Um Haga

Samfélagsleg ábyrgð

Stjórn Haga hefur sett félaginu stefnu um samfélagslega ábyrgð. Stefnan var formlega samþykkt á stjórnarfundi 2. maí 2017. Hagar hafa þó alla tíð vandað til verka og haft samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í rekstri sínum.

Stefna Haga hf. um samfélagslega ábyrgð

Hagar sem öflugt félag á smásölumarkaði er í daglegum tengslum við almenning í landinu. Hagar hafa frá upphafi lagt metnað sinn í að þjóna íslenskum neytendum með ábyrgum hætti. Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð er langtímaáætlun félagsins um hvernig það getur lagt sinn skerf til betra og heilbrigðara samfélags og umhverfis, samhliða heilbrigðum rekstri. Stefnan segir auk þess til um hvernig samskiptum við hagsmunaaðila verði háttað. Helstu hagsmunaaðilar Haga eru starfsmenn, hluthafar, viðskiptavinir, birgjar og fjármögnunaraðilar, auk samfélagsins í heild sinni. Hagar eru aðilar að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð, og hafa verið frá upphafi árs 2016.

Stefnuyfirlýsing

Hagar vilja láta gott af sér leiða og starfa í sátt við samfélag og umhverfi. Hagar vilja eiga gott samstarf við hagsmunaaðila sína og skapa þeim virði með ákvörðunum sínum. Samfélagsleg ábyrgð er hluti af grunnrekstri félagsins og er höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku í stórum málefnum. Við mat á árangri skal horft til þeirra áhrifa sem félagið hefur á samfélag sitt og umhverfi, auk arðsemi.

Meginstoðir stefnu

Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð byggir á fimm meginstoðum. Stoðirnar móta þær áherslur sem félagið fer eftir og mótar þau lykilverkefni sem unnið er að hverju sinni. Meginstoðirnar fimm eru ekki innbyrðis háðar og ein stoð er ekki annarri mikilvægari.

  • Umhverfi
    Hagar leggja áherslu á að þekkja þau neikvæðu áhrif sem starfsemi félagsins hefur á umhverfið og leitast við að draga úr þeim eftir fremsta megni. Sérstök áhersla er lögð á að draga úr matarsóun, minnkun sorps og umhverfisvæna orkugjafa.
  • Samfélag
    Hagar leggja samfélaginu lið fyrst og fremst með því að bjóða neytendum hagstæðustu kjör hverju sinni og vera í forystu í baráttumálum fyrir hönd neytenda. Þá styður félagið ýmis samfélagsleg málefni hvort sem er í formi fjárhagslegra styrkja eða samstarfsverkefna.
  • Mannauður
    Hagar kappkosta að tryggja vellíðan og öryggi starfsfólks. Jafnrétti er haft að leiðarljósi í öllum ákvörðunum og skapar félagið virði fyrir atvinnulífið með menntun og þjálfun starfsfólks.
  • Stjórnarhættir
    Hagar starfa eftir þeim lögum og reglum sem félaginu ber að fylgja, sem og leiðbeiningum um góða stjórnarhætti. Auk þess hefur félagið sett sér siða- og samskiptareglur sem fylgt er í hvívetna í starfseminni.
  • Forvarnir
    Hagar leggja áherslu á forvarnir í starfsemi sinni, með það að markmiði að bæta hag samfélagsins alls, neytenda og starfsmanna, og um leið hag félagsins sjálfs. Hagar kappkosta að bjóða upp á marga og hagstæða valkosti sem bæta heilbrigði neytenda.

Framkvæmd og gildissvið

Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð nær til móðurfélagsins auk allra dótturfélaga samstæðunnar og skal vera leiðbeinandi fyrir þau. Stjórn félagsins og stjórnendur láta sig málaflokkinn varða og bera á honum ábyrgð. Á næstu misserum er stefnt að markvissri umræðu um meginstoðir stefnunnar innan félagsins. Stefna um samfélagslega ábyrgð og árangursmat hennar skal vera hluti af stefnumótun innan félagsins og skal helga málaflokknum sérstakan kafla í ársskýrslu félagsins. Stefnu þessa skal endurskoða að lágmarki á 12 mánaða fresti.

Lykilverkefni 2016-2017

Unnið var að mörgum samfélagslegum verkefnum á árinu sem var að líða. Unnið er að flestum verkefnanna ár eftir ár og er þá eftir fremsta megni reynt að gera enn betur en áður. Hér á eftir verður fjallað um þau verkefni sem voru hvað mikilvægust á árinu.

Matarsóun

Matarsóun er stórt vandamál í heiminum í dag og hafa Hagar undanfarið nýtt krafta sína til góðs og lagt sitt af mörkum í baráttunni. Sem dæmi má nefna að Bónus hefur verið í fararbroddi við að innleiða nýtt strikamerki á ferskvöru sem gerir fyrirtækinu kleift að lækka verð sjálfkrafa daginn fyrir síðasta neysludag. Í dag er allur ferskur kjúklingur keyptur inn með fyrrnefndu strikamerki og hefur breytingin gert það að verkum að nánast ekkert af kjúklingum fer í ruslið. Á næstunni verður strikamerkið einnig innleitt fyrir allt ferskt kjöt sem Bónus kaupir inn.

Sorpflokkun

Eitt stærsta verkefnið ár hvert er án efa sorpflokkun en fyrirtæki Haga hafa flokkað allt sitt sorp í fjölmörg ár. Tilgangur flokkunar er fyrst og fremst að minnka það magn sem fer til endanlegrar urðunar en nákvæmni í flokkun er forsenda endurnýtingar og endurvinnslu. Markviss vinna undanfarin ár hefur skilað nákvæmari flokkun sem skilar sér svo í minni kostnaði, þar sem verslanirnar fá greitt fyrir bylgjupappann auk þess sem lægri sorpgjöld eru greidd af flokkuðu rusli. Sem dæmi má nefna að flokkun til endurvinnslu hjá Hýsingu telur 87-90% af öllum úrgangi sem til fellur. Með því að flokka til endurvinnslu kom Hýsing í veg fyrir að út í andrúmsloftið losnuðu gróðurhúsaloftegundir sem samsvara ársnotkun á rúmlega 64 fólksbílum.

Tökum upp fjölnota poka

Bónus og Hagkaup hafa um langa hríð selt fjölnota burðarpoka en nú þegar hafa verið seldir yfir 300.000 slíkir pokar. Áfram hefur verið unnið að þessu verkefni og hefur Bónus sett sér það markmið að verða plastpokalaust á árinu 2018. Nú þegar hefur plastinnihald hvers burðarpoka verið minnkað um u.þ.b. 30% og hefur einnig verið unnið að því að auka vöruúrval í pokum. Þannig má búast við fleiri tegundum fjölnotapoka, bréfpoka og maíspoka á næstunni.

Fjölnota pokar

Bónus og Hagkaup eru einnig aðilar að Pokasjóði sem nýlega hrinti af stað átakinu „Tökum upp fjölnota“. Markmið átaksins er að opna augu almennings enn frekar fyrir skaðsemi plasts fyrir umhverfið og fá viðskiptavini verslana til að skipta úr einnota plastpokum yfir í fjölnota poka.

Styrkir til góðra málefna

Hagar styrkja árlega ýmis góðgerðarmál og hafa gert alla tíð. Um er að ræða styrki, stóra sem smáa, þar sem áherslurnar hafa aðallega verið á hjálparstofnanir, forvarnarstarf, æskulýðsstarf íþróttafélaganna og styrki til tækjakaupa á Landspítalanum.

Í tilefni af góðu uppgjöri félagsins munu Bónus og Hagkaup styrkja góð málefni fyrir samtals 10 milljónir króna. Bónus mun veita eftirfarandi samtökum styrk sem er að fjárhæð 1 milljón hver: Uncief og Fatímusjóðurinn, Neistinn – styrktarfélag hjartveikra barna, Alzheimersamtökin, Stígamót og Vin – bata og fræðslusetur Rauða krossins. Hagkaup mun einnig veita eftirfarandi samtökum styrk sem er að fjárhæð 1 milljón hver: Breið bros, Einhverfusamtökin, Hugarafl – Pieta-samtökin, Gleym mér ei – styrktarfélag og Göngum saman – rannsóknir á brjóstakrabbameini.

Einnig má nefna að Aðföng hefur um árabil gefið allar þær vörur sem eru ósöluhæfar, en ekki ónýtar, til Samhjálpar. Hefur það nýst vel í mötuneytinu og við ræstingar hjá samtökunum.

Keðjuábyrgð

Hagar leggja sig alla fram um að virða almenn mannréttindi og eru með í gildi, því til stuðnings, viðauka við alla verksamninga félagsins þar sem aðalverktakar lýsa því yfir að þeir muni ávallt og í hvívetna virða lög- og samningsbundin réttindi þeirra aðila sem þeir ráða til starfa, hvort sem um ræðir launþega, starfsmenn starfsmannaleiga, aðra verktaka og/eða undirverktaka. Aðalverktaki lýsir því yfir að starfsemi hans uppfylli ávallt þær kröfur sem íslensk lög, reglur og venjur á vinnumarkaði gera hverju sinni. Aðalverktaki lýsir því einnig yfir að hann beri svokallaða keðjuábyrgð, þ.e.a.s. hann ábyrgist að aðrir verktakar og/eða undirverktakar sem hann hefur ráðið til starfa uppfylli sömu kröfur þannig að réttindi allra þeirra starfsmanna sem að verki koma séu tryggð.

Starfsmenn með skerta starfsgetu

Um árabil hafa Hagar unnið í samstarfi við Vinnumálastofnun, þar sem fólk með skerta starfsgetu vegna andlegrar og/eða líkamlegrar fötlunar er veitt vinna hjá fyrirtækinu. Árið sem var að líða var engin undantekning þar á og eru nú rúmlega 70 starfsmenn sem vinna hjá fyrirtækjum Haga sem teljast vera með skerta starfsgetu. Samstarfið, sem oft er kallað „Atvinna með stuðningi“, leggur áherslu á góða samvinnu við Vinnumálastofnun þar sem færni starfsmannsins er höfð að leiðarljósi.

Fræðslustjóri að láni

Nokkur af fyrirtækjum Haga hafa tekið þátt í átaki sem kallast „Fræðslustjóri að láni“ en það er samstarfsverkefni fræðslusjóða innan Samtaka atvinnulífsins. Verkefnið byggist á að fyrirtækin fá að láni mannauðsráðgjafa, sérhæfðan í vinnustaðafræðslu og óformlegri menntun. Ráðgjafinn fer yfir fræðslu- og þjálfunarmál fyrirtækisins en afurð verkefnisins er fræðsluáætlun til næstu 12-24 mánaða.

Forvarnir

Á rekstrarárinu var áfram lögð áhersla á að bjóða viðskiptavinum félagsins holla og heilsusamlega valkosti, sem stuðla að betra heilbrigði og líðan. Þá er gaman að nefna að Bónus hefur verið tóbakslaust í þau 29 ár sem fyrirtækið hefur verið í rekstri, og er Bónus eini stórmarkaðurinn á Íslandi sem aldrei hefur selt tóbak, þrátt fyrir augljósan fjárhagslegan ávinning af sölu þess.