Um Haga

Stærstu verkefni ársins

endurnýjun verslana og sjálfsafgreiðslukassar

Á rekstrarárinu var mikil vinna við endurnýjun verslana Bónus og Hagkaups, þar sem þægindi og umhverfissjónarmið fengu að ráða ríkjum.

Bónus endurnýjaði eldri verslanir með það að markmiði að bæta gæði, fríska upp á útlit og minnka orkunotkun og kolefnisspor. Alls fengu 15 verslanir yfirhalningu, þó mismikla, en mestar voru endurbæturnar í Hólagarði, Ögurhvarfi, Hraunbæ, Spönginni, á Fiskislóð og Egilsstöðum.

Hagkaup endurnýjaði verslanir sínar í Skeifunni, Spöng, á Eiðistorgi og Akureyri. Verslun Smáralindar var einnig töluvert breytt á árinu þegar fatnaði F&F var skipt út fyrir stærri leikfanga-, snyrtivöru- og búsáhaldadeild.

Dæmi um endurbætur í verslunum Bónus og Hagkaups eru ný LED lýsing, lok á kæla og frysta, ný gólfefni og ný umhverfisvænni kælikerfi.

Þá hefur sjálfsafgreiðslukössum verið fjölgað á árinu vegna ánægju viðskiptavina en viðskiptavinir kunna greinilega vel að meta styttri biðtíma og meira rými til athafna. Sjálfafgreiðslukassar er nú komnir í allar verslanir Hagkaups. Meirihluti kassa í Bónus er sjálfsafgreiðslukassar en þó er enn töluvert af beltakössum fyrir þá viðskiptavini sem það kjósa. Þá hefur heildarfjöldi afgreiðslukassa aukist með tilkomu sjálfsafgreiðslukassanna.

Korngardar-inni

nýtt vöruhús og bætt aðfangakeðja

Nýtt kæli- og frystivöruhús Aðfanga við Korngarða 1 var tekið í notkun í byrjun desember 2020. Framkvæmdir við byggingu vöruhússins hófust af krafti síðla árs 2019 og var verkið á áætlun bæði tíma- og kostnaðarlega séð. Kæli- og frystivörustarfsemi Aðfanga var áður í Skútuvogi 5 en hið nýja vöruhús mun bæta aðfangakeðjuna til muna, með lægri rekstrarkostnaði og samlegðaráhrifum við Banana. Vöruhúsið er tæplega 4.400 m2 að stærð og er viðbygging við vöruhús Banana sem Hagar byggðu árið 2016.

Hagræðingaraðgerðir í kjölfar heimsfaraldurs

Áhrif COVID-19 heimsfaraldurs voru ólík eftir rekstrareiningum innan samstæðu Haga en neikvæðra áhrifa gætti í starfsemi Olís, m.a. vegna verulegs samdráttar í sölu á eldsneyti. Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða á síðustu mánuðum til að bregðast við ástandinu og má þar helst nefna breyttan opnunartíma þjónustustöðva og breytt þjónustuframboð, völdum þjónustustöðvum hefur verið breytt í sjálfsafgreiðslustöðvar, hagræðing á skrifstofu, endurskipulagning á útibúaneti á landsbyggðinni auk þess sem Quiznos var lokað ásamt birgðaverslun Stórkaups. Þessar breytingar hafa leitt til þess að stöðugildum hjá Olís hefur fækkað um tæp 18% milli ára. Þessar breytingar, sem fyrst og fremst var ráðist í til að bregðast við heimsfaraldrinum, munu þó jafnframt búa félagið betur undir þá þróun sem fram undan er til lengri tíma í minni notkun á jarðefnaeldsneyti og auknu vægi rafmagns og annarra umhverfisvænna orkugjafa í samgöngum og iðnaði.

stefnumótun og Breyttar áherslur í rekstri til lengri tíma

Á rekstrarárinu var unnið að mótun á áherslum í rekstri og stefnu félagsins til lengri tíma litið. Sett voru markmið um starfsemi félagsins, út frá viðskiptavininum, starfsfólki og hluthöfum, auk þess sem Hagar ætla að stuðla að bættu samfélagi í víðum skilningi. Þá verður lögð áhersla á kjarnastarfsemi félagsins og lögð verður ríkari áhersla á það sem félagið gerir best, sem er annars vegar á dagvörumarkaði og hins vegar á markaði með eldsneyti. Markmið til lengri tíma er því að efla sérstöðu þeirra sterku vörumerkja sem eru í samstæðu Haga og á sama tíma láta öðrum rekstraraðilum um að sinna Útilíf og Reykjavíkur Apóteki. Söluferli Útilífs og Reykjavíkur Apóteks hófst í lok árs 2020 en skrifað var undir kaupsamninga í mars og apríl 2021. Reykjavíkur apótek hefur nú verið afhent nýjum eigendum en beðið er niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins hvað varðar Útilíf.