Um Haga

Sérvöruverslanir

Hagar reka nokkrar sérvöruverslanir með þekktum lífstíls- og tískuvörumerkjum, auk sérvöruhluta Hagkaups. Margar þeirra eru reknar með sérleyfissamningi og eru í verslunarmiðstöðvum Kringlu og Smáralindar. Verslun Debenhams var lokað á rekstrarárinu, sem og verslunum Warehouse og Evans. Þá var verslun Útilífs í Glæsibæ einnig lokað ásamt útsölumarkaði á Korputorgi.

Servorusvid

Stjórnendur á sérvörusviði eru (frá vinstri): Elísabet Inga Marteinsdóttir, rekstrarstjóri tískuvöruverslana, Hörður Magnússon, rekstrarstjóri Útilífs, Ingibjörg Sverrisdóttir, rekstrarstjóri Zara, og Þrúður Maren Einarsdóttir, fjármálastjóri sérvörusviðs.

Útilíf

Útilíf er öflugt og rótgróið smásölufyrirtæki með íþrótta- og útivistarvörur en fyrirtækið var stofnað árið 1974 þegar verslun fyrirtækisins var opnuð í Glæsibæ. Í dag eru Útilífsverslanirnar tvær, önnur í Kringlu og hin í Smáralind.

Verslanir Útilífs skiptast í íþróttavörudeild, barnadeild, skódeild, útivistardeild, sunddeild, skíða- og snjóbrettadeild, veiðideild og hjóladeild. Mikil áhersla er lögð á vandað vöruúrval og bestu mögulegu gæði, en einnig vörur í ýmsum verðflokkum þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Útilíf vill veita viðskiptavinum sínum afburðagóða þjónustu og kappkostar því að í öllum deildum starfi sérfræðingar á viðkomandi sviði.

Hjá Útilíf starfa 56 starfsmenn í 30 stöðugildum. 

Zara

Zara er ein stærsta tískuverslunarkeðja heims og selur fatnað og fylgihluti fyrir dömur, herra og börn en fyrsta Zara-verslunin var opnuð á Íslandi árið 2001. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á hönnun eftir nýjustu tískustraumum, hraða vöruveltu, hagkvæma aðfangakeðju og sanngjarnt verð. Tvær Zara-verslanir eru á Íslandi, önnur í Smáralind og hin í Kringlu.

Grunnurinn að velgengni vörumerkisins Zara felst í því að greina óskir viðskiptavina og bregðast hratt við þeim. Varan er hönnuð í takt við stefnur og strauma í tískuheiminum hverju sinni og ráða viðtökur viðskiptavina frekari framleiðslu og vöruþróun.

Starfsmenn Zara eru 67 í 32 stöðugildum.

Aðrar tískuverslanir

Hagar eiga fjórar tískuvöruverslanir sem reknar eru undir vörumerkjum Topshop, Dorothy Perkins og Karen Millen. Vörumerkin, sem öll eru rekin með sérleyfissamningi, eru fjölbreytt sem hefur gert fyrirtækinu kleift að ná til ólíkra viðskiptavina með mismunandi þarfir. Í árslok störfuðu 36 manns í þessum verslunum í 17 stöðugildum.

Tilkynnt hefur verið um lokun verslana Topshop og Dorothy Perkins á rekstrarárinu sem nú er hafið. Verslunum Topshop og Dorothy Perkins var lokað í maí og mun verslun Topshop í Kringlunni verða lokað í ágústmánuði.