Samfélagsuppgjör

Samfélagsleg ábyrgð

Hagar eru fjölskylda af fyrirtækjum sem að starfa á íslenskum matvöru-, sérvöru- og eldsneytismarkaði. Öll fyrirtæki Haga hafa það markmið að veita framúrskarandi þjónustu, selja gæða vörur á sanngjörnu verði og hafa eins jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag og mögulegt er.

Á vegum Haga eru reknar níu sjálfstæðar rekstrareiningar með ólík rekstrarform og menningu. Allar einingarnar leggja áherslu á hagkvæman rekstur, góða þjónustu og hámörkun á virði fyrir viðskiptavini og eigendur félagsins. Rekstrareiningar Haga búa yfir áralangri þekkingu á viðskiptum og smásölu og byggja á trausti viðskiptavina sem áunnist hefur um langt árabil.

Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð

Hagar hafa lagt metnað frá upphafi í að þjóna íslenskum neytendum með ábyrgum hætti. Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð er langtímaáætlun félagsins um hvernig það getur lagt sitt að mörkum til betra og heilbrigðara samfélags og umhverfis, samhliða heilbrigðum rekstri. Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð byggir á fimm meginstoðum; umhverfi, samfélag, mannauður, stjórnarhættir og lýðheilsa. Stoðirnar móta þær áherslur sem félagið fer eftir og mótar þau lykilverkefni sem unnið er að hverju sinni. Meginstoðirnar fimm eru ekki innbyrðis háðar og ein stoð er ekki annarri mikilvægari. Stefnan segir auk þess til um hvernig samskiptum við hagsmunaaðila verði háttað. Helstu hagsmunaaðilar Haga eru starfsfólk, hluthafar, viðskiptavinir, birgjar og fjármögnunaraðilar, fjölmiðlar auk samfélagsins í heild sinni. Samfélagsleg ábyrgð er hluti af grunnrekstri félagsins og er höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku í öllum málefnum. Við mat á árangri skal horft til þeirra áhrifa sem félagið hefur á samfélag sitt og umhverfi, auk arðsemi.

Hagar hafa sett sérstaka stefnu í umhverfismálum fyrir Haga og dótturfélög. Stefnan er sett fram í þeim tilgangi að leggja áherslu á umhverfissjónarmið í öllum daglegum rekstri. 

Mandarinur-_1622557629943

Hagar eru aðilar að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Einnig hafa Hagar gert samning við Klappir Grænar lausnir hf. en markmið með samningnum er að ná mælanlegum árangri í umhverfismálum og málum tengdum sjálfbærni.

Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna

Hagar hafa valið sex af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna til þess að styðja enn frekar við stefnu félagsins í samfélagslegri ábyrgð.  Markmiðin eru; 9: Nýsköpun og uppbygging, 12: Ábyrg neysla og framleiðsla, 10: Aukinn jöfnuður, 5: Jafnrétti kynjanna, 8: Góð atvinna og hagvöxtur, 13: Aðgerðir í loftlagsmálum.

Heimsmarkmid-Haga-mynd-an-lina

Heimsmarkmiðin styðja stefnustoðir félagsins og er ætlað að virkja stjórnendur til innleiðingar á framkvæmdaráætlun í sjálfbærni og samfélagslegum verkefnum. Rekstrarfélögin Bónus, Hagkaup og Olís hafa öll valið sér heimsmarkmið í samræmi við rekstrarlegar áherslur og eru þau ítarlega kynnt í samfélagsskýrslum fyrirtækjanna sem finna má hér neðar á síðunni. 

Sjálfbærniuppgjör Haga (UFS)

Hagar og öll rekstrarfélögin hafa í samvinnu við Klappir Grænar lausnir hf. innleitt umhverfisstjórnunarkerfi Klappa og unnið að greiningu á mælanlegum árangri félagsins í umhverfismálum og öðrum málum tengdum sjálfbærni. Klappir hafa í samvinnu við Haga tekið saman samfélagsuppgjör samstæðunnar fyrir rekstrarárið 2020 skv. UFS leiðbeiningum Nasdaq. Niðurstöðum samfélagsuppgjörs Haga er skipt í þrjá hluta: umhverfi , félagslegir þættir og stjórnarhættir

Lykilþættir úr samfélagsuppgjöri Haga

  • Losun félagsins nam 4.402,2 tonnum koltvísýringsígilda (tCO2í), en það er 2,9% lækkun frá 2019. 

  • Losunarkræfni tekna árið 2020 var 36,81 tCO2í/milljón ISK, en það er 5,6% lækkun frá 2019.

  • Heildarorkunotkun félagins nam 69.617.909 kWst. Orkunotkun samanstendur af rafmagns-, heitavatns-, og eldsneytisnotkun. Óbein orkunotkun vegna rafmagns og heitavatnsnotkunar nam 65.987.520 kWst.

  • Heildarmagn úrgangs frá rekstri Haga hf. árið 2020 nam 5.688.345 kg, sem er 1,3% lækkun frá 2019.

  • Flokkunarhlutfall Haga hf. hækkaði um 4 prósentustig frá 2019, úr 62,1% í 66,1%. 

  • Úrgangskræfni veltu var 47,6 kg/milljón ISK, en það er 3,8% lækkun frá 2019.

Hagar hafa kolefnisjafnað rekstur sinn að fullu með mótvægisaðgerðum með fjárfestingu í verkefnum á vegum Kolviðar og Landgræðslunnar. Samtals mótvægisaðgerðir jafngilda 4.402,2 tCO2í.

Rekstrareiningar og samfélagsleg ábyrgð

Fyrirtækin Bónus, Hagkaup og Olís hafa öll gefið út samfélagsskýrslu fyrir rekstarárið 2020. Í skýrslunum má finna ítarlega samantekt á helstu sjálfbærni og samfélags verkefnum og árangri á árinu. Einnig má finna samantekt um sjálfbærnimarkmið fyrirtækjanna fyrir árið 2021. Aðföng og Bananar hafa einnig gefið út umhverfisuppgjör í samvinnu við Klappir fyrir rekstrarárið 2020. Skýrslurnar má sjá hér neðar á síðunni. 

SAMFÉLAGSSKÝRSLA BÓNUS

Bonus-samfelagsskyrsla-2020-mynd Samfélagsskýrsla Bónus fyrir árið 2020.

Bónus var stofnað árið 1989 þegar fyrsta verslunin var opnuð við Skútuvog 13 í Reykjavík. Eftir því sem að árunum líður hefur verslunum fjölgað og voru þær í árslok 2020 alls 31 talsins, 19 staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og 12 á stórum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni. Bónus hefur allt frá stofnun boðið viðskiptavinum sínum lægsta mögulega matvöruverð á Íslandi. Lykillinn að því hefur verið lágur rekstrarkostnaður, íburður í lágmarki, styttri opnunartími og takmörkun í vöruúrvali. 

Bónus hefur frá stofnun lagt mikla áherslu á umhverfismál og til að mynda flokkað plast, pappa og annan úrgang í fjölda ára. Hjá Bónus er unnið eftir hvatningaorðunum minni úrgangur og meiri endurvinnsla. Bónus hlaut umhverfisverðlaun Terra árið 2020 fyrir markvissan árangur og ábyrga stefnu fyrirtækisins í flokkun og endurvinnslu á sorpi. Til þess að fagna þessum frábæra árangri bauð Bónus viðskiptavinum upp á 20 tonn af ókeypis moltu sem var framleidd úr lífrænum úrgangi frá Bónus. Verkefnið var frábært dæmi um endurvinnslu og hvernig virkja má hringrásarhagkerfið með það að markmiði að koma alltaf verðmætum aftur til skila út í umhverfið.

Bónus hefur markvisst unnið gegn matarsóun og þá helst með því að hámarka birgðarstýringu í verslunum ásamt því að fækka vöruflokkum.  Bónus seldi á árinu 130 tonn af útlitsgölluðum ávöxtum á sérstökum afslætti. Einnig hefur Bónus lagt áherslu á að lágmarka breytingu á hitastigi á grænmeti og ávöxtum í verslunum til þess að tryggja líftíma þeirra sem lengstan og lágmarka þannig líkur á sóun.

Bónus var fyrsta matvöruverslunin á Íslandi sem að hætti sölu á plastburðarpokum. Stefna félagsins um að lágmarka plastnotkun skilaði um 30 tonna minni plastnotkun á árinu með ýmiss konar verkefnum tengdum umbúðum. 

Bónus var fyrst matvöruverslana á Íslandi til þess að kolefnajafna rekstur sinn og hefur í samvinnu við Kolvið jafnað alla starfsemi fyrir rekstarárið 2020. 

Stærsta samfélagslega verkefni Bónus frá upphafi hefur verið að bjóða upp á sama lága verðið í verslunum Bónus á öllu landinu. Einnig hefur Bónus stutt fjöldann allan af samfélagslegum verkefnum á árinu, t.d. Veraldarvini, Team Rynkeby, Páskaegg til barna á Grænlandi, Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd ásamt stuðningi við fjölda íþróttafélaga. 

SAMFÉLAGSSKÝRSLA HAGKAUPs

Hagkaup-samfelagsskyrsla-2020-mynd Samfélagsskýrsla Hagkaups fyrir árið 2020.

Hagkaup er leiðandi smásölufyrirtæki sem að býður breitt vöruúrval til daglegra þarfa í matvöru, snyrtivöru og leikföngum ásamt góðu úrvali af fatnaði, tómstundar- og heimilsvöru. Hagkaup var stofnað árið 1959 og á starfsemi fyrirtækisins djúpar rætur í íslensku samfélagi, enda verið órofinn hluti af verslunarsögu landsins í rúm 60 ár. 

Hagkaup rekur sjö verslanir, sex á höfuðborgarsvæðinu og eina á Akureyri. Hagkaup leggur áherslu á fjölbreytt vöruúrval og gott aðgengi. Tvær verslanir eru opnar allan sólarhringinn, Skeifan og Garðabær. 

Með það að markmiði að taka markviss og mælanleg skref í umhverfismálum hefur Hagkaup gengið til samstarfs við Klappir grænar lausnir hf. og Kolvið. Hagkaup notast við umhverfisstjórnunarkerfið EnviroMaster frá Klöppum til að fylgjast með og greina mælanlegan árangur fyrirtækisins í umhverfismálum. Kerfið gerir stjórnendum kleift að fylgjast með t.d. eldsneytisnotkun, útprentun, magni úrgangs, flokkun og endurvinnslu, rafmagns- og vatnsnotkun. Síðustu þrjú ár hefur Hagkaup kolefnisjafnað rekstur sinn í samvinnu við Kolvið með bindingu jarðvegs og auðgun gróðurvistkerfa með skógrækt.  Hagkaup kolefnisjafnaði rekstur sinn að fullu fyrir árið 2020 í samvinnu við Kolvið. 

Árið 2020 lagði Hagkaup sérstaka áherslu á umhverfisvænni vörur. Aukning í vöruflokkum tengdum vegan- og grænmetisfæði er liður í því sem og aukin framleiðsla á eigin vörum með jákvæðari umhverfisáhrifum, t.d. hnetusteik og salöt. Sérstök áhersla var lögð á að fjölga umhverfisvænni leikföngum, t.d. bangsar sem framleiddir voru úr endurunnum plastflöskum og viðarleikföng í stað plastleikfanga. 

Hagkaup leggur mikla áherslu á að draga úr matarsóun. Öflugt innra kerfi hjálpar við að besta innkaupa- og söluferla til að hámarka nýtingu og lágmarka sóun. Hagkaup hefur einnig selt mikið af ferksvörum eins og kjöt, sushi, grænmeti og ávexti á sérstökum afslætti til þess að draga úr sóun. Samkvæmt samfélagsuppgjöri frá Klöppum þá dróst óflokkaður úrgangur saman um 13,4% á milli ára. 

Hagkaup hefur lagt sérstaka áherslu á stuðning við nýsköpun með því að vinna náið með smáframleiðendum við að koma vöru sinni á framfæri í verslun en mikil aukning hefur verið á vöruflokkum frá íslenskum smáframleiðendum. Einnig leggur Hagkaup sérstaka áherslu á að sækja vörur fyrst úr nærumhverfi svo lengi sem að þær standast gæðakröfur. 

Hagkaup hefur veitt fjölda styrkja til góðra verka á árinu, m.a. til íþróttafélaga, góðgerðarmála, menningar- og æskulýðsstarfa.

SAMFÉLAGSSKÝRSLA OLÍS

Olis-samfelagsskyrsla-2020-mynd Samfélagsskýrsla Olís fyrir árið 2020.

Olís er eitt af stærri verslunar- og þjónustufyrirtækjum landsins og rekur yfir 70 útsölustaði á landinu öllu. Fyrirtækið á sér langa sögu sem er samofin þróun íslensks samfélags í næstum hundrað ár, en Olís var stofnað 3. október 1927.

Olís sérhæfir sig í sölu og þjónustu með eldsneyti og aðrar olíuvörur, auk skyndibita, ýmissa nauðsynjavara fyrir bílaeigendur, vörum til útivistar og ferðalaga ásamt fjölþættri þjónustu við sjávarútvegs-, verktaka- og flutningafyrirtæki um land allt. Grunnrekstur Olís hefur ávallt verið eldsneytissala, en með nýtingu á dreifineti fyrirtækisins og sérfræðiþekkingu hefur aukist sala á öðrum vörum, líkt og smurolíum, efnavörum, rekstrarvörum, gasi og nýlenduvörum. Olís á 40% hlut í Olíudreifingu ehf. en Olíudreifing sér m.a. um birgðahald og dreifingu á fljótandi eldsneyti fyrir Olís.

Meginmarkmið Olís er að vera leiðandi fyrirtæki á Íslandi hvað varðar arðbæran rekstur, þjónustu við viðskiptavini, gæði vara, umhverfisvernd og góða ímynd, þar sem sérstök áhersla er lögð á stuðning við umhverfis- og mannúðarmál ásamt sjálfbærni. 

Olís hefur allt til ársins 1992 verið í samstarfi við Landgræðsluna um kolefnisjöfnun á rekstri félagsins. Kolefnisjöfnunin hefur verið notuð til þess að endurheimta votlendi, birkiskóga og þurrlendisvistkerfi.  Einnig hefur Olís tekið þátt í kostnaði þeirra viðskiptavina sem að kjósa að kolefnisjafna eldsneytiskaup sín. 

Olís hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á flokkun sorps og endurvinnslu. Félagið notar umhverfisstjórnunarkerfi frá Klöppum til mælanleika þegar kemur að umhverfismálum og sjálfbærni. Stöðugar endurbætur hafa verið gerðar hvað varðar flokkun á þjónustustöðvum Olís. Fyrirtækið hefur á síðasta ári lagt aukna áherslu á umhverfisvænni vörur og áfylling á vörum er liður í því. Nú styttist í að allar þjónustustöðvar Olís geti hafið umbúðarlausa sölu á rúðuvökva, frostlegi og smurolíu. 

Hraðhleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla eru komnar á fjórar þjónustustöðvar Olís; Í Álfheimum í Reykjavík, Siglufirði, Reyðarfirði og Höfn í Hornarfirði. Stefnan er að fjölga slíkum stöðvum jafnt og þétt um allt land. 

Eitt af markmiðum Olís hefur verið að vera virkur þátttakandi í jákvæðri uppbyggingu í samfélaginu og á hverju ári styður félagið við málefni sem að auðga og efla samfélagið. Þar má nefna framlög til mannúðarstarfs, landræktarverkefna, menningar og íþrótta.

Umhverfisuppgjör Aðfanga og Banana

Aðföng er eitt stærsta og tæknivæddasta vöruhús landsins. Þar er lögð mikil áhersla á stærðarhagkvæmni og er nýjasta tækni nýtt við rekstur vöruhússins hvar sem því verður við komið. Vöruhús Aðfanga er því sem næst pappírslaust og öflug tölvukerfi halda utan um feril vara frá upphafi til enda. Umhverfisuppgjör Aðfanga var unnið í samstarfi við Klappir Grænar lausnir hf. Aðföng hafa að fullu kolefnisjafnað rekstur sinn fyrir árið 2020 með fjárfestingu í gróðursetningu í samstarfi við Kolvið.

Blaber-mynd

Bananar er stærsti dreifingaraðili á fersku grænmeti og ávöxtum á Íslandi og jafnframt eitt stærsta innflutningsfyrirtæki landsins.  Bananar vilja mæta þörfum og kröfum viðskiptavina sinna um góð gæði og fjölbreytt vöruúrval. Til þess að sinna þessum þörfum hafa Bananar bein viðskiptasambönd út um allan heim og má þar nefna Kína, Brasilíu, Suður Afríku, Kanada, Chile, Argentínu, Holland USA og Spán. Umhverfisuppgjör Banana var unnið í samstarfi við Klappir Grænar lausnir hf. Bananar hafa að fullu kolefnisjafnað rekstur sinn fyrir árið 2020 með gróðursetningu trjáa í samvinnu við Kolvið. 

Lykiláherslur og markmið 2021

Hagar og dótturfélög hafa um langt árabil verið meðal fremstu fyrirtækja landsins þegar kemur að sjálfbærni- og samfélagsmálum. Stærstu verslunarkeðjur Haga, Bónus og Hagkaup, ásamt Olís hafa náð góðum árangri í mikilvægum málum eins og að draga úr matarsóun, auka flokkun úrgangs og minnkun á plastnotkun. Einnig hafa öll fyrirtækin tekið jákvæð skref í orkunotkun. En betur má ef duga skal. 

Hagar og dótturfélög hafa sett sér markmið að vera markvisst hreyfiafl í átt að bættu samfélagi og liður í því er að skilgreina enn frekar samfélagslegar áherslur og markmið Haga og dótturfélaga til næstu ára út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í samfélagsskýrslum Bónus, Hagkaups og Olís má sjá yfirlit yfir sjálfbærnimarkmið rekstrareininganna fyrir árið 2021.

Bónus hefur sett sér sjálfbærnimarkmið fyrir árið 2021. Meðal markmiða er að hækka endurvinnsluhlutfall um 2%, minnka heildar kolefnisspor um 2% og fjölga LED lýsingum í verslunum. Einnig eru markmið um að fjölga matargjöfum um 5% og kynna sértæka innkaupastefnu fyrir starfsmönnum. Nánari útlistun á sjálfbærni og samfélagslegum markmiðum Bónus má sjá í samfélagsskýrslu félagsins.

Mynd-markmid-Bonus-uppfaerd

Hagkaup hefur sett sér metnaðarfull markmið fyrir sjálfbærni og samfélagsleg málefni fyrir árið 2021. Meðal markmiða er að auka flokkun sorps í verslunum í 57% hlutfall, minnka orkunotkun um 5% og notkun á jarðefnaeldsneyti um 3%. Skipta freon kælum út fyrir Co2 í tveimur verslunum, yfirfæra eigin vöruframleiðslu í umhverfisvænni umbúðir, fjölga heilsutengdum og plöntumiðuðum vörum og auka samstarf við innlenda framleiðendur svo fátt eitt sé nefnt. Nánari útlistun á sjálfbærni og samfélagslegum markmiðum Hagkaups má sjá í samfélagsskýrslu félagsins.

Hagkaup-sjalfbaerni-markmid-2021-uppfaerd-mynd

Olís hefur sett sér skýr markmið fyrir umhverfis- og samfélagsleg málefni fyrir árið 2021. Meðal markmiða er að fullmóta stefnu er varðar orkusölu, hefja notkun á endurunnum plastbrúsum hjá Mjöll Frigg, aukinn árangur í flokkun sorps, innleiðing á innkaupastefnu og jafna kynjahlutfall í stjórnunarstöðum. Sjá nánar um sjálfbærnimarkmið fyrir árið 2021 í samfélagsskýrslu Olís.

Olis-sjalfbaerni-markmid-2021