Styrkir til góðra málefna
Dótturfyrirtæki Haga leggja mikla áherslu á að styðja við og gefa aftur til samfélagsins, til að mynda með því að styrkja verkefni sem hvetja til hollustu og hreyfingar barna, hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu samfélagsins og huga að heilsu og öryggi landsmanna. Málaflokkarnir eru margir og mismunandi og er ákvörðun um þær áherslur og stefnur teknar innan hvers fyrirtækis fyrir sig.
SLYSAVARNIR
Frá árinu 2012 hefur Olís verið einn aðalstyrktaraðili Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Í stuðningnum felst, fyrir utan beinan fjárhagsstyrk, að eldsneytisverð til Landsbjargar er mun lægra en til annarra, auk þess sem haldnir eru sérstakir fjáröflunardagar þar sem hluti af sölu eldsneytis þá daga rennur til Landsbjargar. Með þessu vill Olís tryggja að björgunarsveitir landsins séu vel búnar þegar vá steðjar að og til að aðstoða Íslendinga og erlenda ferðamenn á ferð um landið.
Útilíf hefur einnig haft það sem meginstef að styrkja björgunarkerfið í landinu undanfarin ár, með sérstaka áherslu á snjóflóðamál. Á undanförnum árum hefur Útilíf tekið þátt í að koma upp stöðvum um land allt þar sem skíða- og vélsleðafólk getur prófað hvort snjóflóðaýlar þeirra virki. Útilíf gaf fyrstu slíku stöðina fyrir fjórum árum og hefur útvegað fleiri slíkar á kostnaðarverði, ásamt því að aðstoða við viðhald og þannig gert björgunarsveitum kleift að viðhalda þessu mikilvæga verkefni sem unnið er í samstarfi við Landsbjörgu, Safe Travel, klúbba og slysavarnardeildir víða um land.
Íþróttir
Hugað hefur verið vel að íþrótta- og æskulýðsstarfi í þessum málaflokki þar sem mörg dótturfélög hafa staðið þétt við bakið á íþróttahreyfingunni í gegnum árin. Má þar nefna Olís sem hefur átt í góðu samstarfi við HSÍ um efstu deildirnar í handbolta. Efsta deild karla og kvenna er kölluð Olís-deildin og önnur deild karla og kvenna kallast Grill 66 deildin. Þá fá helstu félagslið á svæðum þar sem Olís er með útibú eða starfsstöð styrk frá fyrirtækinu og er þar lögð áhersla á uppbyggingu æskulýðsstarfs íþróttafélaganna.
Það sama er upp á teningnum hjá Bónus þar sem verslunarkeðjan hefur verið iðin við að styðja hvers kyns íþróttaiðkun og æskulýðsstarf í gegnum árin. Bónus hefur m.a. styrkt Team Rynkeby en einnig er Bónus styrktaraðili um 20 íþróttafélaga um allt land, þá einna helst í handbolta, fótbolta og körfubolta. Má þar nefna FH, Stjörnuna, Hauka, Fjölni, ÍBV, Gróttu, Reyni Sandgerði, KA og Aftureldingu.
Sömuleiðis hefur Hagkaup verið stoltur stuðningsaðili íþrótta- og æskulýðsstarfa hér á landi í fjölmörg ár.
FORVARNIR OG LÝÐHEILSA
Bónus hefur verið án tóbaks í yfir 30 ár og aldrei selt tóbak eða sígarettur í verslunum sínum. Það stuðlar ekki einungis að aukinni lýðheilsu ungmenna og landsmanna allra, heldur verndar það líka umhverfið þar sem sígarettustubbar eru mjög mengandi. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru stubbarnir einn helsti mengunarvaldur sjávar þar sem þeir innihalda ýmis skaðleg eiturefni, þar á meðal þungmálma. Síurnar í stubbunum eru líka gerðir úr vissri tegund af plasti sem er mjög lengi að brotna niður í náttúrunni. Ein leið til að stuðla að samfélagslegri ábyrgð er að sýna gott fordæmi í umhverfismálum og á sama tíma lýðheilsumálum eins og Bónus gerir á þessu sviði.
Hagkaup leggur mikla áherslu á fjölbreytt og gott úrval heilsusamlegra valkosta í grænmetistorgum og salatbörum. Verslanir Hagkaups bjóða upp á ávexti fyrir börnin án endurgjalds og þannig vill Hagkaup stuðla að bættri lýðheilsu barna og á sama tíma gera verslunarferðina auðveldari og ánægjulegri fyrir bæði foreldra og börn.
Olís hóf samstarf við Píeta samtökin í byrjun árs 2018 en samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Auglýsingaherferðin Segðu það upphátt var sett í loftið í samstarfi við Olís-deildina í handbolta og Píeta til þess að vekja athygli á mikilvægi þess að tala opinskátt um líðan sína og að fólk sem glímir við vanlíðan leiti sér hjálpar.
atvinna með stuðningi
Bæði Bónus og Hagkaup hafa tekið virkan þátt í verkefninu Atvinna með stuðningi í samstarfi við Vinnumálastofnun til fjölda ára. Samstarfið felst í því að finna rétta starfið í verslunum Bónus og Hagkaups fyrir einstaklinga með skerta vinnugetu vegna andlegrar og/eða líkamlegrar fötlunar og veita þeim stuðning á nýjum vinnustað.
góðgerðarsamtök
Fyrirtæki Haga gefa reglulega til góðgerðarsamtaka hér á landi. Bananar eru þar á meðal og fær Samhjálp til að mynda vikulegar matargjafir í formi grænmetis og ávaxta. Það sama er upp á teningnum hjá vöruhúsi Aðfanga þar sem Samhjálp fær gefnar nýtanlegar vörur sem ekki eru ónýtar. Um 25% af rýrnun Aðfanga nýtist áfram til Samhjálpar.
Gefum og gleðjum er fjáröflunarátak Olís þar sem tiltekin samtök eða
góðgerðarmálefni fá fimm krónur af hverjum seldum lítra þess dags. Meðal þeirra sem hafa notið góðs af átakinu eru Stígamót, Landsbjörg, Samhjálp, Geðhjálp og fjöldi annarra félaga.
Menning
Olís leggur ýmsum menningarmálum lið um allt land. Má þar nefna stuðning við leikfélög, kvikmyndagerð, bæjarhátíðir og önnur menningartengd málefni.