Um Haga

Framtíðarhorfur

Stærstu verkefnin á nýju rekstrarári

Eitt af stærstu verkefnum á nýju rekstrarári verður breyting á verslun Hagkaups í Kringlu. Versluninni á efri hæð var lokað í febrúar sl. og mun ný og endurbætt verslun verða opnuð á neðri hæð í október nk. Þá mun Hagkaup opna fleiri Krispy Kreme-kaffihús en í júní verður slíkt kaffihús opnað í Skeifunni. Einnig verður opnað kaffihús í nýrri verslun í Kringlu.

Á því rekstrarári sem nú er hafið mun Bónus stækka verslanir sínar við Smáratorg í Kópavogi og Kauptún í Garðabæ. Vinna við breytingarnar er nú í gangi en samtals nemur stækkunin rúmum 1.200 m2. Þá hefur verið tilkynnt að verslun Bónus í Faxafeni verði flutt í Skeifuna 11, en þar verður byggt verslunarhúsnæði á hinum svokallaða „brunareit“.

Tilkynnt hefur verið um lokun fleiri sérvöruverslana en verslunum Topshop og Dorothy Perkins verður lokað á árinu. Verslunum Topshop og Dorothy Perkins í Smáralind var lokað í maí og verslun Topshop í Kringlu verður lokað í ágúst.

Kaup Haga á öllu hlutafé Lyfju og Olíuverzlunar Íslands

Í nóvember 2016 undirrituðu Hagar kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í Lyfju hf. Kaupsamningurinn var undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Í apríl 2017 var fyrirvörum áreiðanleikakönnunar aflétt en gera má ráð fyrir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í júlí nk. Heildarverðmæti Lyfju hf. samkvæmt kaupsamningi er 6.700 millj. kr. og vaxtaberandi skuldir 1.700 millj. kr. Kaupverð hlutafjár er því 5.000 millj. kr. sem greitt verður með reiðufé. Þá hefur verið tilkynnt að stjórn Haga vilji taka til skoðunar að selja Heilsu, dótturfélag Lyfju, gangi kaupin eftir.

Í lok apríl 2017 undirrituðu Hagar kaupsamning um kaup á öllu hlutafé Olíuverzlunar Íslands hf. og fasteignafélagsins DGV ehf. Kaupsamningurinn var undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, samþykki hluthafafundar fyrir aukningu hlutafjár og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi þeir fyrirvarar eftir má gera ráð fyrir að gengið verði frá viðskiptunum undir lok árs 2017. Heildarverðmæti Olíuverzlunar Íslands hf. við gerð kaupsamningsins var 15.100 millj. kr. og vaxtaberandi skuldir 5.928 millj. kr. Kaupverð hlutafjár er því 9.172 millj. kr. sem getur þó hækkað um allt að 1.000 millj. kr. vegna afkomu Olíuverzlunar Íslands á árinu 2017. Heildarvirði DGV ehf. var 1.040 millj. kr. og vaxtaberandi skuldir 640 millj. kr. Kaupverð hlutafjár DGV er 400 millj. kr. og heildarkaupverð hlutafjár því 9.572 millj. kr. Kaupverð verður annars vegar greitt með afhendingu á 111 milljónum hluta í Högum og hins vegar með reiðufé.

Ef öllum fyrirvörum verður aflétt munu áhrif viðskiptanna á samstæðu Haga verða þó nokkur. Velta samstæðunnar, miðað við ársreikninga 2016 hjá Lyfju og Olíuverzlun Íslands og ársreikning 2016/17 hjá Högum, verður um 121 ma. kr., eða um 50% hærri en fyrir viðskiptin. EBITDA sameinaðs félags hækkar um 2,7 ma. kr., eða 44%. EBITDA-hlutfall fer úr 7,5% í 7,2%. Eignir samstæðunnar verða um 57 ma. kr. eftir viðskiptin og eigið fé um 23 ma. kr. Eiginfjárhlutfall verður því um 40%. Skuldsetning samstæðunnar mun aukast um 7,3-8,3 ma. kr. og nettó vaxtaberandi skuldir sem hlutfall af EBITDA verður um 2,1-2,2. Vaxtaberandi skuldir samstæðunnar verða því samtals um 20 ma. kr. með yfirteknum skuldum nýrra félaga.