Ávarp stjórnarformanns og forstjóra

Finnur-og-David-lokaloka

Finnur Oddsson, forstjóri og Davíð Harðarson, stjórnarformaður Haga.


Aðlögun og sveigjanleiki - grunnur að sterku rekstrarári í heimsfaraldri

Síðastliðið rekstrarár Haga hf. var viðburðaríkt og reyndi á margvíslegan hátt á innviði félagsins, starfsfólk og stjórnendur. Áhrifa COVID-19 heimsfaraldursins fór að gæta á Íslandi í mars 2020 og hafði afgerandi áhrif á íslenskt þjóðlíf, verslunarhætti, samgöngur, ferðalög landsmanna og heimsóknir erlendra ferðamanna til landsins. Óhætt er því að segja að faraldurinn hafi litað alla starfsemi Haga stærstan hluta rekstrarársins, þar sem meginverkefnin voru að gæta að öryggi og heilsu viðskiptavina og starfsfólks en tryggja um leið stöðugt framboð á nauðsynjum. Faraldurinn minnti okkur hressilega á það hversu samfélagslega mikilvæg okkar verslun og þjónusta er fyrir heimilin í landinu. Það var mikil áskorun að halda verslunum, þjónustustöðvum og vöruhúsum opnum og aðgengilegum fyrir viðskiptavini um allt land en með samstilltu átaki starfsmanna og viðskiptavina gekk okkur vel að takast á við álagið og leysa úr áskorunum tengdum aðfangakeðjunni. Við erum afar stolt af árangrinum á árinu á þessum erfiðum tímum og ágætri rekstrarniðurstöðu.

Síðastliðið rekstrarár Haga hf. var viðburðaríkt og reyndi á margvíslegan hátt á innviði félagsins, starfsfólk og stjórnendur.

Heimsfaraldur COVID-19 hafði mjög mismunandi áhrif eftir starfsþáttum hjá Högum. Umsvif í verslun með dag- og sérvöru jukust almennt vegna COVID-19, enda mun fleiri landsmenn á Íslandi og heima við en í venjulegra árferði. Tekjur verslana og vöruhúsa Haga jukust um 13% á milli ára og námu tæpum 92 ma.kr. Bæði Bónus og Hagkaup áttu sín stærstu ár frá upphafi, þar sem Bónus var sem fyrr leiðandi í að bjóða upp á hagkvæmustu matarkörfu á landinu og fjöldi landsmanna uppgötvaði Hagkaups verslanirnar upp á nýtt, frábært úrval af matvöru, snyrtivörum, leikföngum og fleiru. Aukning eftirspurnar í matvöruverslun skilaði sér í samsvarandi veltuaukningu hjá vöruhúsaeiningum Haga, Aðföngum og Banönum. Sérvöruverslanir Haga, ZARA og Útilíf, áttu svo góðu gengi að fagna stærstan hluta ársins. Þrátt fyrir töluverðan þrýsting á framlegð, m.a. vegna gengisveikingar krónu, kostnaðarverðshækkana frá birgjum og framleiðendum og harðrar verðsamkeppni, þá batnaði afkoma verslana og vöruhúsa Haga á milli ára.

Olís fór ekki varhluta af áhrifum faraldursins, en þar gaf heldur á bátinn vegna samdráttar í umferð á landinu þar sem landsmenn keyrðu minna og ferðamenn nánast ekkert. Tekjur Olís drógust saman um 17%, voru 30,5 ma.kr, og afkoma var töluvert lakari en árið á undan. Við því var brugðist með markvissri hagræðingu í rekstri og aðlögun þjónustu að breyttri eftirspurn, sem skilaði sér í rekstrarbata undir lok árs. Horft til heildarinnar, þá jukust tekjur Haga lítillega á árinu og námu 119,6 ma.kr. en rekstrarhagnaður (EBITDA) stóð nánast í stað og var 8,8 ma.kr .

Óhætt er því að segja að faraldurinn hafi litað alla starfsemi Haga stærstan hluta rekstrarársins, þar sem meginverkefnin voru að gæta að öryggi og heilsu viðskiptavina og starfsfólks en tryggja um leið stöðugt framboð á nauðsynjum.   


Traustur rekstur Haga samstæðunnar á rekstrarárinu endurspeglar fyrst og fremst styrk rekstrareininga okkar og það mikla traust sem viðskiptavinir sýna okkur og hafa gert um langt árabil. Þar skipta sköpum öflugir innviðir helstu rekstrareininga, en þó sérstaklega frábært starfsfólk sem sýndi af sér aðlögunarhæfni og sveigjanleika í samstilltu viðbragði við aðstæðum sem enginn hefur upplifað áður. Fjöldatakmarkanir, fjarlægðarreglur, grímur, sótthreinsun, smit, meira að gera og minna að gera – við öllu var brugðist, með það að leiðarljósi að gæta að öryggi og efla hag neytenda með framúrskarandi verslun. Heiður af góðri niðurstöður rekstrarársins er því starfsfólksins, sem á miklar þakkir skildar fyrir ósérhlífni, dugnað og elju við að uppfylla þarfir þess stóra hóps viðskiptavina sem treystir á hverjum degi á þjónustu dótturfélaga Haga.

Arðgreiðslur, endurkaup og fjárhagslegur styrkur

Það er markmið stjórnar Haga hf. að félagið skili verðmætum sem skapast í rekstrinum til hluthafa, beint eða óbeint. Því hafa Hagar stefnt að því að greiða hluthöfum árlegan arð, að lágmarki helmings hagnaðar rekstrarársins á undan og að endurkaupum á eigin hlutabréfum þegar tækifæri gefast. Á aðalfundi þann 9. júní 2020 var samþykkt tillaga stjórnar um að ekki yrði greiddur út arður fyrir rekstrarárið 2019/20, vegna óvissu um rekstur og horfur vegna COVID-19. Eftir því sem staða Haga og dótturfélaga skýrðist í faraldrinum voru hins vegar framkvæmdar þrjár endurkaupaáætlanir á grundvelli samþykktar aðalfundar um kaup á eigin bréfum, samtals 26,4 millj. hluta fyrir samtals 1.500 millj. kr.

Eins og áður segir, þá gekk rekstur Haga vel á árinu 2020/21 og telst fjárhagsleg staða félagsins sterk, með ríflega 25 ma.kr. eigið fé, 41% eiginfjárhlutfall og óverulega skuldsetningu. Í ljósi þessarar sterku stöðu og ágætrar niðurstöðu rekstrar síðasta árs þá ákvað stjórn að leggja til við aðalfund 2021 að arðgreiðsla til hluthafa fyrir sl. rekstrarár verði 1.500 millj. kr. eða sem nemi 1,27 kr. per hlut og um 60% af hagnaði síðasta árs. Einnig er gert ráð fyrir að heimild til kaupa á eigin bréfum verði nýtt í endurkaupaáætlanir á næstu mánuðum.

Mótaðar áherslur til framtíðar

Verkefni stjórnar á síðasta rekstrarári voru margvísleg, en þar stóðu upp úr breytingar í framvarðasveit félagsins síðastliðið sumar, þegar Finnur Oddsson tók við sem forstjóri af nafna sínum Árnasyni, sem kvaddi eftir farsælan feril hjá Högum. Á haustmánuðum síðastliðins árs var lagt í ítarlega greiningu á rekstrar- og samkeppnisumhverfi Haga til að skerpa á stefnu félagsins og móta áherslur og markmið í rekstri til lengri tíma.

Ný markmið voru í framhaldinu sett um starfsemi félagsins, en þau tengjast mikilvægustu hagsmunaaðilum þess, þ.e. viðskiptavinum sem við ætlum ávallt að færa meira fyrir minna, starfsfólki sem við sköpum eftirsóknarverðan vinnustað og hluthöfum sem við ætlum að skila sanngjarnri ávöxtun. Að lokum hafa verið sett markmið um að starfsemi Haga skuli stuðla að bættu samfélagi í víðum skilningi, allt frá umhverfisspori eða samstarfi við birgja og framleiðendur.


Heiður af góðri niðurstöður rekstrarársins er því starfsfólksins, sem á miklar þakkir skildar fyrir ósérhlífni, dugnað og elju við að uppfylla þarfir þess stóra hóps viðskiptavina sem treystir á hverjum degi á þjónustu dótturfélaga Haga.  


Aðrar stefnumótandi áherslur Haga eru nú þær að við munum einblína í auknum mæli á kjarnastarfsemi, þ.e. dagvöru- og eldsneytismarkað. Að auki verður lagt upp með að styrkja enn frekar sérstöðu vörumerkja Haga – Bónus, Hagkaup og Olís – og sjá til þess að heildin mæti ólíkum þörfum neytenda sem allra best. Samhliða verður unnið að því að efla gagnkvæmt samtal við viðskiptavini dótturfélaga til að geta brugðist hraðar við nýjum þörfum og örum breytingum á neysluhegðun. Í þessari vinnu verður grundvallarþema í stefnu Haga óbreytt, að efla hag neytenda með framúrskarandi verslun.

Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið í samræmi við þessar breyttu áherslur og má þegar sjá merki þeirra í rekstri Haga. Sölu á Útilíf og Reykjavíkur Apóteki er lokið og vinna við mörkun vörumerkja dótturfélaga gengur vel. Skilgreining á þjónustuframboði til næstu missera er langt komin og sýn á tengda fjárfestingu í tæknilausnum einnig. Nýir og öflugir liðsmenn hafa slegist í hóp lykilfólks til að styrkja teymið hjá Högum og um leið getu félagsins til að fylgja eftir verkefnum í samræmi við stefnumótun. Samhliða hafa reglulegar mælingar á viðhorfum og líðan starfsfólks verið settar á laggirnar, en þær miða að stöðugum umbótum á vinnuumhverfi og áframhaldandi uppbyggingu á færni starfsfólks hjá Högum og dótturfélögum. Átak til stuðnings frumkvöðla og nýsköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu hefur verið sett á laggirnar, í formi nýsköpunarsjóðsins Uppsprettan, og væntum við skemmtilegrar uppskeru þar á næstu misserum.

Seglum hagað eftir vindi hjá Olís

Að lokum er vert að nefna að verulega hefur verið hagrætt hjá Olís á síðustu mánuðum, með einföldun rekstrar og breyttu þjónustuframboði og aukinni áherslu á sjálfsafgreiðslu. Þessar breytingar hafa gert okkur kleift að fækka stöðugildum hjá Olís um 18% frá því á síðari hluta rekstrarársins. Áhrif þessara aðgerða má þegar sjá við lok síðasta rekstrarárs, en fyrir liggur að þær munu jafnframt búa Olís undir þróun sem vænta má til lengri tíma, þ.e. minni notkun á jarðefnaeldsneyti og aukið vægi rafmagns og annarra umhverfisvænna orkugjafa í samgöngum og iðnaði.

Samfélagsleg ábyrgð er forgangsmál

Hagar og dótturfélög hafa um langt árabil verið meðal fremstu fyrirtækja landsins þegar kemur að umhverfismálum. Í verslunarkeðjum Haga náðist enn frekari árangur í að draga úr matarsóun, auka flokkun úrgangs, minnka plastnotkun og draga almennt úr orkunotkun. Heldur dró úr losun gróðurhúsalofttegunda á árinu, en öll losun sem stafar bæði beint og óbeint af starfsemi félagsins er kolefnisjöfnuð í samstarfi við Kolvið og Landgræðsluna.


Það er skýr metnaður okkar að Hagar verði áfram sterkt hreyfiafl í átt að bættu samfélagi.   

Það er skýr metnaður okkar að Hagar verði áfram sterkt hreyfiafl í átt að bættu samfélagi. Á síðustu mánuðum höfum við tekið ákveðin skref í að skilgreina enn betur samfélagslegar áherslur Haga, einkum tengt ábyrgri neyslu, sjálfbærni, eflingu nýsköpunar og jafnrétti þar sem við finnum okkur akkeri í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Við nýtum áfram mælingar með umhverfisstjórnunarkerfi Klappa og gefum í annað skipti út samfélagsuppgjör samstæðu Haga samkvæmt UFS leiðbeiningum Nasdaq. Því til viðbótar gefum við nú út í fyrsta skipti samfélagsskýrslur fyrir stærstu rekstrareiningar Haga – Bónus, Hagkaup og Olís – þar sem gerð er grein fyrir helstu verkefnum ársins, árangri og markmiðum.

Okkar skilningur á sjálfbærni er að hugað er að áhrifum allra þátta í okkar starfsemi á samfélag og umhverfi og að markmiðið sé að hafa þar ávallt jákvæð áhrif. Við erum stolt af þeim árangri sem hefur náðst en ætlum okkur að gera enn betur.


Hagar munu áfram vinna að því að efla þá sterku innviði sem eru þegar til staðar, en um leið leita tækifæra til að gera betur og bregðast við breyttum þörfum viðskiptavina.

Hagar til framtíðar

Hagar hafa lengi verið kjölfesta í verslun og eldsneytissölu á Íslandi. Þar hafa viðskiptavinir Bónus, Hagkaups og Olís notið góðs af sterkum innviðum, hagkvæmni í innkaupum, aðfangakeðju og vörumeðhöndlun sem stýrt er af reynslumiklum hópi starfsfólks sem hefur óbilandi metnað og áhuga á því að efla hag neytenda í gegnum verslun. Í vændum er skemmtilegur tími þar sem verslun mun laga sig að breyttum verslunarháttum og þörfum viðskiptavina, m.a. tengt breyttu neyslumynstri, aukinni áherslu á heilsu, tíma, þægindi og umhverfi. Hagar munu áfram vinna að því að efla þá sterku innviði sem eru þegar til staðar, en um leið leita tækifæra til að gera betur og bregðast við breyttum þörfum viðskiptavina. Jafnframt munum við leggja áherslu á að tryggja hagkvæmni og fjölbreytni í verslun, þar sem starfsemi okkar verður til þess að byggja upp mannlíf, samfélag og umhverfi. Tækifærin eru fjölbreytt og bjart fram undan.