Um Haga

Staðan og framtíðarhorfur

Rekstrarárið sem nú var að líða einkenndist að mestu af áhrifum COVID-19 faraldursins og aðgerðum til að takmarka afleiðingar hans á ýmsa vegu. Sérstaklega var lögð áhersla á að tryggja öryggi starfsfólks, viðskiptavina og annarra samstarfsaðila samstæðunnar. Aðgerðirnar skipta miklu máli því stór hluti af starfsemi samstæðunnar, s.s. matvöruverslanir og tengd vöruhús, ásamt sölustöðum eldsneytis, gegna stóru hlutverki í innviðastarfsemi landsins, sérstaklega í krefjandi aðstæðum sem þessum. Mikið og gott samstarf hefur verið við birgja, stjórnvöld og fleiri hagaðila sem komið hefur í veg fyrir margvísleg vandamál líkt og vöruskort.

Áhrifa faraldursins fór strax að gæta í rekstri samstæðunnar í upphafi rekstrarársins, þegar velta í dagvöruhluta samstæðunnar fór að aukast, velta í eldsneytishlutanum dróst verulega saman og framlegð minnkaði. Áhrifin voru hvað mest á fyrsta ársfjórðungi þegar gengisfall íslensku krónunnar og lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu höfðu mikil áhrif á framlegð ásamt verðhækkunum frá birgjum. Rekstur á öðrum ársfjórðungi gekk vel, þar sem aukin verslun innanlands hafði jákvæð áhrif á afkomu allra rekstrareininga. Þriðji ársfjórðungur var lakari þar sem framlegð var heldur undir væntingum, auk þess sem rekstrarkostnaður hækkaði nokkuð vegna faraldursins. Afkoma fjórða ársfjórðungs var svo umfram væntingar með ágætri veltuaukningu og bættri framlegð. Afkoma ársins í heild er lítillega yfir efri mörkum útgefinnar afkomuspár og er það niðurstaða stjórnar og stjórnenda að vel hafi tekist til á árinu þrátt fyrir ófyrirsjáanleika og almennt mjög krefjandi aðstæður til rekstrar. Þar á starfsfólk Haga og dótturfélaga sérstakar þakkir skildar fyrir ósérhlífni og dugnað.

Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2021/22 sem nú er hafið gerir ráð fyrir að EBITDA afkoma samstæðunnar verði 8.600-9.100 millj. kr. Gert er ráð fyrir að áhrifa af faraldrinum muni gæta á samstæðuna fram á mitt rekstrarár 2021/22.

Fjárhagsleg staða samstæðu Haga er sterk og er félagið vel í stakk búið til að takast á við ögrandi aðstæður í íslensku efnahagslífi. Fjármögnun samstæðunnar er tryggð til langs tíma og er aðgangur að skammtímafjármögnun, að fjárhæð um 6,2 ma. kr., hjá viðskiptabanka einnig tryggð.