Stjórnarhættir

Undirnefndir stjórnar

Stjórn Haga hf. hefur skipað tvær undirnefndir stjórnar, endurskoðunarnefnd og starfskjaranefnd. Nefndarmenn eru þrír í hvorri nefnd og þurfa a.m.k. tveir þeirra að vera óháðir félaginu og stjórnendum þess.

Endurskoðunarnefnd

Hlutverk endurskoðunarnefndar er m.a. að hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila. Nefndinni ber að fara yfir fjárhagslegar upplýsingar og fyrirkomulag upplýsingagjafar stjórnenda til stjórnar félagsins. Endurskoðunarnefnd skal staðreyna að þær upplýsingar sem stjórnin fær um rekstur og stöðu félagsins séu áreiðanlegar og gefi sem gleggsta mynd af stöðu þess á hverjum tíma. Endurskoðunarnefnd skal enn fremur yfirfara stjórnarháttayfirlýsingu þessa. Endurskoðunarnefnd skal skila skýrslu um störf sín til stjórnar árlega.

Endurskoðunarnefndina skipa nú Erna Gísladóttir, stjórnarmaður í Högum hf., Salvör Nordal, stjórnarmaður í Högum hf., og Anna Þórðardóttir, endurskoðandi, sem er formaður nefndarinnar. Nefndarmenn eru allir óháðir endurskoðendum Haga hf., daglegum stjórnendum félagsins og stórum hluthöfum þess.

Endurskoðunarnefnd hefur sett sér starfsreglur sem skulu yfirfarnar árlega og samþykktar af stjórn. Núgildandi starfsreglur endurskoðunarnefndar voru samþykktar á stjórnarfundi félagsins þann 25. apríl 2017.

Starfsárið 2016-17 hélt endurskoðunarnefnd fimm fundi og mættu allir nefndarmenn á alla fundina.

Starfskjaranefnd

Starfskjaranefnd annast það hlutverk stjórnar að undirbúa tillögu að starfskjarastefnu félagsins, tillögu til hluthafafundar um starfskjör stjórnarmanna og framkvæmd starfssamninga við forstjóra og aðra þá starfsmenn er heyra undir stjórn félagsins. Starfskjaranefnd skal skila skýrslu um störf sín til stjórnar árlega.

Starfskjaranefnd skipa nú Kristín Friðgeirsdóttir, stjórnarformaður í Högum hf., Stefán Árni Auðólfsson, stjórnarmaður í Högum hf., og Sigurður Arnar Sigurðsson, stjórnarmaður í Högum hf. Kristín er formaður nefndarinnar. Nefndarmenn eru allir óháðir endurskoðendum Haga hf., daglegum stjórnendum félagsins og stórum hluthöfum þess.

Starfskjaranefnd hefur sett sér starfsreglur sem skulu yfirfarnar árlega og samþykktar af stjórn. Núgildandi starfsreglur endurskoðunarnefndar voru samþykktar á stjórnarfundi félagsins þann 25. apríl 2017.

Starfsárið 2016-17 hélt starfskjaranefnd þrjá fundi og mættu allir nefndarmenn á alla fundina.

Framkvæmd starfskjarastefnu

Starfskjaranefnd hefur gætt að framkvæmd gildandi starfskjarastefnu félagsins sem samþykkt var á aðalfundi félagsins 2016. Starfskjarastefnan er leiðbeinandi fyrir stjórn félagsins. Stjórnarmenn hafa fengið greidd laun fyrir stjórnarsetu í samræmi við ákvörðun hluthafafundar, og föst mánaðarleg þóknun hefur verið ákveðin fyrir störf nefndarmanna í undirnefndum stjórnar, endurskoðunarnefnd og starfskjaranefnd. Launakjör stjórnenda félagsins eru ákveðin í skriflegum samningum, bæði hvað varðar föst og breytileg kjör. Upplýsingar hafa verið veittar um laun forstjóra og annarra lykilstjórnenda í ársskýrslu. Kjör annarra starfsmanna byggja á skriflegum ráðningarsamningum eða eru grundvölluð á ákvæðum kjarasamninga eins og venja er fyrir á vinnumarkaði. Stjórn félagsins hefur ekki gert samninga við starfsmenn eða sett reglur um kauprétti á hlutabréfum í félaginu á starfsárinu. Jafnréttissjónarmiðum er fylgt eftir með framkvæmd jafnréttisstefnu Haga.  

Það er mat nefndarinnar að greiðslur launa og annarra kjara til stjórnar og starfsmanna séu í samræmi við starfskjarastefnuna.