Um Haga

Matvöruverslanir

Hagar eiga tvær af stærstu smásölukeðjum landsins, sem reknar eru undir vörumerkjum Bónus og Hagkaups.

Bónus

Bónus var stofnað árið 1989 þegar fyrsta verslunin var opnuð við Skútuvog 13 í Reykjavík. Viðtökur landsmanna við hinni nýju verslun voru frábærar enda vöruverð mun lægra en þá þekktist. Eftir því sem að árunum líður hefur verslunum fjölgað og voru þær í árslok 2020/21 alls 31 talsins, 19 staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og 12 á stórum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni.

Ow61Zkug-min-1024x683

Markmið Bónus sem lágvöruverðsverslun hefur alla tíð verið að tryggja neytendum um land allt lægsta mögulega vöruverð hverju sinni. Lykillinn að því hefur verið lágur rekstrarkostnaður, íburður í lágmarki, styttri opnunartími en gengur og gerist, takmarkað vöruúrval sem spannar þó allar þarfir heimilisins, stöðugt kostnaðaraðhald og mikill veltuhraði. Leiðarljós fyrirtækisins hefur ávallt verið að láta viðskiptavini njóta ávinnings af hagstæðum innkaupum og hagkvæmum rekstri.  

Sjálfbærni og stuðningur við samfélagið hefur verið lykilþáttur í rekstri Bónus allt frá stofnun. Allar verslanir Bónus hafa til að mynda flokkað plast, pappa og annan úrgang í fjölda ára. Bónus kolefnisjafnar allar verslanir sínar fyrir rekstrarárið 2020. Bónus hefur einnig styrkt fjölbreytt lýðheilsuverkefni á landinu öllu. 

Hjá Bónus störfuðu í árslok 874 starfsmenn og var meðalfjöldi stöðugilda 393 á árinu.

Bonus-stjornendur

Framkvæmdastjórn Bónus skipa (frá vinstri): Otti Þór Kristmundsson, rekstrarstjóri, Erla Magnúsdóttir, fjármálastjóri og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri.

Hagkaup

Hagkaup var stofnað árið 1959 og á starfsemi fyrirtækisins djúpar rætur í samfélaginu enda verið órofinn hluti af verslunarsögu landsins í rúm 60 ár. Í upphafi var Hagkaup rekið sem póstverslun sem sendi vörur beint frá birgðageymslu og upp að dyrum kaupandans. Fyrsta Hagkaupsverslunin var svo opnuð við Miklatorg árið 1967 og árið 1970 opnaði Hagkaup verslun sína í Skeifunni, sem er eitt helsta flaggskip starfseminnar, enn þann dag í dag.

_DSC3139

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því fyrsta verslunin leit dagsins ljós og hefur rekstur Hagkaups ávallt aðlagað sig að síbreytilegu neyslumynstri landsmanna. Í dag er megináhersla lögð á breitt úrval í matvöru, snyrtivöru og leikföngum, auk þess sem seldar eru heimilisvörur, tómstundavörur og fatnaður. Hagkaup kappkostar að bjóða upp á landsins fjölbreyttasta vöruúrval og gera verslunarferðina eins ánægjulega og mögulegt er, allt á einum stað.  Í byrjun apríl 2020 endurvakti Hagkaup netverslun sína með sölu á leikföngum og matvöru. 

Í árslok rak Hagkaup átta verslanir, þarf af sex á höfuðborgarsvæðinu, eina á Akureyri og eina á Selfossi. Tvær verslanir Hagkaups, í Skeifunni og Garðabæ eru opnar allan sólarhringinn. Verslun Hagkaups á Selfossi var lokað í maí 2021.

Hagkaup hefur unnið ötullega í umhverfismálum sínum á síðustu árum, sem og aðgerðum til að minnka rýrnun og þar með matarsóun. Verslunin hefur kolefnisjafnað rekstur ársins 2020 í samvinnu við Kolvið. Einnig hefur verslunin unnið markvisst með birgjum í minnkun á plastnotkun innan verslana með góðum árangri. 

Í árslok voru starfsmenn fyrirtækisins 736 talsins og meðalfjöldi stöðugilda ársins var 350.

Hagkaup-stjornendurFramkvæmdastjórn Hagkaups skipa (frá vinstri): Ísak Pálmason, fjármálastjóri, Svanberg Halldórsson, rekstrarstjóri verslana, Arndís Arnarsdóttir, starfsmannastjóri, Brynjar Helgi Ingólfsson, rekstrarstjóri innkaupa- og markaðssviðs og Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri.