Rekstrarárið sem nú er liðið einkenndist af stöðugum rekstri, líkt og verið hefur undanfarin ár. Áhersla var lögð á samkeppnishæfni og vöxt til framtíðar, þar sem langtímasamband við viðskiptavini var haft að leiðarljósi. Vörusala rekstrarársins var rúmir 80,5 milljarðar króna og veltuaukning milli ára 2,7%. Framlegð jókst lítillega, var 24,8% samanborið við 24,4% árið á undan. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam rúmum 6 milljörðum króna og jókst um 6,4% milli ára. EBITDA-hlutfallið hækkaði úr 7,2% í 7,5%. Heildarhagnaður rekstrarársins var rúmir 4 milljarðar króna sem er aukning um 12,2% frá fyrra ári.

Unnið var mikið og gott verk við að styrkja innviði félagsins, en meðal annars fækkaði leigðum fermetrum um rúmlega 18 þúsund. Stærsta verkefnið var minnkun verslunar Hagkaups í Smáralind en hún fór úr 10.440 m2 í 5.600 m2. Ánægjulegt er að segja frá því að þrátt fyrir nær helmingi minna verslunarrými er veltan nánast sú sama. Þá var unnið að frekari fækkun óhagkvæmra rekstrareininga og var nokkrum sérvöruverslunum lokað á árinu.

Þó að samkeppni aukist teljum við að sú mikla vinna sem hefur farið fram við að styrkja samkeppnishæfni félagsins muni styðja við áframhaldandi stöðugan rekstur.

Þó að árið hafi einkennst af stöðugleika var það einnig mjög viðburðarríkt. Um nokkurt skeið hafa ekki verið mörg ákjósanleg tækifæri til vaxtar fyrir félagið þó að ýmis verkefni hafi komið inn á borð stjórnar. Á rekstrarárinu varð hins vegar breyting þar á og undirritaði félagið kaupsamning um allt hlutafé Lyfju hf. í nóvember sl. Þá var einnig undirritaður kaupsamningur um allt hlutafé Olíuverzlunar Íslands hf. nú í apríl. Bæði kaupin eru háð fyrirvörum. Hér er um mjög áhugaverð tækifæri að ræða og er það mat stjórnar að þessi tvö félög falli einkar vel að starfsemi Haga. Ekki er stefnt að frekari kaupum.

Bónus stendur, nú sem fyrr, fyrir lágt vöruverð og er óþrjótandi vinna að baki því að finna ódýra valkosti og ná sem mestri hagkvæmni í innkaupum, sem er skilað beint til viðskiptavina. Til að halda vöruverði sem lægstu er kostnaði við rekstur Bónusverslana haldið í lágmarki, einfaldleikinn hafður í fyrirrúmi og yfirbygging lítil. Einfaldleikinn getur líka verið glæsilegur, eins og betrumbætt búð Bónus í Kauptúni er gott dæmi um.

_A127046

Eins og áður segir var stærsta verkefni ársins hjá Hagkaup minnkun verslunarinnar í Smáralind. Viðtökur við hinni nýju verslun voru afar góðar og mun þetta nýja aðlaðandi útlit einkenna fleiri búðir í framtíðinni. Ber þar helst að nefna nýja verslun á 1. hæð í Kringlunni sem opnuð verður á haustmánuðum. Hagkaup heldur áfram að bjóða upp á nýjungar, líkt og opnun Krispy Kreme ber með sér, nýtt bakarí með steinbökuð brauð o.fl.

Samkeppnisumhverfið á Íslandi hefur breyst hratt á síðastliðnum árum. Íslensk fyrirtæki keppa beint eða óbeint við erlend fyrirtæki af annarri stærðargráðu og er því afar mikilvægt að þau búi við sams konar umhverfi og rekstrargrundvöll og gengur og gerist annars staðar í heiminum. Íslenskur markaður er örsmár í alþjóðlegu samhengi og því er mikilvægt að þar sé hægt að ná einhverri stærðarhagkvæmni. Því miður heldur vaxtastig hér á landi áfram að vera of hátt, sem dregur óneitanlega úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Þó að samkeppni aukist teljum við að sú mikla vinna sem hefur farið fram við að styrkja samkeppnishæfni félagsins muni styðja við áframhaldandi stöðugan rekstur. Félagið er arðgreiðslufélag og mun halda þeirri stefnu þó svo að í ljósi sérstakra aðstæðna hafi stjórn í þetta sinn tekið þá ákvörðun að nýta laust fé til fjárfestinga. Það er stór biti að kaupa tvö félög sem gætu skilað 50% veltuaukningu.

Stjórn Haga hefur sett félaginu stefnu um samfélagslega ábyrgð sem byggir á fimm megin stoðum: Umhverfi, samfélag, mannauður, stjórnarhættir og forvarnir. Mikilvæg skref hafa m.a. verið tekin til að minnka matarsóun sem gerir það að verkum að viðkvæm vara, eins og ferskt kjöt, er seld á helmingsverði daginn fyrir síðasta neysludag í stað þess að vera fargað. Þá hafa Bananar bætt hjá sér vinnuferla til að minnka sóun. Auk þess má nefna að félagið reynir eftir fremsta megni að koma þeim matvörum sem ekki eru söluhæfar, en hæfar til neyslu, til góðra nota.

Að lokum vil ég nota tækifærið og þakka starfsmönnum fyrir frábæran árangur, gott og óeigingjarnt starf í þágu félagsins.

Kristín Friðgeirsdóttir,
stjórnarformaður Haga hf.